25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Jeg get ekki hjá því komist að andmæla ræðu hæstv. fjrh. (M. G.). Það lítur út fyrir, að þessi fáránlegi skilningur á þessu máli ætli að verða arfgengur hjá fjármálaráðherrunum mann fram af manni. Það var stefna fyrverandi fjármálaráðherra að hafa ósanngjarnan toll á síldveiðinni, til þess að fá hann nógu háan að krónutölu á pappírnum, þótt fyrirsjáanlegt væri, að hann gæti aldrei komið inn, svo ósanngjarn sem hann hefir verið nú síðustu árin.

En jeg lít öðruvísi á þetta mál. Jeg álít, að menn sjeu að svíkja sjálfa sig, með því að gera sjer óheilbrigðar vonir um tekjur fyrir ríkið af þessu; jeg vildi reyna að komast hjá því, að þessi vonbrigði þyrftu að eiga sjer stað.

Þegar litið er á, hvaða breyting er á orðin síðan 1907 — þá var tollurinn 20 aurar, en nú er hann orðinn 3 krónur — þá sjer maður, hvað afskapleg ósanngirni hefir verið frammi höfð í garð þeirra, er þennan atvinnurekstur stunda.

Á þinginu 1907, þegar sú breyting kom fram að hækka tollinn úr 20 aurum upp í 50 aura, mætti hún talsverðum mótblæstri. Og þá var löggjafarvaldið svo sanngjarnt að sjá það, að of freklega var að farið, og var því jafnframt ákveðið að endurgreiða innlendum mönnum talsverðan hluta af tollinum. Þá var nú litið svo á málið, og finst mjer sá skilningur vera talsvert heilbrigðari. En til allrar óhamingju hafa nú komið nýir menn, og með þeim ný stefna, sem gerir það að verkum, að ekki er talið rjettmætt að endurgreiða, og því síður að afnema þessa hækkun, sem orðið hefir á tollinum, sem aldrei skyldi verið hafa. Stefna þessara manna er sú að íþyngja þessum atvinnurekstri, með því að bæta við sköttum og hækka þá, uns fullvíst er, að útvegurinn fær ekki undir risið. Þetta hygg jeg, að geti líka valdið miklum erfiðleikum fyrir aðra atvinnuvegi, því að sje síldveiðin rekin í stórum stíl, þá eru það oft margvíslegir hagsmunir, ekki einungis fyrir atvinnurekendur sjálfa, heldur og fyrir alþjóð.

Í sambandi við þetta vil jeg benda á það, að þótt því sje haldið fram, að síldveiðin hafi sjerstaklega orðið til að hækka kaupgjaldið, og með því gert öðrum atvinnuvegum erfitt fyrir, þá er að líta á það, að á stríðsárunum, þegar dýrtíðin óx svo afskaplega og verð lífsnauðsynja margfaldaðist, þá var það aðalhjálpin, að hægt var að stunda þann atvinnuveg, sem einn var fær um að greiða það kaupgjald, að almenningur var fær um að framfleyta lífinu af því. Það verður líka að líta á þessa hlið sem hina, að síldveiðin hefir valdið því, að kaupgjald hækkaði; það varð að hækka, til þess að fólk gæti lifað. Þegar frv. kom fram um, að landið seldi lífsnauðsynjar undir verði, þá hefði orðið að samþykkja það, ef þessi atvinnuvegur hefði ekki verið. Og hvernig hefði þá farið?

Jeg er sannfærður um, að þessi fjárhagsvandræði, sem nú standa yfir, hefðu þá riðið landinu að fullu, ef gjaldþrotið hefði ekki áður verið skollið yfir.

Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi brtt. ekki heppilegar. En mjer er óhætt að segja, að það eitt út af fyrir sig er ekki nægilegt til að sannfæra nefndina um, að þær sjeu óviðeigandi. Jeg varð ekki var við röksemdir. Þótt hann reyndi að benda á það, hvað erfitt mundi verða með sanni að ákveða kostnaðinn, þá hafði nefndin athugað það atriði nokkuð, áður en hún ljet málið frá sjer fara, og var henni það fullljóst, að hægt var að fá fastan grundvöll, er ákveða mætti kostnaðinn eftir, ekki í hverju einstöku tilfelli, heldur fyrir heildina, svo ekki þyrfti að muna neinu verulegu.

Á hverju ári er nokkurnveginn fastákveðið verðlag á tunnum og salti og ákveðið verð á vörunni ósaltaðri. Verkalaunin eru ekki svo misjöfn, að komið geti til mála að eltast við það hjá hverjum einstaklingi. Þess vegna ætti ekki að vera mjög erfitt að ákveða verðið eða kostnaðinn. Fyrir þessu er einnig sett næg trygging í brtt., að lögreglustjórar rannsaki málið og að útborgun eigi sjer ekki stað, nema með samþykki stjórnarráðsins, og ætti þá að vera nógu tryggilega um búið.

