14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (982)

2. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þó að jeg geti sætt mig við það, þá má það ekki skiljast svo, að jeg geri það fyrir hönd flokks þess, er jeg telst til. Ræður margra hv. þm. benda í þá átt, að málið sje tekið til umr. Jeg bað um orðið vegna atriðis, sem kom fram í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.). Hinn fyrnefndi var ekki vonlaus um, að útvega mætti útlendan ráðunaut til að athuga málið. Jeg vil geta þess, að ekkert hefir enn þá verið gert til að útvega hann nú þegar, en tilraun hefir verið gerð í þá átt, að það gæti síðar orðið. Mjer dylst ekki, að á þessu atriði byggist mjög mikið, og mun komandi stjórn taka það mál til athugunar og úrgreiðslu.