21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

8. mál, manntalsþing

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta frv. um færslu manntalsþinganna er bein afleiðing af ákvæðum tekju- og eignarskattsfrv., og stendur því og fellur með því. Það er því, eins og nú stendur, ekki ástæða til að ræða margt um frv., og læt jeg mjer því nægja að vísa til athugasemda þeirra, er frv. fylgja.

Það hafa heyrst raddir um það að afnema manntalsþing með öllu, og má vera að ýmislegt mæli með því. Þó er mín reynsla sú, sem sýslumaður, að manntalsþingin hafi talsverða þýðingu, bæði fyrir sýslumanninn og sýslubúa.

Nýlega sá jeg grein í blaði frá einum af sýslumönnum landsins, er reynir að færa rök fyrir því, að manntalsþingin sjeu að engu hafandi, og eigi því að leggjast niður. í grein þessari voru talin upp helstu störf þau, sem framkvæmd eru á manntalsþingum, og saknaði jeg þar eins, sem jeg tel talsvert þýðingarmikið. Sýslumaðurinn er framkvæmdarstjóri sýslunefndar um mál þau, sem fyrir sýslufund koma, og hefir þar af leiðandi á hendi allar greiðslur til verklegra þarfa í sýslunni og hefir umsjón með sýsluvegum. Finst mjer því nauðsynlegt fyrir sýslumanninn að ferðast um sýsluna og athuga sjálfur, hvar mest er þörf á viðhaldi vega, leggja brýr eða eitthvað þess háttar. Slíkar athuganir getur sýslumaðurinn framkvæmt á þingaferðum sínum, auk þess sem altaf koma fyrir á manntalsþingunum skuldaskifti og ýmislegar greiðslur, sem hagkvæmara er fyrir hjeraðsbúa að lúka þar heldur en heima á skrifstofunni.

Þess vegna verð jeg að líta svo á, að það sje ekki heppilegt að afnema manntalsþingin með öllu, enda þótt jeg geri það ekki að neinu kappsmáli.

Að svo mæltu vona jeg, að frv. þetta fái að fara í friði til 2. umr., og virðist mjer þá rjett, að því verði vísað til fjárhagsnefndar, svo það geti orðið samferða tekju- og eignarskattsfrv.