22.02.1921
Neðri deild: 6. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (J.M.):

Það, sem sjerstaklega var haft fyrir augum af Íslendingum, og sjerstaklega reynt að búa um, svo að ekki væri um að villast, þegar sambandssamningurinn var gerður við Danmörku 1918, var það, að í samningnum væri viðurkent fúlt sjálfstæði og fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku. Með öðrum orðum, að samningurinn viðurkendi Ísland fullvalda konungsríki í þjóðrjettarsambandi við Danmörku, en ekki í ríkisrjettarsambandi.

Mörg atriði voru þau auðvitað í samningnum, sem þurfti að gæta vel að, að þessu leyti, en ekkert eins og 7. grein sambandslaganna. Orðun aðalefnis þessarar greinar er nú reyndar svo skýr, að ekki ætti að vera hægt um að villast. Þar er sagt: „Danmörk fer með utanríkismál Íslands“, þá er þar með viðurkent vald Íslands yfir þeim málum, en svo er bætt við til frekari áherslu: „eftir umboði“. Með þessu ákvæði einu er viðurkendur meðal annars sendirjettur Íslands eða jus legationis. Önnur ákvæði í 7. gr. fara í sömu átt, einkum ákvæðið um, að Ísland geti sent sendimenn til að semja um sjerstök íslensk málefni í samráði við utanríkisráðherra. Fyrir mínum augum verður ekki um vilst um heimildir Íslands á utanríkismálunum. Samt hefir sú skoðun komið fram, og það mátti altaf búast við að hún kæmi fram hjá einhverjum kreddulærðum manni, að með því að fela Danmörku að fara með utanríkismál sín um ákveðinn tíma, takmarkaði Ísland fullveldi sitt um sama tíma, og væri þá ekki ótvírætt, hvort sambandið væri einungis þjóðrjettarsamband. En það, sem tekur af allan efa, er 15. gr. sambandslaganna, eins og hún var hugsuð og eins og hún var orðuð Mjer er óhætt að fullyrða það, að meginþorri þingmanna 1918 óskuðu þess og ætluðust til þess, að ákvæðið í þessari grein væri framkvæmt á þann hátt, að Danir hefðu hjer sendiherra, og vjer þar, með það fyrir augum, meðal annars, að með þessu væri lögð áherslan á þjóðrjettarsambandið á þann hátt, að sýnilegt væri öllum heimi. Auðvitað gátum vjer einskis krafist í þessu efni af Dönum. Þeir rjeðu því alveg, eins og vjer, hverskonar sendimann þeir sendu hingað, sendiherra, sendiræðismann eða annan erindreka, eða ljetu vera að hafa hann nokkurn hjer. En eftir því, sem óskir höfðu komið fram um hjá meginþorra þingmanna — fullveldisnefndirnar höfðu beinlínis látið þetta í ljós við mig, og margir aðrir þingmenn, — þá gaf jeg það í skyn við dönsku Stjórnina, að því mundi tekið mjög vel hjer á landi, ef Danir sendu hingað sendiherra. Sama hygg jeg muni hafa verið gefið í skyn af hálfu íslenska hlutans af millilandanefndinni. Jeg sagði að vísu ekkert um það, hvort vjer ætluðum að senda sendiherra til Danmerkur, en jeg geri ráð fyrir, að danska stjórnin hafi búist við því, að samskonar sendimaður yrði sendur hjeðan til Danmerkur. Hvernig sem það nú hefir verið, þá sendu Danir hingað sendiherra sumarið 1919. En það drógst þangað til síðastliðið haust, að vjer sendum sendiherra til Kaupmannahafnar. Jeg get ekki neitað því, að mjer fanst, eftir að hingað var kominn danskur sendiherra, að það gæti litið út eins og dálítið gabb, að vera þess hvetjandi, að þvílíkur sendimaður kæmi hingað, en senda ekki samskonar mann þangað. En það verð jeg að segja, að aldrei inti danska stjórnin við mig í þá átt, að hún liti svo á það mál, þótt drægist að senda hjeðan.

Jeg skal nú játa það hreinskilnislega, að í byrjun var jeg einn meðal þeirra fáu þingmanna, sem ekki fanst ríða svo mjög á því að flýta sjer að framkvæma ákvæði 15. gr. á þann hátt, að sendiherra gætti rjettar hvorrar þjóðar hjá hinni, og var það einkum vegna kostnaðar. En hitt var mjer ljóst, að aldrei liði á löngu, áður þessi sendiherrarjettur væri notaður. Og mjer var ljóst, hverja þýðingu það hefði fyrir viðurkenning Íslands meðal hinna fullvalda ríkja, að íslenskur sendiherra sitji í Kaupmannahöfn við hliðina á og sem jafningi sendiherra svo að segja alls heimsins. Ef þetta væri þýðingarlaust tildur, þá hefði afarmikið af allri sjálfstæðisbaráttu vorri verið barátta fyrir marklausu tildri.

