10.02.1920
Efri deild: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

Kosning forseta og skrifara

Hinn nýkjörni forseti gekk þá til forsetastóls og ávarpaði deildina með þessum orðum:

Jeg þakka starf það, er mjer hefir verið falið á hendur, og vil jafnframt leyfa mjer að bjóða velkomna hina nýju þingmenn, sem hjer taka sæti.

Það er kunnugt, að hjer í næsta sal hefir Alþingi reist merki tveim mönnum. Er annar þeirra Jón forseti, er markaði á sinn skjöld: Aldrei að víkja; en hinum megin er Magnús Stephensen, er markað hafði á sinn skjöld: Festina lente, er merkir: Kapp er best með forsjá. Það hefir verið vilji vor hjer um undanfarin ár að láta efri deildina vera forsjálnina hjer á þingi. Það hefir verið mikið um það deilt, hvort betra væri að hafa þingið tvískift eða í einu lagi, en reynslan hefir ávalt sýnt, að í hinni stóru málstofu hefir kappið oft fengið að ráða, en forsjálnin setið að stjórn í efri deild, og vildi jeg segja það, um leið og jeg býð hina nýju menn velkomna, að vjer höfum reynt af vorum litla mætti að láta þetta verða svo, að þjóð vorri mætti verða fyrir bestu.

Þá ljet forseti ganga til kosningar um fyrri varaforseta.

Kosningin fór svo, að

Guðmundur Ólafsson hlaut 5 atkv.

Halldór Steinsson 4 atkv.

Guðjón Guðlaugsson 2 atkv. og Hjörtur Snorrason 1 atkv., en 1 seðill var auður.

Var kosningin því endurtekin. Hlaut þá kosningu

Guðmundur Ólafsson, 1. þm. Húnv., með 7 atkv. Halldór Steinsson hlaut 6 atkv.

Því næst ljet forseti fara fram kosningu annars varaforseta.

Fór kosningin á þessa leið:

Karl Einarsson hlaut 6 atkv. og

Halldór Steinsson 5 atkv., en

2 seðlar voru auðir.

Var því kosningin endurtekin, og urðu úrslitin hin sömu, sem við fyrstu kosningu.

Fór þá fram bundin kosning milli þeirra Karls Einarssonar og Halldórs Steinssonar, og fór enn á sömu leið.

Lýsti forseti þá yfir því, að kjörinn væri annar varaforseti

Karl Einarsson, þm. Vestm., með 6 atkv.

Þessu næst voru kosnir skrifarar deildarinnar, að viðhafðri hlutfallskosningu.

Einn listi var borinn fram, með nöfnum tveggja manna, eða jafnmargra og kjósa skyldi, og lýsti forseti þá rjett kjörna skrifara deildarinnar, en þeir voru þessir:

Sigurður Hjörleifsson Kvaran, 2. þm.

S.-M., og

Hjörtur Snorrason, 5. landsk. þm.