11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

3. mál, fasteignaskattur

Jakob Möller:

Jeg ætlaði mjer að þakka háttv. frsm. (M. K.) fyrir orð hans, en niðurlagið á þeim varð á þann veg, að eigi mun vera ástæða til þess fyrir mig. Hjelt jeg að hann ætlaði að lýsa því yfir, að nefndarmenn hefðu óbundnar hendur um atkvæðagreiðslu um tillögu mína, sem rjett hefði verið, því hefði samkomulag ekki fengist um mína till. við Ed., þá var eigi annað en halla sjer að miðluninni.

Annars hefir ekkert nýtt komið fram í umr., sem hrakið hefir mál mitt, svo jeg þarf engu við að bæta það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni. Viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. (M. K.) sagði, að jeg hefði ekki haldið þessari brtt. minni jafnfast fram í nefndinni, er því til að svara, að það gerði jeg einmitt. Hitt má vel vera, að jeg hafi notað önnur orð og aðra áherslu, en hafi orð mín nú verið meira sannfærandi, þá ætti nefndin að fallast á þau nú engu að síður.

Sýnist mjer einkennilegt, ef fjhn. álítur sig bundna með atkvæði sitt við sínar till., enda þótt hún sjái, að brtt. mín sje sanngjarnari. Vænti jeg þess, að hv. þm. fari meir eftir sannfæringu sinni en því, hvað háttv. Ed. vill. Því, þó að þessi hv. deild sje kölluð efri deild, þá megum við ekki hjer niðri fyllast altof mikilli undirgefni og samþ. alt, sem henni þóknast.

Út af orðum hv. fjrh. (M. G.) um upplýsingarnar frá yfirmatsnefndinni, skal jeg taka það fram, að 1 maður úr yfirmatsnefndinni gaf þær upplýsingar í fjhn., að af einni smáeign hjer í bænum yrði goldinn helmingi hærri skattur en af vinni stærstu jarðeign austanfjalls. Þetta samrýmist því eigi vel upplýsingum hinna nefndarmannanna. Það, að húseignir til sveita sjeu metnar hærra en húseignir í kaupstöðum, skil jeg ekki, þar sem ekki er aðallega farið eftir byggingarkostnaði, og auk þess sitja í yfirmatsnefndinni mestmegnis tómir bændur, og væri þetta því dæmafá ósjerplægni, ef rjett væri.

Þau ummæli, sem jeg ljet falla um hreppapólitík, áttu aðallega við hv. Ed., en ekki við hv. fjhn. þessarar deildar.