02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

3. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. frsm. fjhn. (G. G.) sagði, að aukatekjur ríkissjóðs hefðu verið hækkaðar um helming, en það er ekki rjett, því að það af tekjunum, sem hefir sjálfkrafa hækkað af völdum dýrtíðarinnar, er látið halda sjer. Vill hann því ákveða þennan skatt eftir þörfum ríkissjóðs. Þá ætti að vera viðhöfð þessi sama aðferð við aðra skatta, og ákveða þá árlega. Hann sagði, að ef væri nokkur skakki á matinu, þá væri hann sá, að það væri of lágt. Um þetta efast jeg mjög, og jeg kann mjög illa við það, að þeim tekjum, sem ekki nást með lausafjárskatti, eigi að ná upp með fasteignaskatti. Það gladdi mig að heyra, að nefndin taldi 2. gr. frv. lakari eins og hún kom frá Nd. heldur en hún var upphaflega í stjórnarfrv., en hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að það þýddi ekki að breyta þessu aftur hjer, þar eð það hefði verið samþ. þannig með miklum atkvæðamun í Nd., og verður þá þessi deild líklega að beygja sig eins og oftar.