25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir tekið það fram að mestu leyti, sem jeg þurfti að taka fram um endurborgunina og fyrirkomulagið á henni, og þarf jeg engu að bæta við um það.

Eins og hann gat um og gert er ráð fyrir í aths. nefndarinnar, þá taldi nefndin ekki heppilegt að láta þetta fyrirkomulag gilda um aðrar tegundir af útflutningsvörum.

En út af því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði um erfiðleikana, sem mundu leiða af því, að þetta ákvæði væri sett, að ákveða hvenær rjett væri eða ekki að greiða útflutningsgjald af síldinni, þá vil jeg benda á það, að eftir till. nefndarinnar er það tiltölulega fljótt, að krefjast verður endurgreiðslu, því að innan árs verður að liggja fyrir vottorð um söluna.

Þeim, sem því lengi drægju söluna, í von um meiri gróða, og yrðu þar af leiðandi of seinir að tryggja sjer endurgreiðslu á tollinum, ef illa færi, væri engin vorkunn.

Mjer finst líka, að ekki sje hægt að skoða þetta sem verðlaun fyrir að neita góðum markaði, þó að einhver hafi tapað, af því að hann hafi ekki selt jafnsnemma og aðrir, eða af öðrum orsökum farið á mis við hagkvæma sölu. Og þótt það kæmi fyrir, að einstöku maður tapi, af því að hann ekki hefir selt nógu snemma, þá þarf það ekki að vera sjálfsögð regla.

Hæstv. fjrh. (M. G.) tók það fram, að ekki væri ástæða til að hvetja menn til að stunda þennan atvinnuveg. En hvötin verður ekki mikil, þó að þeir fái þessa ívilnun; miklu fremur er hætta á, að þessi lög verði til að aftra mönnum frá að leggja í þessa veiði. Það er að þessu leyti dálítið varhugavert að fella niður gjaldið, ef illa tekst til um söluna, eins og hitt að halda því svo háu, að menn skirrist við að veiða.

Það hefir líka altaf verið meira bent á skuggahliðar þessa atvinnuvegar en kosti hans, og skal jeg líka játa, að kostirnir hafa oft reynst rýrir.