11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

3. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Ólafsson:

Það eru nú orðnar allmiklar umr. um þetta mál, enda skal jeg ekki lengja þær mikið. Jeg vil þó taka það fram, að mjer þykir það dálítið kynlegt, að stjórnin skuli hafa sjeð sjer fært að fella burt 9. gr. í fasteignamatslögunum 1915, sem var þá samin í þeim tilgangi, að bygt væri á henni sem grundvelli, er skattur væri lagður á fasteignir. Á þinginu 1917 var svo mikið haft fyrir að breyta þessari gr., eða gera hana skýrari, að mjer hefði þá þótt næsta ótrúlegt, að hún væri talin að engu hafandi 1921, en grundvelli fasteignamatsins þrátt fyrir það haldið. Jeg álít, að úr því matið var miðað við þessa undanþágu á húsum og jarðabótum, þá verði það rjettlátara og hagkvæmara, að þessi undanþága haldist fyrir þau ár, sem þetta fasteignamat gildir fyrir, en hverfi svo með öllu, ef það kemur í ljós við reynsluna, að hún sje ekki sanngjörn.

Það þótti mjer undarlegt, er hvorugur hv. nefndarmanna, er talað hafa og eru langt frá að vera ánægðir með fasteignamatið, heldur finst það ósanngjarnt og að ýmsu leyti fjarri rjettu lagi, vilja þá hækka skattinn. Það ætti þó að vera augljóst, að því hærri sem skatturinn verður, þeim mun tilfinnanlegar hlýtur grundvallarskekkja fasteignamatslaganna að koma fram. En því hærri sem skattur, sem bygður er á röngum grundvelli, er settur, því meira ranglæti verða skattgreiðendur beittir.

Því hefir verið haldið fram í þessu efni, að upphaflega hafi matið verið áætlað lágt. Jeg geri nú ráð fyrir, að svo hafi verið, en þrátt fyrir það, mun það ekki vera orðið svo ýkjalágt nú. Jeg veit ekki betur en að það hafi verið drjúgum hækkað síðan, fyrst af yfirmatsnefndum heima í hjeruðum, en einkum þó af síðustu nefnd. Það hefir að vísu hækkað nokkuð mismunandi — en altaf verið að hækka, svo það er líklega orðið fullhátt núna. Jafnvel sannnefnt dýrtíðarverð, þar sem hæst er matið.

Þeim bar saman um það, hæstv. fjrh. (M. G.) og háttv. 4. landsk. þm. (G. G.), að aðeins 1/3 hluti tekna sýslusjóða væri eftir (nefnilega persónugjöldin). Þetta er ekki rjett. Samkvæmt breytingu á skattafrv. í Nd. er gert ráð fyrir, að nokkur hluti fasteignaskattsins, eða sem nemur 1/3 af honum, gangi til sýslusjóða og bæjarsjóða.

Þá er í aths. við stjórnarfrv. slegið föstu, að miklar skuldir hvíli yfirleitt á húsum, en ekki á jörðum, og skattur af þeim því ákveðinn 14 hærri en af húsum. Þetta tel jeg ekki rjett vera, því að mjer er kunnugt, að fjöldi af jörðum eru að meira eða minna leyti í skuld í sumum hjeruðum. Það er því mjög hæpið, út frá þessu, að gera svo mikinn mun á skatti á húsum og jörðum eins og stjórnin hefir gert.

Man jeg svo ekki eftir að jeg hafi meira að segja hjer um að sinni.