11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

3. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg get ímyndað mjer, að ef háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefði haldið þessa ræðu sína á nefndarfundi, þá hefði vel mátt vera, að einhver nefndarmanna hefði látið sannfærast. En jeg heyrði eigi, að hann legði svo mikið kapp á brtt. sína þar. Nefndin leit svo á, að enda þótt að hún fengi ekki öllum kröfum sínum framgengt, þá væri þó betra að slá dálítið af, í von um, að hægt yrði að mætast á miðri leið. Tel jeg líka mjög óvíst, hvernig um málið færi í sameinuðu þingi, því víst er, að Ed. hefir gert þetta að kappsmáli.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) talaði um hreppapólitík hjá nefndinni. Þetta getur nú alls eigi átt sjer stað, því að nefndin er skipuð bæði mönnum úr kaupstöðum og sveitum. Hygg jeg að nefndin hafi litið alveg hlutdrægnislaust á málið.

Annars þýðir ekki að fjölyrða mjög um þetta atriði. Hygg jeg, að vonlaust sje að málið gangi fram eins og það var í fyrstunni, og þess vegna fór nefndin þennan miðlunarveg. Sýnist háttv. þdm. hinsvegar, að mismunurinn sje ósanngjarn, þá er ekki annað fyrir þá en að aðhyllast brtt. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), en jeg tel það óheppilegt, eins og nú er komið.

Háttv. fjrh. (M. G.) vildi helst láta samþ. frv. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed., en það finst mjer altof langt gengið. Sýnist mjer, að hv. Ed. hafi gengið altof langt í því að hækka skattinn, og að fjhn. Nd. hafi farið hjer hóglega í sakirnar og stuðst við meiri rök en háttv. Ed.

Jeg legg enga áherslu á það, hvort 4. brtt. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) verður samþykt eða eigi, en geri ráð fyrir því, að meðnefndarmenn mínir telji sig bundna við sína tillögu.