11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

3. mál, fasteignaskattur

Jakob Möller:

Jeg gat ekki orðið samferða hv. meðnefndarmönnum mínum í að fylgja frv. eins og það er nú orðið.

Eins og kunnugt er, þá var fasteignaskatlurinn ákveðinn í stjórnarfrv. 3‰ af jarðeignum, en 2‰ af húseigmim. Þegar stjórnarfrv. kom upphaflega til fjhn., þótti henni þetta of hátt, bæði vegna þess að ekkert tillit er tekið til áhvílandi veðskulda við ákvörðun skattsins, og einnig sökum þess að nefndin gerði ráð fyrir því, að ð aðalgjöldin til sýslusjóðanna hlytu að verða lögð á fasteignirnar. Vildi nefndin, af þessum sökum, lækka skattinn. Nú hefir hv. Ed. hækkað skattinn frá því, sem hann var í stjórnarfrv., og get jeg eigi sjeð, að neitt það hafi framkomið, er rjettlætt geti slíka hækkun. Jeg tel eins og áður, að hann hafi verið of hátt ákveðinn í stjórnarfrv., og því kem jeg fram með brtt., um að færa hann í sama horfið og fjlm. hafði áður lagt til, sem sje af jarðeignum og l1/2‰ af húsum öllum, bæði til sveita og í kauptúnum. Hefir nú, síðan fjhn. hafði frv. til meðferðar fyrra sinni, komið fram frv. um gjald til sýsluvega, og er það gjald einmitt lagt á fasteignirnar, svo sem við mátti búast. Er það alltilfinnanlegurskattur, og hefði því skatturinn til ríkissjóðs fremur átt að lækka en hækka frá því, sem áður var samþ. hjer í deildinni. Skil jeg því alls eigi hvað hv. meiri hl. nefndarinnar hefir til gengið að hækka skattinn eða að falla.st á hækkun hv. Ed.

Það, að skattgjald sje mismunandi af húseignum í kaupstöðum og utan þeirra, tel jeg blátt áfram bersýnilegt ranglæti og örgustu hreppapólitík, sem þinginu sje ósæmandi. Er sú röksemd einskisvirði, að þetta sje rjettlátt, sökum þess að húseignir gefi meira af sjer í kaupstöðum, því að það er einmitt tekið tillit til þessa, þegar þær eru metnar; virðingarverð þeirra verður því hærra og þar af leiðandi meiri skattur goldinn af þeim en húseignum til sveita. Hefir einmitt verið upplýst fyrir nefndinni, að tekið sje meira tillit til þess í fasteignamatinu, hvað eign gæfi af sjer, en hvað hún kostaði, og var nefndinni innan handar að sjá þetta, ef hún hefði athugað fasteignamatið.

Hús til sveita munu ætíð hafa verið virt lægra en í kaupstöðum, og því enn síður ástæða til að hafa skattinn lægri á þeim. Hitt gæti komið til mála, að fella þar sum hús undan skatti, t. d. nauðsynlegustu peningshús. Ætla jeg svo ekki að fjölyrða um þetta frekar. Hygg að það sje þýðingarlaust, úr því að háttv. meiri hluti nefndarinnar hefir hringlað svo átakanlega í málinu, sem raun ber vitni um.