11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg ætla að byrja á því, sem hv. 4. landsk. þm. (G. G.) endaði á. Það er alveg rjett hjá honum, að sýslusjóðina vantar fasta tekjustofna, og jeg hefi margoft lýst því yfir í háttv. Nd., að jeg muni bera fram frv. um það efni, ef sjeð verður, að þetta frv. nái fram að ganga. Það frv. er hugsað í aðalatriðum og ætti ekki að þurfa að taka mikinn tíma. Jeg hefi ekki haft tækifæri til að lýsa þessu yfir fyr hjer í deildinni.

Mjer skildist á háttv. þm. (G. G.), að honum þætti skatturinn of lágur. Það sannast þá hjer, að erfitt er að gera svo öllum líki. Háttv. Nd. þótti skatturinn of hár og lækkaði hann, en ef til vill verður hann þá að lokum eitthvað nálægt því, sem stjórnin lagði til í byrjun. Það má vera, að útreikningur háttv. þm. (G. G.) á hæð skattsins alls sje rjettur; jeg gat ekki fylgst með í því, en jeg er hræddur um, að hann hafi ekki athugað, að þinglesnar veðskuldir eru dregnar frá verði húseigna eftir gildandi húsaskattslögum, og það munar mjög miklu. Og munurinn á skattinum eftir útreikningi hans og stjórnarinnar var þó ekki neina rúmar 11 þús. kr. Annars er jeg alls ekki mótfallinu hækkun skattsins, ef háttv. deild vill, en jeg hjelt, að ekki væri fært að fara hærra í byrjun.

Hv. þm. talaði ennfremur um, að þetta frv. færi í bág við fasteignamatslögin. Það er nú varla hægt að segja, að ný lög fari í bág við eldri lög, en þau geta breytt eldri lögum, og svo mætti segja hjer. Jeg hafði nú einmitt hugsað mjer að leggja fram breytingar á fasteignamatslögunum á þessu þingi. Jeg er honum alveg samdóma um það, að gallar eru á fasteignamatinu, og því þótti mjer vissara að hafa skattinn ekki mjög háan, ef rangt væri metið. Á því græða að vísu sumir, en það er jafnan álitið rjettara en að aðrir líði. Jeg hafði heyrt, að „hæstamatsnefnd“, eins og hv. þm. (G. G.) nefndi hana, þætti ýmsir gallar á matinu, og hafði jeg búist við tillögum hennar ekki síðar en í þingbyrjun, en þær eru ókomnar enn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) er mjer alveg samdóma um það, að ekki sje í raun og veru rjett að vera að undanskilja skatti jarðabætur síðustu 10 ára. Hann taldi aftur á móti ósanngjarnt, að skattur hvíldi jafnt á öllum húsum, en þar er jeg á öðru máli. Alt það, er hefir áhrif á verðmæti hússins, staður, lega o. s. frv., kemur fram í matsverðinu, því að matið á hvergi að miða við hvað húsið kostar, heldur hitt, hvað það mundi ganga kaupum og sölum. Af því leiðir, að hús, sem er reist t. d. á góðum stað í Reykjavík, er metið þrefalt. eða jafnvel fimmfalt á við jafnstórt hús í sveit. Þess vegna verður rjettlátast að miða skattinn beint við verðmætin og hafa hann hlutfallslega jafnan.