04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

3. mál, fasteignaskattur

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 480, sem jeg býst við, að deildarmenn hafi haft lítinn tíma til að átta sig á, því að þær komu fyrst fram nú á þessum fundi. Brtt. þessar eru í samræmi við þá skoðun, sem jeg hjelt fram við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni, að skattur þessi hefði komið hjer inn á þingið sem fasteignaskattur, og eigi því að vera það út í gegn; en jeg tel hann alls eigi vera það, ef koma á honum yfir á leiguliðana.

Jeg hefi því gert þessar brtt., til þess að reyna að velta málinu á þann grundvöll, sem það upprunalega var á.

Hin fyrri brtt. mín gengur þó að því leyti lengra en upphaflega var í stjórnarfrv., að í henni er aðeins gert ráð fyrir, að eigandi geti krafið leiguliða endurgjalds á því, sem ábúðarskatturinn hefir numið, eftir meðaltali verðlagsskráa árin 1912–1921, að báðum árum meðtöldum.