23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) taldi lán til prestsins í Sandfelli ekki betra en prestakallalán. Hann gleymdi því, að gengið er út frá, að þessi upphæð, 6000 kr., sje allur kostnaðurinn. Það var fyrst gert ráð fyrir, að viðgerðin mundi kosta um 4000 kr., en síðan barst stjórninni brjef frá presti, þar sem sagt var, að kostnaður yrði meiri, og eftir lýsingu háttv. þm. (Þorl. J.). get jeg vel trúað, að svo sje. En jeg get ekki talið það rjett, að ríkið láni einstökum mönnum fje, án þess að taka af því vexti. Eftirgjald af Sandfelli, sem er ágæt jörð, er ekki gífurlegt. Það eru einar 158 kr.; og ef mi á að hjálpa prestinum til þess að koma upp góðum bæ, er ekki nema sanngjarnt, að eftirgjaldið hækki að sama skapi. Jeg sje ekki, að þetta sje ranglátt, sjerstaklega þegar þess er gætt, að þetta stendur aðeins í 9 ár. Þá verður metið af nýju, og bærinn með, og eftirgjaldið fer eftir því mati. Jeg rengi ekki lýsinguna á ástandi húsanna; það er hörmulegt, en óþarfi var að vera að lýsa því hjer, því að það er tekið fram í athugasemdum stjórnarinnar við frv.

Og jeg er alveg viss um, að þetta mat, eða 158 kr. eftirgjald, er miðað við það, sem er, en ekki það, sem verða muni þegar búið er að byggja.

Þá vil jeg með nokkrum orðum snúa mjer að háttv. frsm. síðari hl. fjárlaganna, þm. Dala. (B. J.). Háttv. frsm. mintist á 17. brtt. og taldi meiningarlaust að fella úr fjárlögunum þennan styrk, af því að hann væri til vísindalegra rannsókna. Jeg álít nú, að sú vísindarannsókn sem hjer er um að ræða, falli undir starf þessa manns sem háskólakennara, og er algerlega á móti því að veita mönnum styrk til þess að inna af höndum þau störf, sem þeir eru bundnir við samkvæmt embætti sínu. Það má vel vera, að það sje hugsunin, að bæta svo upp embætti þetta, að það verði líkt launað og það væri „prófessorat“, en þá finst mjer, að fara hefði mátt einhverjar aðrar leiðir.

Annars kemur hjer fram stefnumunur hjá háttv. fjvn. og stjórninni, sem jeg gleymdi að minnast á í gær, af því að jeg fór svo fljótt yfir sögu. Og þennan stefnumun er víðar að finna; t. d. styrkurinn til orðabókarinnar. Stjórnin vill gera sem minst að því, að embættismenn fái styrk til þess að vinna önnur verk en þau, sem þeir hljóta að eiga að vinna samkvæmt embætti sínu. Í þessu sambandi get jeg nefnt staflið b. í 42. brtt. Það er styrkurinn til þjóðmenjavarðar. Það er ekki langt síðan að maður þessi hafði 1800 kr. í árslaun, en er nú kominn upp í 9500 kr. á ári. Stjórnin leit svo á, að þessi 300 kr. styrkur hefði verið uppbót á launum hans, meðan þau voru svo lág; þess vegna líka sjálfsagt að fella hann niður, þegar búið var að hækka launin og samræma þau við aðra embættismenn ríkisins. Jeg get ekki skilið, að hann hafi ekki tíma til þess að semja þessa skrá, enda hlýtur það að liggja beint í hans verkahring.

Svipað er að segja um styrkinn til Ingibjargar Guðbrandsdóttur, sem nefndin hefir hækkað um 300 kr., og sama er að segja um styrkinn til gróðurrannsókna dr. Helga Jónssonar. Þann styrk færði stjórnin niður um helming, af því að maður þessi hafði tekið að sjer kennaraembætti.

Það er líkt um allar þessar fjárhæðir, að hjer kemur fram greinilegur stefnumunur frá stjórnarfrv.

Jeg gleymdi í gærkveldi að minnast á 33. brtt., en skal nú gera það, og þá með tilliti til orða háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Mjer þykir þessi formáli dálítið undarlegur: ,,Til farskóla og eftirlits með heimafræðslu, með sömu skilyrðum sem verið hefir“.

Jeg skildi svo umr. um laun barnakennara 1919, að það ætti ekki að veita barnaskólum annan styrk en þann, sem felst í því að launa kennarana. Hjer er verið að lauma inn litla fingrinum, og farið fram á að styrkja skólana aukreitis, nema þá eigi að skilja það svo, að þennan styrk fái þau fræðsluhjeruð, sem ekki hafa neinn kennara, er nýtur launa úr ríkissjóði. Um þetta atriði vildi jeg fá upplýsingar hjá nefndinni. Ef það á eingöngu að ná til þess síðara, þá virðist mjer það sanngjarnt. En hjer stendur „farskólar“, og kennarar þeirra fá laun sín úr ríkissjóði.

Þá finst mjer undarlegt að tvískifta styrknum til Íþróttasambandsins; en þetta mun vera af hyggindum gert og búist við, að það gangi betur í háttv. þdm. Ólympíuförin er um garð gengin, og stendur ekki til, að sú för verði farin á næsta ári, enda segir nefndin, að upphæðina megi nota til annars. Undarlegt að endurveita styrk, sem nota á til annars en upphaflega var til ætlast, og virðist því, að rjettara hefði verið að veita upphæðina í einu lagi. Hitt er í raun og veru ekki annað en tilraun til að gabba.

Háttv. frsm. (B. J.) kvartaði undan því, að jeg hefði misskilið orð hans um Einar Jónsson, en hann hefir víst ekki skilið mig betur. Jeg benti einmitt á það, að þessum manni hefði verið sýnd fullkomin viðurkenning. Eða getur verið um stærri viðurkenning að ræða en þá, að ríkið reisir veglegt hús yfir listasafn hans, og fær honum það til fullra og frjálsra afnota? Það er fjarri mjer að vera að telja þetta eftir, en mjer finst hins vegar, að á þetta megi líta, og hálfgerðum brigslum um vanþakklæti af hálfu þingsins verð jeg að vísa á bug.

Háttv. frsm. (B. J.) sagði, að ekki hefði verið mikið sparað hjá stjórninni á 13. gr. Stjórnin vildi sem minst þurfa að draga úr verklegum framkvæmdum, en reyna heldur að draga saman seglin á öðrum sviðum. En þó sá hún sjer ekki annað fært en að draga úr mörgu einmitt á 13. gr., og fór þar eins langt og hún sá sjer fært.