11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

3. mál, fasteignaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Það er ekki margt, sem jeg þarf að svara í ræðu hæstv. fjrh. (M. G.). Hann má reiða sig á, að útreikningar mínir um upphæð skattsins eru rjettir. Skatturinn verður lægri eftir þessu frv. en eftir gildandi lögum, og það þótt 10 ára umbætur, hús, sem fara fram úr hálfri verðhæð jarðarinnar, og hús leiguliða væru undanskilin, eins og nú er í fasteignamatslögunum. Þetta treysti jeg mjer að gera öllum skiljanlegt. í þessum reikningi hefi jeg gert húsaskattinn 2‰ og ekki dregið veðskuldir frá. En stjórnin hefir sjálf sýnt í aths. við þetta frv., að það fer mjög nærri því, sem nú er, eða 3‰, að frádregnum veðskuldum. Og nú skal jeg taka dæmi til þess að skýra þetta. Gerum ráð fyrir jörð, sem er metin 12 þús. kr., og hús á henni metin á 6 þús. kr., sem er mjög samsvarandi. Sú jörð yrði, samkvæmt gildandi fasteignamatslögum, talin 120 hundruð, og ábúðarskattur, með kr. 1.50 verði á meðalalin, yrði þá 72 kr., en eftir þessu frv. yrði 3X12X6=48 kr., eða 24 kr. lægri, og er þó ekki tekið tillit til þeirrar lækkunar, sem háttv. Nd. gerði. Og þótt jörðin væri metin á 12 þús. og húsin 12 þús., þá væri skatturinn ekki nema 3X12+2X12 =60 kr., eða 12 kr. lægra en eftir gildandi lögum. Nú bjóst jeg við, að hæstv. stjórn vildi heldur græða en hitt, og því gerði jeg þessar aths. Og það sem verst er, þessi lækkun kemur niður á þeim, sem vel geta borið skatt. Því held jeg, að væri heppilegra að sigla milli skers og báru og fara nokkru nær fasteignamatslögunum.

Það hefir verið viðurkent, að hart væri að skattleggja jarðabætur. Enn fremur hefir það þótt bert, að hús leiguliða væru verri eign en hús jarðareiganda. Leiguliðinn getur átt á hættu að vera rekinn frá jörðinni og verða þá að rífa húsin og flytja burt, eða þá að selja þau fyrir litið verð. Það er því hart að færa skattinn niður á gildum sjálfseignarbændum, en reyna til að ná því upp aftur af leiguliðum.

Mjer þótti slæmt, að hæstv. fjrh. (M. G.) mintist ekki á lausafjárskattinn. Hann hverfur á reikning þessa frv., og það nemur yfir 100 þús. kr. Það hefir oft verið talað um að afnema þennan skatt, en jeg hefi jafnan talið það algerlega rangt að afnema skatt af því, sem gefur af sjer mikinn arð í raun og veru.

Það er enginn vafi á því, að lausafje er langtum arðsamari eign en margar fasteignir eru. Mjer finst það vera rangt að sleppa að taka skatt af ám og kúm, þegar skattur er lagður á húsakofa, sem eru mjög óarðberandi og ef til vill látnir standa auðir. Jeg er algerlega sammála hæstv. fjrh. (M. G.) um jarðabæturnar að þessu leyti, að það hefði aldrei átt að hreyfa við því efni, því að gera það, án þess að taka það frá rótum, er aðeins til þess að mynda ósamræmi í þessu litla, sem þar er fyrir af viti. Jeg vil láta slag standa þarna í þetta sinn og draga jarðabæturnar frá. Fasteignaskattslögunum verður að sjálfsögðu að breyta, því að þau eru í alla staði ómöguleg. Með því móti getum við losnað við það að standa á því skeri, að jarðabæturnar verði dregnar frá oftar.

Háttv. 3. landsk. þm. (S. J.) tók það fram, að við hefðum skoðað frv. aðeins sem frv., og því ekki getað gengið út frá því. Þetta er vitanlega nákvæmlega rjett. Við höfðum hjer ekkert fast út frá að ganga, annað en fasteignamatslögin, því að á frv. verður ekki bygt. Annars skal jeg láta þess getið, að við höfðum við þetta svo miklar skriftir og skýrslugerðir, að ótrúlegt myndi þykja. Við vorum búnir, þegar frv. kom út, að skrifa þessar skýrslur og töflur, sem gáfu okkur möguleika til að samræma matið, en ef nú verður farið að rugla í þessu, þá er alt okkar starf ónýtt. Væri nú aftur á móti rjett að farið, þá eru skýrslur okkar og tölur nothæfar og geta orðið að gagni.