21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg mun ekki gefa tilefni til að auka mikið við umræður; vil aðeins lýsa því yfir, að jeg er mótfallinn þessu frv. og mun koma fram með annað frv. í fjárhagsnefnd, sem fer í aðra átt, verðskattsfrumvarp. Ástæðan til þess, að jeg er mótfallinn frv., er sú, að skattgjaldið er mjög órjettlátt, eins og því er fyrirkomið í frv. Útgerðarmenn hafa orðið að borga stórfje í ríkissjóð, enda þótt lítið eða ekkert hafi selst af síldinni og flutningskostnaður ekki einusinni fengist borgaður. Jafnvel dæmi til þess, að útgerðarmenn hafi orðið að borga 10–15 þúsund kr. í skatt af atvinnu, sem rekin hefir verið með hundrað þúsunda kr. halla. Að vísu skal jeg viðurkenna, að það er kostur við frv., að útlendingar koma til að borga mikið af tollinum, en það eitt er þó ekki nægilegt frv. til rjettlætingar. Frv. mitt mun fara í þá átt, að hár verðskattur sje lagður á þann hreina ágóða, sem verða kann af síldarsölunni, og veit jeg, að þar um er mjer sammála fjöldi útgerðarmanna á Ísafirði og norðanlands, og útgerðarmenn á Ísafirði hafa látið það í ljós við mig, að þeir sættu sig við það, þó að þeir yrðu að gjalda alt að 2 krónum af hverjum 5 krónum, sem þeir hefðu í hreinan ágóða, fremur en það skattgjald, sem fram á er farið í frv.

Í þetta sinn læt jeg mjer nægja að benda á það, að við útreikning á skattinum myndi hægt að láta hagstofuna reikna út meðalútgerðarkostnað, og miða svo skattgjaldið við þann ágóða, sem umfram kynni að vera.