11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg meinti ekki, að jeg hefði búist við, að þessi yfirfasteignamatsnefnd kæmi með breytingar á fasteignamatslögunum, heldur tillögur um framkvæmd matsins í framtíðinni. En svo eru líka aðrar till., sem hjer er um að ræða, en það eru till. um breytingar á hinu nýja fasteignamati, og við þær átti jeg sjerstaklega. Jeg fæ ekki skilið, að 4. landsk. þm. (G. G.) skuli um skatt vilja gera mun á húsum jarðeiganda og leiguliða. Slíkt myndi að minni hyggju reynast mjög illa, því að það, sem er leiguliðahús í ár, er oft jarðarhús að ári. Auk þess virðist mjer hann gera fulllítið úr verðmæti húsa leiguliða, þar sem hann telur þau oft verðlaus að mestu. Þetta getur aðeins staðist, þegar svo stendur á, að leiguliði ætlar að flytja og fær ekki kaupanda, því að meðan hann situr á jörðinni hafa húsin sama notagildi, hver sem á þau. Viðvíkjandi dæminu, sem hann tók máli sínu til sönnunar, þá valdi hann dæmi, sem var mjög hagstætt honum, þar sem húsverðið var svo hátt, í samanburði við jarðarverðið, en í því tilfelli verður skatturinn talsvert hærri eftir fasteignamatslögunum en yfirleitt annars á sjer stað. (G. G.: þau voru tvö dæmin, sem jeg tók, í öðru var húsverðið 6000 kr., en í hinu 12000 kr.). Það gerir engan mismun, því að í dæmum þeim, er hann tók, verður skatturinn hinn sami af húsunum eftir gildandi lögum, þótt helmingsmunur sje á verðmæti þeirra. Þá gleymir háttv. þm. (G. G.) því, þegar hann er að tala um að skatturinn lækki, ef frv. þetta gengur þannig í gegn, að í staðinn fyrir lausafjárskatt, sem áður hefir verið, koma bæði tekju- og eignarskattur, — eignarskatt á að leggja á alla skuldlausa eign, og tekjuskatt á að greiða af tekjum þeim, sem landbúnaður gefur af sjer. Jeg fæ ekki með neinu móti skilið það, að tekjuskattur verði ranglátari en lausafjárskattur. Mjer finst þvert á móti langtum rjettlátara og eðlilegra, að menn borgi skatt eftir því, hve mikill arður er af búpening þeirra, en ekki hinu, hve gripirnir eru margir.

Það var alls ekki mín meining, að jeg hefði ætlast til, að nefndin færi eftir þessu frv. sem gildandi lögum. Og jeg man ekki betur en háttv. 4. landsk. þm (G. G.) kæmi eitt sinn til mín og spyrði mig um þetta, og fengi þá skýlaus svör mín í þessu tilliti. En jeg óskaði þá eftir, að skýrsluform nefndarinnar væri þannig útbúið, að eins mikið tillit væri tekið til frv. eins og unt væri, án þess að gera röskun á undirbúningi nefndarinnar, og þetta hefir hv. nefnd gert.

Að lokum skal jeg geta þess, að jeg get gengið inn á það, eftir atvikum, að í þetta skifti verði slept að taka skatt af jarðabótum síðustu 10 ára, eftir þeim upplýsingum, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hefir nú gefið.