23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

41. mál, fjárlög 1922

Sigurður Stefánsson:

Það eru aðeins örfá orð, til þess að gera grein afstöðu minnar til brtt. háttv. fjvn. Tel jeg þær eigi allar upp, en mun sýna afstöðu mína með atkvæði mínu.

Jeg játa það, að þegar jeg las fjárlaga frv. stjórnarinnar, þá brá mjer í brún, hversu mjög var dregið úr öllum verklegum framkvæmdum. En þegar jeg hafði lesið það alt, sá jeg, að stjórnin hafði farið hóglega og rjett í sakirnar. Fjárhagsvandræðin ollu því, að nauðsynlegt var að draga saman seglin, og sparnaðurinn var það skynsamlegasta, eins og sakir stóðu.

Í sambandi við þetta má láta þess getið, að stjórnin hefir ekki gengið lengra í sparnaði sínum gagnvart vísindum og listum en það, að hún hefir látið allar undanfarnar fjárveitingar til þeirra halda sjer.

Sýnir þetta, að stjórnin hefir ekki horn í síðu þessara fjárveitinga, heldur dregið minna úr þeim en mörgu öðru, sem alþjóð ríður þó einna mest á.

Mjer dettur eigi í hug að álasa háttv. fjvn. fyrir till. hennar, því að jeg veit, að hún er í miklum vanda stödd, en hins vegar verð jeg að játa það, að mjer óar útlitið, þegar stjórnin, þrátt fyrir mikinn sparnað á veitingum til verklegra framkvæmda, skilar fjárlagafrv. með 2 milj. kr. tekjuhalla. Veit jeg að vísu, að stjórnin hefir reynt til að bæta úr þessu með tekjuaukafrv. sínum, en það er alveg óvíst, hvernig þeim kann að reiða af, og einnig er hætta á því, að tekjurnar verði minni en þær eru áætlaðar. Og ef svona skyldi fara, þá sje jeg fram á tekjuhalla, sem í mínum augum er afskaplegur.

Háttv. fjvn. eykur mest fjárveitingum við 15. gr., til vísinda og lista. Jeg er henni samdóma í því, að þessu tvennu má ekki gleyma, en það dugir ekki að hækka þessar styrkveitingar, þegar knýjandi ástæður eru fyrir því, að láta þær standa í stað. Þegar ákveðin eru útgjöld, þá verða háttv. þm. að muna það, hverjir eiga að borga þau. Það er þjóðin, sem verður að gera það, en gjaldþol hennar er nú lítið, sem eðlilegt er, þar sem aðrar eins hörmungar og ófarir hafa dunið yfir atvinnuvegina sem nú. Er til þess ætlast af alþjóð manna, að þm. athugi þetta.

Viðvíkjandi styrknum til skólanna vil jeg taka það fram, að það er minni ástæða til að hækka hann nú en síðast, þar sem dýrtíð fer nú minkandi, og hlýtur það auðvitað að koma þeim að haldi sem öðrum.

Jeg viðurkenni það, að hv. fjvn. hefir ekki farið geist í sakirnar, en eins og ástandið er, var hyggilegast að láta sem mest sitja við frv. stjórnarinnar.

Mjer dettur auðvitað ekki í hug að neita því, að góðar bækur sjeu nauðsynlegar, og full þörf sje að auðga anda sinn á þeim, en sje bjargarskortur í húsi bóndans og vanti hann mjöl út á pottinn fyrir svanga fjölskyldu sína, þá kaupir hann það fremur en jafnvel bestu bókina, sem völ er á; já, jafnvel fremur en Goethes Faust, því að enda þótt það sje göfugt skáldrit og háfleygt, og þó að góð þýðing sje fengin á því, þá verður sú bók samt aldrei fyrir alþýðuna.

Þó að jeg sje sumum brtt. hlyntur, þá get jeg eigi greitt þeim atkv. mitt, eins og nú horfir, að fáeinum undanskildum.

Valda því hin ægilegu fjárhagsvandræði, sem standa fyrir dyrum og jeg hefi áður um getið.