23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

41. mál, fjárlög 1922

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er ekki mikið, sem háttv. frsm. (B. J.) og mjer ber á milli, svo að jeg þarf ekki að vera langorður.

Jeg er ekki alveg á sama máli og hann, að svo miklir örðugleikar sjeu á því að fá útgefendur að kenslubókum við umræddan skóla. Má samt vera, að það sje örðugra nú en áður. Jeg veit ekki hvort hann hefir tekið eftir þeirri aths. minni, að það geti ekki komið til mála að taka skólagjald við kennaraskólann. Mjer sýnist slíkt svo fjarri allri sanngirni, og eins þó að það yrði ofan á að taka skólagjald við Akureyrarskólann.

Jeg man nú ekki eftir fleiru í svip, og þó finst mjer, að jeg hafi átt eitthvað eftir, en það hefir þá víst verið ómerkilegt.

Jú — Nú man jeg það. Það er þessi Skutilsfjarðareyri. Það er ósköp óvanalegt að heyra Ísafjörð nefndan svo, enda munu fáir kannast við það heiti fjarri staðnum. Prestssetrið heitir Eyri í Skutilsfirði. Þessi Skutilsfjarðareyri kemur aldrei, eða þá mjög sjaldan. fyrir í fornum skjölum. Jeg hefi litið eftir því í Diplomatarium, og þar hefi jeg hvergi fundið það, svo ástæðulaust virðist vera að smeygja því hjer inn í frv. Sem sagt, Ísafjörður er lögheitið á staðnum, og engin ástæða að rugla frá því.

Jeg skal taka það fram, áður en jeg sest niður, að það mun hafa verið meiningin hjá fræðslumálastjóra, sem mæltist til að fá þennan 5000 kr. styrk, að nota hann til eftirlits með heimafræðslu og til styrktar henni.