06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg get að mestu látið mjer nægja að vísa til aths. við stjórnarfrv. og nál. á þskj. 201. Máli þessu hefir verið svo mikill gaumur gefinn um mörg undanfarin ár, að full ástæða er til að ætla, að allir háttv. þm. hafi þegar ráðið það við sig, hvernig þeir ætla að snúast við því. Þess vegna er ekki þörf á að ræða málið alment, og jeg læt mjer nægja að minnast á þær brtt., sem fyrir liggja.

Aðalbrtt. við 1. gr. er sú, að færa skattinn niður um á jarðeignum og jafnmikið á húsum. Sú lækkun mundi nema á jarðeignum kr. 21000, en á húsum kr. 28250 eða samtals kr. 49250. Það kann nú að vera, að sumum finnist þetta allmikil upphæð, en jeg skal nú reyna að gera grein fyrir því, á hverju lækkun nefndarinnar byggist.

Það virðist geta haft mikla þýðingu í þessu máli, að annað frv. er á ferðinni, sem gerir ráð fyrir eignarskatti, og sá skattur verður þá einskonar viðbótarskattur við þennan.

Önnur ástæðan er sú, að alment hvíla veðskuldir á fasteignum manna, og skatturinn verður að mun tilfinnanlegri fyrir það.

Þriðja ástæðan er sú, að oft hafa heyrst raddir um það, að nauðsyn væri á því, að útvega sýslu- og sveitarsjóðum einhvern gjaldstofn fyrir útgjöldum sínum, en þennan gjaldstofn mundu þeir missa, ef allir fasteignaskattar rynnu í ríkissjóð.

Þetta eru þá ástæðurnar fyrir því að nefndin hefir litið svo á, að skatturinn megi ekki vera svo hár eins og gert er ráð fyrir í frv. stjórnarinnar. Fleiri ástæður ætti ekki að þurfa; jeg hygg, að þessar muni nægja.

Önnur brtt., sem jeg býst við, að þyki máli skifta, er að leiguliði greiði skattinn eins og verið hefir, en í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að eigandi greiði skattinn í nálega öllum tilfellum. Nefndin álítur, að mismunurinn verði ekki svo mikill frá því, sem nú á sjer stað, að ástæða sje til að breyta um fyrirkomulagið þess vegna.

Þriðja atriðið, sem búast mætti við, að mönnum þætti athugavert, en sem nefndin taldi allþýðingarmikið, er það, að skattinum megi breyta með fjárlagaákvæði. Þetta er ekki svo hættulegt. Því ætti að mega treysta, að þing væri svo vel skipað í hvert skifti, að misbrúkun gæti ekki komið fyrir. Samt þótti nefndinni ástæða til að bera fram þá till., að til þess að breyta þessu væri þó ekki einfaldur meiri hl. látinn nægja, heldur 2/3 atkv. í Sþ.

Fleira sje jeg ekki ástæðu til að taka fram viðvíkjandi brtt. fjhn.; hinar allar eru svo smávægilegar.

En þá kem jeg að brtt. á þskj. 214, sem fram er komið frá nokkrum þm. Jeg held jeg megi lýsa því yfir, að nefndin í heild sinni sjái sjer ekki fært að rýra tekjur landssjóðs á þennan hátt. Ekki vegna þess að hún kannist ekki við, að erfiðleikar sjeu á því að afla þessum sjóðum nægilegra tekna, heldur af því, að nefndinni sýndist, að úr því að hún hefði gert till. um lækkun frá því, sem var í frv. stjórnarinnar, þá gæti hún ekki mælt með frekari rýrnun teknanna. Enda verður ekki sjeð, að sýslu- og bæjarsjóðir verði til muna ver úti, þótt frv. nái fram að ganga. Því að þótt grundvellinum, er snertir lausafjártíund,verði breytt, þá er ekki svo um grundvöll fasteignatíunda, Og mjer finst hið gamla niðurjöfnunarfyrirkomulag, hvað fasteignir snertir, geti að mestu haldist óbreytt. Það kann kannske einhverjum að virðast svo, sem jeg sje að fara með fleipur, en jeg lít nú svo á, að þótt ekki sjeu samskonar skýrslur til að byggja á sem verið hefir, þá megi nota fasteignamatsgerðirnar sem grundvöll.

Það þýðir nú ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, síst um þessa till., nema þá einhver andmæli komi fram. Og jeg treysti því, að jafnvel þótt undirtektir nefndarinnar hafi ekki verið betri viðvíkjandi brtt. á þskj. 214, þá muni það ekki hafa þau áhrif, að háttv. þm. álíti frv. með öllu óalandi, því að það er einmitt þetta mál, sem jeg geri ráð fyrir, að þjóðin muni fastlega vænta, að þingið afgreiði nú, þar sem svo mjög hefir verið um það rætt, og þannig vel í haginn búið fyrir það.