Þetta er ekki, og á ekki að vera, aðal erindi sendiherra í Kaupmannahöfn, heldur hitt, að greiða fyrir viðskiftum vorum erlendis. En gerir hann þá nokkurt gagn einmitt í Kaupmannahöfn? Því er óhikað hægt að svara játandi. Fyrir utan það, að jeg tel eðlilegt, að hann starfi að samningum þeim milli sambandsríkjanna, sem getið er um í 12. gr. sambandslaganna, og annars að venjulegum sendisveitarstörfum, þá er gert ráð fyrir því, að hann á margan hátt geti gagnað viðskiftum vorum. Að Kaupmannahöfn sje vel valinn staður fyrir þvílíkan sendimann, hygg jeg að ekki verði neitað. Vjer höfum frá fornu fari mikil viðskifti við Danmörku. Auk þess þykir það ekki ósennilegt, að verslun annara ríkja kunni að fara um Kaupmannahöfn, t. a. m. frá Rússlandi og öðrum Eystrasaltslöndum. En, segja sumir, það þarf ekki sendiherra til þess að gæta viðskifta vorra. Til þess þarf ekki svo fínan mann, og jafnvel telja þeir fínheitin því til fyrirstöðu, að hann geti gert verulegt gagn að þessu leyti. Þetta er hinn mesti misskilningur. Einmitt vegna stöðu sinnar á hann miklu hægra að ná til þeirra manna, sem mest er í varið að ná til, og getur því beint þess vegna unnið málum vorum meira gagn en ella.

Jeg geri ráð fyrir, að menn greini ekki svo mjög á um það, að vjer þurfum að hafa erindreka í Kaupmannahöfn, auk trúnaðarmannsins í utanríkisráðuneytinu, en ýmsir hafa átalið það, að vera að hugsa um að hafa þar sendiherra. Talið það að eins tildur og óþarfa kostnað.

Jeg þykist nú hafa gert grein fyrir því, að það hafi mikla þýðingu og sje líklegt til gagns, að erindrekinn sje einmitt sendiherra.

Samt sem áður bjóst jeg ekki við því á síðasta þingi, að sendiherra yrði skipaður áður en þetta þing kæmi saman. Jeg bjóst nefnilega ekki við því, að kostur væri á manni, er til þess væri fallinn. Jeg taldi vera leitun á þvílíkum manni, og ekki fært að leggja út í þetta, nema með vel fallinn mann. Jeg taldi nauðsynlegt, að þessi maður væri duglegur, lipur samningamaður, kunnugur verslun og viðskiftum, vanur að umgangast menn á því reki, er hann þyrfti að eiga viðskifti við vegna stöðu sinnar, og enn fremur, af því vjer höfum ekki ráð á að greiða þau laun, er samsvara þykja stöðunni, nokkrum efnum búinn.

Þegar jeg svo varð þess var í vor, að hr. Sveinn Björnsson mundi ekki ófús að taka að sjer sendiherrastöðuna, þá virtist mjer ekki gerlegt að hafna tækifærinu, og eiga það á hættu að geta ekki fengið vel fallinn mann í stöðuna, þegar af einhverjum ástæðum þætti ekki mega lengur dragast að senda þvílíkan erindreka.

Nú virtist mjer herra Sveinn Björnsson uppfylla öll þessi skilyrði. Hann hafði að mínum dómi sýnt góða hæfileika við fyrsta samninginn við Breta, eftir byrjun ófriðarins, og við för sína til New York um það leyti. Að vísu man jeg það, að nokkur þytur var gerður út af þeim breska samningi, en jeg held, að menn hafi komist á aðra skoðun síðar. Hann hafði mikil málaflutningsmannsstörf, og tók þess vegna, og vegna stórra fyrirtækja, sem hann var við riðinn, allmikinn þátt í viðskiftum og fjármálum. Hann hafði umgengist marga erlenda kaupsýslumenn, einmitt menn á því reki, er búast má við að sendiherra vor hafi einkum viðskifti við. Hann var og talinn efnaður maður. Auk þess var hann áhugamaður um sín störf, og það mun hægt að sýna hinu háa Alþingi fram á, að hann hefir sýnt áhuga í sendiherrastarfinu.

Af þessum sökum lagði jeg það, með samþykki meðverkamanna minna, til við konung, að Sveinn Björnsson væri skipaður sendiherra í Kaupmannahöfn.

Fyrir þessa sök er og þetta frv. nú fram komið.