23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

41. mál, fjárlög 1922

Magnús Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths., sem jeg vildi gera út af ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um 15. brtt. Hann setti styrk þennan í samband við frv., sem jeg flyt hjer á Alþingi, og er honum það vorkunn, vegna þess hvernig þetta er orðað í brtt. Þar stendur: „viðbót við eftirlaun presta“, en þessi styrkur og frv. mitt kemur mjög lítið hvað við annað, ef rjett er á litið.

Styrkur þessi er í raun rjettri ekki nema að mjög litlu leyti í sambandi við eftirlaun presta. Hann fer sem sje nálega allur til fátækra prestsekkna. Það er ekki nema örlítill hluti hans sem fer til fátækra uppgjafapresta, mig minnir þriggja eða fjögra. Þetta er sá styrkur, sem synodus úthlutar á ári hverju, ásamt vöxtum af prestsekknasjóði og svo kölluðum árgjaldasjóði, og er aðalstofn þeirrar fjárupphæðar. Biskup gerir um það tillögur, og á síðustu árum fjallar og nefnd kunnugra presta um það, svo að þessum styrk er mjög nákvæmlega úthlutað. Og það mun óhætt mega segja, að þessi styrkur sje aðallífsuppeldi margra þessara fátæku, gömlu ekkna, víðsvegar úti um land. Yrðu nú eftirlaunakjör presta bætt, þá myndi auðvitað þessi litla upphæð, sem nú fer til presta, bætast við ekkjurnar, nokkrar krónur til hverrar, en það er svo lítið, að það má með engu móti hafa áhrif á afstöðu manna til þessarar brtt.

Jeg vona, að háttv. deild taki þessu vel, því að það mun óhætt að fullyrða, að þótt margir styrkir sjeu vel þegnir og þarfir, þá mun þó enginn brýnni eða nauðsynlegri nje betur þeginn en þessi litli styrkur.

Svo var það annað atriði, sem jeg ætlaði nú að vísu að leiða hjá mjer að minnast á, en af því að jeg sje, að háttv. frsm. (B. J.) er forfallaður frá að tala um það, þá er mjer ekki nema ljúft að leggja því liðsyrði mitt. Það er styrkurinn til þess að halda áfram að þýða „Faust“.

Mjer finst það næsta undarlegt að bera saman verklegar framkvæmdir og bókmentir. Það er með það eins og smjör og brauð, að það getur verið gott hvað með öðru, en óæti ella, enda lifir maðurinn ekki á einu saman brauði.

Við Íslendingar höfum hingað til lifað mjög á okkar fornu andlegu fjársjóðum, sem varpað hafa ljóma um öll Norðurlönd og víðar, enda mun erfitt að benda á verk frá fornöld, sem betur hafa geymst heldur en Njála og önnur gullaldarrit okkar.

Er okkur því mikill gróði að hafa fengið „Faust“ í íslenskri þýðingu. Slík bók verður ekki aðeins þeim til yndis, sem ekki kunna að lesa þýska tungu, heldur og hinum líka, sem lesið hafa rit þetta á frummálinu. Að minsta kosti veit jeg um mig, að jeg hefi meira yndi af þýska tekstanum síðan jeg las „Faust“ á íslensku, enda er þýðingin, að dómi þeirra manna, sem vit hafa á, snildarlega vel af hendi leyst.

Það eru margar bækur, sem eru sílifandi og fyrnast aldrei, hversu gamlar sem þær verða. Margir lesa ennþá hina helgu bók, ritninguna, og ennþá grípa margir til Passíusálmanna í tómstundum. Slíkar bækur eru til uppbyggingar og andlegs gróða á öllum tímum, en þó eiga þær ekki við allra skaplyndi. Goethes Faust er eitt af þeim ritum, sem hefir í sjer fólginn hinn eilífa eld og altaf má lesa. Og þó að leggja mætti vegarspotta fyrir þessa upphæð, finst mjer það lítt saman berandi.

Þá vildi jeg minnast lítils háttar á þennan húsabótastyrk og brtt. nefndarinnar. Þessi styrkur er svo lítill, að óhugsandi er, að hann hrökkvi til þess að húsa upp staðinn. Og þó að vitnað sje í það, að þetta hafi dugað í Saurbæ, þá getur þar ekki hafa verið um annað en smávægisviðgerð að ræða. En að veita ekki sæmilega til þessara húsabóta getur orðið til þess að binda prestunum of þunga bagga.

Annars get jeg ekki kallað það styrk, sem bundið er við 6% ársvöxtu; það er þá langtum verra en prestakallalánin. Hitt væri mjög eðlilegt, að þeirri venju yrði komið á, að embættismenn fái styrk til húsabygginga, en að ríkið eigi svo mannvirkin, og þeir greiði venjulega vexti eins og af lánum, en leggi ekkert til úr eigin vasa.