Hitt, sem hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á, að það mundi fara svo, að þeir einir, sem fyrir slóðaskap yrðu illa úti um söluna, mundu fá tollinn endurgreiddan. Á hinn bóginn mun það ekki þykja mannúðlegt að heimta mest af þeim mönnum, sem eru sjerstaklega óheppnir, því að það mun ekki lengi mikið af þeim að hafa, sem ár frá ári stunda síldveiðar með tapi, og býst jeg við, að það mundi fljótlega gera þá öreiga, svo þeir yrðu ekki færir um að greiða tollinn.

Ein ástæðan, sem hæstv. fjrh. (M. G.) færði fram á móti brtt., var sú, að varhugavert væri að færa niður tollinn, því að það mundi hvetja menn til að stunda þennan atvinnuveg. Jeg held, að við sjeum ekki alveg sammála um gildi þeirrar ástæðu, vegna þess, að jeg álít, að það væri bæði skömm og skaði, að innlendir menn yrðu að hætta við þennan útveg alveg, og þar með gefa útlendingum gott tækifæri til að ásælast þau gæði, er ættu að falla þjóðinni sjálfri í skaut.

Það lítur út fyrir, að menn reyni að stuðla að því, að landið verði meir og meir að fjeþúfu útlendinga, að því leyti, er þennan atvinnuveg snertir. Við vitum, að Svíar og Norðmenn telja það mikilsvert að eiga ítök í þessum atvinnuvegi hjer við land, og ef eitthvað er gert í þá átt að hindra yfirgang þeirra, þá telja þeir það stóra hættu sínum atvinnurekstri, og gera alt sitt til að aftra því, jafnvel leggja stórfje úr ríkissjóði sínum til að efla síldveiðar sinna manna hjer við land.

En hjer ríkir sú stefna, að gera mönnum illkleift eða ómögulegt að halda honum áfram, með því að leggja á þennan háa toll, sem bersýnilega og óhjákvæmilega verður til að ríða þessum atvinnuvegi að fullu.

Þótt það sje ekki sjerlega skemtilegt, þá verð jeg þó að lýsa því yfir, að svo framarlega sem tillögur nefndarinnar ná ekki fram að ganga, þá verð jeg að greiða atkvæði á móti frv. Nefndin hefir gert sínar brtt. til að reyna að bæta úr afleiðingum þeim, sem frv. hlyti að hafa, ef það yrði samþ. óbreytt.

Jeg skal lýsa því yfir, að eftir minni skoðun er of skamt gengið í till. nefndarinnar. Jeg álít, að endurgreiða ætti allan tollinn innlendum mönnum. En þetta ráð var tekið til samkomulags, því að það þótti ekki líklegt, að sú tillaga næði fram að ganga, að endurgreiða allan tollinn, ef skaði yrði á útgerðinni, þar sem þeirrar stefnu er nú farið að verða vart hjer í þinginu, að ekki sje fráleitt að leggja þungan skatt á atvinnurekstur, jafnvel þótt ekki geti verið um annað að ræða en beint tap.

Maður verður oft að sætta sig við það, að koma ekki sínu máli fyllilega fram, ef maður með samkomulagi og tilhliðrun kemst nærri því. Þess má raunar geta, að svo getur farið með síldveiðina, að ekkert þurfi að endurgreiða af tollinum, og það þótt enginn hagnaður verði af útgerðinni.

Jeg býst við því, að sumum þyki nú mál mitt orðið sæmilega langt, og skal því ekki fjölyrða mjög um það frekar. Jeg er ekki í vafa um, að þessi háttv. deild athugar málið svo rækilega sem með þarf, og er þar af leiðandi heldur ekki í efa um hitt, að háttv. deildarmenn hafi sjeð, að tillögur nefndarinnar eru sjálfsagðar, og að varla getur komið til mála að hafna þeim. Þetta sjest ekki síst með því að kynna sjer meðferð málsins 1916–17. Það var ólán, að stefna sú, sem jeg og nokkrir aðrir þm. hjeldum þá fram, hafði ekki nægan stuðning í þinginu. En menn lifðu í þeirri sælu von, að undangengin uppgripaár hjeldust áfram. En jeg þóttist sjá það þá, og talaði um það, þótt árangurslaust væri, að hætta væri á afturkasti. En þessi sama hugsun, sem þá lá til grundvallar fyrir gerðum þingsins, hefir einnig orðið til þess, að hæstv. fjrh. (M. G.) hefir haldið, að enn væri þessi veiðiskapur mjög mikil auðsuppspretta, sem óhætt væri að ausa úr í ríkissjóðinn endalaust. En jeg vona, að hann fari nú að sjá, að þetta hefir ekki verið rjett álitið. Það verður að fara að takmarka eitthvað þessa hlífðarlausu ágengni við þennan atvinnuveg.

Bæði áleitni ríkissjóðs og sú skoðun, sem oft er reynt að koma inn í fólkið, að hann sje skaðlegur þjóðinni, þarf að breytast þegar í stað, ef það er ekki ætlun löggjafarvaldsins að ganga af honum dauðum.