25.04.1921
Neðri deild: 51. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

10. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Þetta verður aðeins örstutt athugasemd, því að jeg er svo heppinn, að ekki hefir fram komið neitt það, er geti knúð mig til að svara, þar sem ekkert af því, sem jeg sagði, hefir enn verið hrakið. Þó gerði hæstv. fjrh. (M. G.) einhverja tilraun til þess að snúa í villu sumu því, er jeg sagði, en tókst ekki. Hann hjelt því fram, að þessi atvinna hefði ekki getað haft nein áhrif á það að bjarga mönnum frá því að vanmegnast undir dýrtíðinni, því að þeir væru svo fáir, sem þessa atvinnu stunduðu. Þetta þykir mjer nú heldur vera í mótsögn við annað, sem hann hjelt fram, sem sje það, að sá fjöldi manna, sem stundaði þessa atvinnu, drægist frá landbúnaðinum.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að það væri ekki skylda lögreglustjóra að kynna sjer það, hvort skýrslurnar væru rjettar. Það mun þó vera skylda hvers embættismanns að kynna sjer til hlítar þau skjöl, er hann á að dæma eftir, og verð jeg því að skoða þetta sem ástæðulausa viðbáru. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að verið væri að losa menn við áhættuna. Þetta nær ekki nokkurri átt.

Loks vildi jeg biðja hæstv. fjrh. (M. G.) og aðra hv. þm., að þeir athugi það, áður en þeir leggjast á móti brtt. nefndarinnar, hvort ekki sje varhugavert að gefa tilefni til þess, að allar eignir, er í þessum atvinnurekstri standa, sem skifta tugum miljóna, verði með öllu verðlausar, ef þessi lagaákvæði ná fram að ganga óbreytt. En það verður, ef atvinnuvegurinn hættir. En ef tilhliðrun verður, þá má búast við því, þótt illa gangi um stutt árabil, að eignirnar hækki aftur í verði.

Jeg get ekki fallist á röksemdafærslu hæstv. fjrh. (M. G.) þar sem hann segir, að það verði þeir óverðugu, sem hann svo nefnir, sem fái hlunnindin eftir tillögum nefndarinnar. Jeg verð að játa, að jeg skil ekki þennan hugsanagang, og verð því að óska frekari skýringa hvað þetta snertir.