02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

3. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. 2. þm. G.- K. (B. K.) og jeg vorum algerlega sammála í þessu máli. Við skrifuðum báðir undir með fyrirvara, sökum þess, að okkur þótti of hátt farið með jarðir og lóðir, samanborið við hús, að láta borga 4/‰ af þeim. Ef til vill var rjett að hækka þetta eitthvað frá því, sem var í stjórnarfrv., þar sem nú er til ætlast, að 10 ára umbætur sjeu undanskildar skatti. Ekki er um annað að gera en undanskilja þær, þar sem fasteignamatsnefndarmennirnir, sem eiga sæti hjer í þessari háttv. deild, gáfu við 1. umr. þær upplýsingar, að þær hefðu verið færðar til reiknings í sumum sýslum, og að alt matið hefði verið miðað við, að það yrði gert. En að hækka skattinn upp í 4‰ þykir mjer of mikið, sjerstaklega þegar þess er gætt, að matið mun vera slæmt og óábyggilegt, eftir því, sem ráða mátti af orðum nefndarmannanna við 1. umr. 9. gr. gat að nokkru bætt úr þessu, ef hún hefði fengið að standa, því að þá var þó altaf hægt að hækka eða lækka skattinn með lítilli fyrirhöfn, ef þess reyndist þörf. Jeg er þess vegna algerlega á móti því að fella þá grein niður, eins og jeg og var á móti því að fella samskonar ákvæði niður úr lögunum um lestagjald af skipum.

Mjer þykir undarlegt að miða skattinn við vissa upphæð, sem ríkissjóður þurfi nú endilega að fá, eins og mjer virtist hv. frsm. (G. G.) gera. Jeg er hræddur um, að skattinum yrði ekki sanngjarnlega niður jafnað, væri þeirri reglu oft fylgt. Enda ætti þá eftir þessari kenningu að fylgja sömu reglu við álagningu annara skatta. en það hefir ekki verið gert.

Háttv. frsm. (G. G.) gerði mikið úr því á nefndarfundum, að við þyrftum að ná upp lausafjárskattinum með þessum skatti. en því er ekki svo farið, því að í stað hans kemur nýr skattur — tekjuskatturinn. — Og aldrei getur komið til mála, að rjett sje að borga lausafjárskatt af fasteign.

Háttv. frsm. (G. G.) fór ekki vinsamlegum orðum um fasteignamatslögin, kallaði þau ,,óhæfileg“. Bjóst hann við, að þeim þyrfti að breyta. Lög þessi eru nú búin að standa tæp 6 ár. Á einu þingi er búið að laga þau, og úr því að þinginu hefir samt ekki tekist að gera þau góð, eða viðunandi, að dómi háttv. frsm., efast jeg um, að því muni nokkurntíma takast það. Annars virðast lögin, sem koma frá þinginu, oft ekki góð, þegar farið er að framkvæma þau, ef það eru þá lögin, en ekki framkvæmd þeirra, sem ekki er góð. (Jóh. Jóh.: Það vill nú víða brenna við). Getur verið, jeg þekki best hjer, og veit, að altaf er verið að sjóða lögin upp aftur og aftur, og efast jeg um, að jafnslæmt sje það annarsstaðar.

Jeg held því fram, að skatturinn megi ekki eingöngu miðast við þarfir ríkissjóðs nú, eins og hann er líka varlega notaður, og þegar ákveða eigi skattupphæðina, verði að taka tillit til þess, að matið er gert til 10 ára, og mikil líkindi eru til, að fasteignir manna muni á því tímabili lækka í verði. Verði ekkert tillit tekið til þessa, má búast við, að þetta verði allsæmilegur skattur fyrir ríkissjóð, en alltilfinnanlegur og jafnvel ranglátur fyrir þá, sem greiða eiga, að minsta kosti er nokkuð kemur fram á þetta fyrsta árabil, sem skatturinn er ákveðinn fyrir.

Þá hefi jeg tekið fram, hvað jeg hefi út á frv. að setja eins og það kemur frá nefndinni, og mun jeg ekki eyða fleiri orðum um málið að svo stöddu.