23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

41. mál, fjárlög 1922

Þorleifur Jónsson:

Hæstv. fjrh. (M. G.) lagðist á móti till. nefndarinnar um ákvæðin um styrkinn til húsabóta á Sandfelli í Öræfum. Nefndin fer fram á það, að prestinum sje ekki gert að skyldu að greiða 6% af styrkupphæðinni árlega. Ef presturinn á að greiða þetta, er ekki um styrk að ræða, heldur lán, og það ekki með sjerstaklega góðum kjörum, ekki betri kjörum en alment prestakallalán. Jeg vil geta þess, að jeg get ekki búist við, að 6000 kr. nægi til húsabótanna, og þegar útreikningurinn var gerður, sem hljóðar upp á þá upphæð, var aðeins reiknað efni til bæjargerðarinnar. En auk þess verður presturinn að greiða flutningskostnað og kaup verkamanna, og getur það orðið æðihá viðbót.

Presturinn á Sandfelli hefir skrifað mjer ítarlegt brjef og skýrt mjer frá fyrirætlunum sínum viðvíkjandi bvggingunni. Hann ætlar að byggja stóra baðstofu, 18 álna langa og 6 álna víða, og auk þess hús til geymslu. Þetta verður stór bær og er áreiðanlegt, að efnið eitt kostar einar 6000 kr. Baðstofan bygð, uppi og niðri 7 herbergi. þakið járnvarið og þakið torfi að utan og veggir upphlaðnir, svo sem siður er til.

Til gamans og fróðleiks skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr brjefi prestsins, sem fjallar um ástand húsanna nú:

„Baðstofan er eina íbúðarhúsið á bænum, og er orðin mjög gömul. Hún hefir ekki fengið verulega viðgerð síðan snemma í tíð síra Ólafs. Hún er 2 íveruherbergi og eldhús. Og það segi jeg satt, að það er hreinn og beinn lífsháski að vera í henni lengur; í fyrra brotnaði sperra, í vetur önnur og framþilið gekk út. Engin viðgerð getur komið að gagni, vegna þess, að allir viðir eru orðnir svo fúnir og ónýtir, að fáeinar spýtur nýjar gera ekkert gagn. Jeg ljet aðgæta það síðastliðið vor, og ætlaði þá að láta gera nokkrar lagfæringar, en það reyndist ómögulegt að framkvæma þær.

Utan húss er alt eins, fjenaðarhús ónóg og þurfa endurbóta sum þeirra; girðingar engar, en bráðnauðsynlegar. Og loks vil jeg svo bæta því við, að mjer er ekki vært hjer lengur, ef jeg ekki fæ þennan styrk, sem jeg tel óhjákvæmilegan til allra nauðsynlegustu bóta á húsakynnunum.“

Þetta er ekki ofmælt. Sá, sem til þekkir, veit að þessi lýsing er rjett.

Biskup hefir lagt til, að prestinum yrði veittur þessi styrkur, og mun öll sanngirni mæla með því. En hann verður allhart úti, ef hækka á eftirgjaldið um 6% af styrkhæðinni, og þó verður hann að leggja mikið til sjálfur. Eftirgjald af Sandfelli er nú 158 kr., og ef þessum 6% er bætt við. verða það 158 + 360 eða 518 kr. Þetta er afskektur staður og ekki eftirsóknarverður, og er því ekki rjett að gera presti of erfitt fyrir. Ef slík byrði verður lögð á prestakallið, er mjög hætt við, að ekki verði sótt um það, en Öræfin, eins afskekt og þau eru, mega ekki prestlaus vera. Jeg teldi því ekki vel farið, ef brtt. nefndarinnar yrði feld, og vona að svo verði ekki. Jeg vil einnig benda á það, að presturinn á að skila öllu af sjer sem nýju, og verður því að kosta miklu til viðhalds. Á þessu vildi jeg vekja athygli hæstv. ráðherra og háttv. deildarmanna.

Um Saurbæ get jeg ekki sagt. Jeg er þar ekki kunnugur, og skal því ekki ræða það mál hjer.