25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get að mestu vísað til nál. fjhn. á þskj. 348 um meðferð nefndarinnar á þessu máli. Eins og sjá má þar, er á frv. gerð ein breyting, sem nokkru skiptir, eins og það kom frá háttv. stjórn.

Þessi breyting er talsvert rómann, og má vera að sumum sýnist hún athugaverð, þó að nefndinni virðist það ekki. En þessi breyting byggist á sterkum mótmælum frá síldveiðamönnum gegn þessum feiknaskatti, sem tekinn er án tillits til söluverðsins. Þetta útflutningsgjald er óvenjulega hátt, og hefir aldrei verið jafnhátt sem nú, að síðastliðnu ári undanskildu. En eins og kunnugt er, þá er veiði þessi mikið stunduð af útlendingum, og því gekk þingið 1919 svo langt í að hækka þennan skatt sem það gerði, eða í 3 kr. af tunnu hverri. Fyrir þennan tíma var þessi skattur mjög miklu lægri. Frá 1907–1912 var hann 50 aurar á tunnu, og frá 1912–1919 var hann 25 aurar aðeins. En það er fleira, sem hvetur til þess að hafa gjaldið hátt en veiði útlendinganna. Margir eru það, sem telja tvísýnt, hvort þessi atvinnuvogur sje hollur þjóðfjelaginu. Veiði þessi fer fram þegar annir eru mestar við önnur störf, og dregur hún fjölda fólks frá öðrum atvinnuvegum, en auk þess vill oft fara svo, að veiðin bregst og fólkið kemur tómhent heim.

Endurgreiðslan á skattinum, ef skaði verður á sölu síldar, sem nefndin leggur til, er ekki eins mikil og útgerðarmenn fóru fram á. Töldu þeir rjett að endurborga hann að fullu, þegar skaði yrði á sölunni.

Má þetta að vísu teljast sanngjarnt, en svo langt taldi nefndin sjer þó ekki fært að ganga, enda mundi það valda altof miklu misrjetti milli erlendra og innlendra manna og valda ágreiningi.

Mjer hefir verið bent á, að þessi brtt. nefndarinnar mundi valda óánægju hjá búsettum útlendingum hjer, sem ekki hafa ríkisborgararjett. Má vera, að þetta sje rjett, en eins og nú er komið, þá er ekki jafnrík ástæða til fullkomins jafnaðar sem 1919, því að þá vorum við meira upp á grannþjóðirnar komnir.

Önnur brtt. er við 10. gr. og lýtur að því að láta þessar ívilnanir ná til þeirra manna, er veiða síld á þessu sumri. Má rjettlæta hana með því að benda á, að litlar líkur eru fyrir því, að veitt verði mikið á þessu sumri, einkum ef lögin frá 1919 verða látin gilda til næsta árs.