06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi litlu að bæta við það, sem jeg hefi áður tekið fram. Þó vil jeg svara lítillega nokkrum aths., sem komið hafa fram við nál.

Út af þeim ummælum hæstv. fjrh. (M. G.), að rjettara sje að koma fram með breytingu við 3. umr., við b-lið brtt. nál., þar sem tekið sje fram, að lóðir sjeu líka undanskildar, þá vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að þetta felist í brtt. nál., og því sje óþarfi að taka það nánar fram. Um hitt atriðið, hvort nefndinni sýndist eigi rjett að falla frá viðaukatill. um atkvæðafjöldann, sem hæstv. fjrh. (M. G.) virðist óþörf, skal jeg taka það fram, að mjer sýnist þessi till. nefndarinnar aðeins til bóta, en á engan hátt til skemda, en annars má athuga þetta til 3. umr.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. þm. Borgf. (P. O.). Það er nú mjög lítið, sem okkur ber á milli, því mjer dettur eigi í hug að neita því að sýslusjóðir hafi þörf á nýjum tekjum, en hins vegar vakti það fyrir mjer, sem komið hefir og á daginn, að sýslusjóðunum yrði sjeð fyrir tekjum með sjerstökum lögum. Mætti minna á í þessu sambandi, að legið hefir fyrir þinginn frv., sem gengur í líka átt og þetta frv. mundi ganga, og mætti þá styðjast við það.

Annars verður það auðvitað ávalt álitamál, hversu hátt skattgjaldið skal vera á hverjum stað. Sýnist mjer því, að þessu megi bjarga við, hvort sem till. nefndarinnar eða viðaukatillagan á þskj. 214 verður samþ.

Sami háttv. þm. (P. O.) talaði um, að örðugt mundi að ná gjöldunum. Efast jeg eigi um, að þetta sje rjett hjá honum, en annars held jeg, að innheimtan hafi venjulega ekki verið mjög miklum örðugleikum bundin, að minsta kosti ekki þar, sem jeg þekki til.

Jeg hefi getið þess áður, að grundvöllurinn fyrir gjöldunum breytist nokkuð eftir frv., svo jeg þarf eigi að fjölyrða meira um það, en skal þó taka það fram, að vel mátti hafa hliðsjón af síðustu tíundaskrá, og það því ekkert sakað, þó að dregist hefði um 1 ár að fá annan grundvöll, sem hægt væri að miða við.

Annars sker atkvæðagreiðslan úr um þetta, svo að óþarfi er að fjölyrða frekar um málið.