23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

41. mál, fjárlög 1922

Þórarinn Jónsson:

Jeg er auðvitað þakklátur háttv. frsm. (B. J.), að hann skuli vera á sama máli og jeg um styrkinn til listamanna. Hann sagði, að það væri oft svo, að námsmenn gætu eigi komist áfram án styrks. Má vel vera að svo sje. En hitt er líka jafnvíst, að margir duglegir menn hafa brotist áfram af eigin ramleik, og þekki jeg dæmi þess.

Háttv. frsm. (B. J.) komst líka að þeirri undarlegu niðurstöðu, að þeim væri auðvelt að komast áfram styrklaust, ef þeir gerðust síldarkóngar. En því er niðurstaða þessi undarleg, að sami háttv. þm. (B. J.) hefir áður haldið því fram, að menn stórtöpuðu á þessum atvinnuvegi.

En vera má, að hann hafi viljað leggja sjer skepnufóður „Tímans“ í munn, og hafi ætlað sjer að sneiða að mjer með orðum þessum. Er honum það síst of gott, ef hann er svo óvandætinn, og bendir ótvírætt á það, að bjargarskortur muni vera í búi hans, er hann leitar þangað til fanga.