25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er ekki nýtt, sem nú hefir heyrst hjer, að síldveiðarnar verði að leggjast niður, ef þessar „álögur“ verði samþyktar. Þetta hefir heyrst hjer sí og æ, þegar um það hefir verið rætt, að ríkið fengi einhverjar tekjur af síldveiðunum. En jeg held, að hjer sje litið alt of svart á, ef alvara er það, sem mælt er. Jeg hefi ekki orðið þess var, að menn hafi orðið sjerlega ragir við útgerðina síðastliðið sumar, þó horfurnar væru þá ekki neitt sjerlega góðar. Annars skal jeg ekki fara út í það að rekja í einstökum atriðum það, sem fram hefir komið hjer í umræðunum. Jeg vil þó leiðrjetta það, sem háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að jeg hefði sagt um verkakaupið og vinnukraftinn í sveitum og við síldveiðarnar. Jeg sagði aðeins — og segi enn — að þessar síldveiðar tækju vinnukraft frá öðrum hollari atvinnuvegi. Hitt skal jeg ekkert um segja, hvort það eitt út af fyrir sig hefir orðið til þess, að kaupið alment hækkaði, en jeg býst við, að þar hafi fleiri orsakir tvinnast saman.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að það væru hinir ópraktiskari, sem ekki gætu borgað. Það er nú einmitt ólukkan, að þeir eiga alls ekkert að borga; þeir fá alt eftirgefið. Og það er ekki rjett, að sje útflutningsgjaldið ekki borgað strax, þá verði að taka lögtaki gjaldið hjá útflytjendum. Það er vel hægt að veita umlíðun á gjaldinu, þangað til hægt er að selja erlendis. (M. K.: En ef nú alls ekkert selst?). Ja, slíkt hefir aldrei komið fyrir.

Háttv. þm. (M. K.) sagði, að jeg hefði áður viljað afnema útflutningsgjald á landbúnaðarafurðum. Það er satt. Jeg vildi afnema útflutningsgjald af ull 1917, því að, ef það hefði ekki verið gert, þá hefði þessi skattur verið borgaður oftar af þessari vöru en af öðrum afurðum landsins, og það fanst mjer ekki sanngjarnt.

Því hefir annars alls ekki verið mótmælt, sem var höfuðatriðið í mótbárum mínum, í fyrsta lagi, að það væri óhægt að ákveða kostnaðarverðið, og í öðru lagi, að kostnaðarverðið færi eftir dugnaði og elju mannsins, en söluverðið eftir hagsýni hans og fyrirhygggju.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði og alllangt mál, en eins og hann sagði sjálfur, þá var það ekkert annað en það, sem háttv. þm Ak. (M. K.) hafði sagt rjett á undan, og því þarf jeg ekki að svara honum miklu. Háttv. þm: (M. J.) sagði, að margir væru óvinir síldveiðanna. Það má vel vera. En af hverju? Menn sjá, að það er ekki hollur atvinnuvegur fyrir þetta land. Hann sagði, að síldveiðin veitti mikla atvinnu, en sú atvinna er veitt á þeim tíma, þegar nóga atvinnu aðra er hægt að fá, og meiri eftirspurn er eftir vinnufólki en hægt er að fullnægja. — Jeg þekki ekki neitt dæmi þess í tollalöggjöf vorri, að hinir ópraktískari sjeu verðlaunaðir, en svo er einmitt hjer.

Þá fæ jeg heldur ekki skilið það, að kostnaðurinn við síldarframleiðslu sje hinn sami hjá öllum. Háttv. þm. (M. J.) hlýtur að miða við, að síld sje keypt, sem búið er að veiða. (M. J.: Nei, jeg veiddi hana sjálfur). Þá getur háttv. þm. (M. J.) heldur ekki haldið slíku fram, það þarf enginn að segja mjer, að allir komist að jafngóðum kaupum á lóðum og lendum, skipakosti, salti o. fl., sem til útgerðarinnar þarf.

Háttv. þm. (M. J.) sagði ennfremur, að það væri hart að taka toll af síld, sem kastað væri burtu sem verðlausri. En af hverju er henni kastað burtu, ef ekki af því, að þegar hentugur tími var til að selja, þá vildu eigendur ekki selja. Það er þá heldur ekki nema rjett, að þessir menn fái að borga, sem svo fara að ráði sínu.

Ræðu sína endaði svo þessi háttv. þm. (M. J.) með því að sanna mál mitt um það, að hjer væri full sanngirni á ferðinni. Hann sagði, að stundum væri geysigróði af síldveiðinni, en stundum geysitap. Já, þetta er alveg rjett, og til þess að menn leggi ekki út í slíka áhættu að óþörfu og vanhugsuðu ráði, þá verður að leggja háa skatta á þessa atvinnugrein. Og jeg er þess fullviss, að þessi atvinnuvegur mun ekkert síður verða stundaður hjer eftir en hingað til.