23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Aðfinslurnar hafa komið svo á slitringi frá háttv. þm., að jeg er til neyddur að standa upp í 3. sinn, enda þótt jeg hefði að fullu getað svarað þeim í 2. sinn, ef þær hefðu þá verið framkomnar.

Vil jeg þá fyrst svara fyrirspurn frá hæstv. forsrh. (J. M.). Nefndin hefir ekki farið fram á annað en það, að sama aths., sem stóð við Mentaskólann, verði sett við aðra skóla. Hinsvegar leggur nefndin enga áherslu á, að skólagjöld verði sett, og dæmir ekkert um það, hvort sú leið er heppileg eður eigi, en telji stjórnin, í samráði við kennara, þetta hagkvæma leið, þá gerir hún það, annars ekki.

Nefndin hefir einungis viljað samræma skólana. Sjálfur tel jeg skólagjald óheppilegt.

Viðvíkjandi Skutilsfjarðareyri skal jeg taka það fram, að orð hæstv. forsrh. (J. M.) sannfærðu mig þar engan veginn.

Ef þetta danska sjómannaheiti er orðið lögfest og lögskipað á stað þessum, þá á að breyta þessum lögum og færa nafnið til rjetts máls aftur. Er það skylda stjórnarinnar að gera lagfæringar á málvenjum eða mállýtum, að minsta kosti ef henni er bent á það. Mun á næsta þingi reynt til að lagfæra bæði þetta og annað, sem aflagað er orðið í máli voru.

Um farskólafjárveitinguna skal jeg geta þess, sem jeg gerði einnig við framsögn mína, að hún er tekin upp eftir brjefi frá fræðslumálastjóra. Er hjer ekki verið að smeygja inn fingri um aðrar fjárveitingar.

Viðvíkjandi fjárveitingunni til íþróttasambandsins skal jeg geta þess, að ytri ástæður urðu því valdandi, að þetta varð í tvennu lagi. Umsóknin um að halda styrknum, sem veittur var í öðru skyni, kom seinna fyrir nefndina, og taldi hún því rjett, að því yrði veittur hann með sjerstakri veitingu.

Upprunalega var fjárveiting þessi ætluð til þess að sjá og læra af olympísku leikunum, því að eigi var búist við því, að Íslendingar gætu verið þar þátttakendur. En nú ætla norskir íþróttamenn að heimsækja Íþróttasambandið bráðlega og leika við það. Er það gott til lærdóms, en Íþróttasambandið verður að kosta viðdvölina. Veit jeg, að þm. muni ljúft að veita fje þetta, því að ella fellur kostnaður þessi á fjelagsmenn.

En ef háttv. þm. eru litlir íþróttavinir, þá er þeim hægt um vik að fella aðrahvora upphæðina. Er það auðsætt, að það er eigi af undirhyggju gert hjá nefndinni að hafa tvær fjárveitingarnar, því að væri hún einungis ein, myndu þm. meira víla fyrir sjer að fella hana.

Hæstv. atvrh. (P. J.) kom aftur að sínu fyrra keppikefli, að hefndin hefði ófyrirsynju hækkað á þessum greinum. En þetta er ekki rjett, enda hefir hæstv. fjrh. (M. G.) játað það, að þótt sparað hafi verið á 13. gr., þá hafi meira verið sparað hjer. Má hæstv. atvrh. (P. J.) líka vita, að eftir er að hækka 13. gr. enn, því svari hann fyrirspurninni til sín svo, að ekki eigi að nota peningana í sumar, þá mun verða lagt til, að endurveitt verði bæði til Strandasímans og 90 þús. til Dalasýslu. Hjelt jeg að nota ætti fje þetta í sumar; en sje það eigi ætlunin, þá kemur til hækkunar á 13. gr. (Atvrh.: Ætlar háttv. þm. Dala. (B. J.) þá að skila því af 15. gr.?). Hefi jeg nokkru stolið? Hygg jeg, að það sje frekar hæstv. atvrh. (P. J.) að skila því.

Annars er dálítið gaman að athuga það, að hæstv. atvrh. (P. J.) heldur, að þegar illa láti í ári, þá megi svelta vísindamenn og listamenn í eitt ár eða svo; en svo segir annar spekingurinn, að óáranið sje búið, og þessvegna sje engin þörf á að auka við styrkinn til vísindamanna eða skóla. En þrátt fyrir þetta mætast þessir báðir föðurlandsvinir í sama troginu, blóðugir upp til axla af að slátra því, sem dýrmætast er í eign þjóðarinnar.

Þeim finst hækkunin á 15. gr. alveg ógurleg, þó að hún sje einar 48 þús. kr., og halda að fjárhag landsins sje búin voðahætta með þessu.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að nefndinni væri eftirskildar 100000 kr. til ráðstöfunar. (Fjrh.: Hún er búin að taka það annarsstaðar). Já, hún lætur ekki alveg skamta sjer úr hnefa, en allar hækkanir hennar nema þó eigi meiru en nokkuð á þriðja hundrað þúsund krónum.

Annars eru þeir einkennilegir spádómarnir um þennan mikla halla, sem óhjákvæmilega á að verða árið 1922. Jeg gæti best trúað, að enginn halli yrði, og jeg ætla mjer að lifa þangað til, og sanna þá þessi orð mín. Þykir mjer líklegt, að allur halli hverfi, bæði af frv. stjórnarinnar og brtt., ef tekjuaukafrv. verða samþ. Einn háttv. þm. sagðist mundi hafa orðið nefndinni þakklátur, ef hún hefði hækkað til verklegra framkvæmda.

Hann ætti að vera nefndinni þakklátur. því að þetta hefir hún gert með því, að leggja til helmingi meiri hækkun á 16. gr. en hækkunin á 15. gr. nemur.

Annars getur nefndin ekki talað eins úr flokki og hann, því að henni sýnist, að frekari þörf sje á því að auka andlega auðinn í landinu. En honum finst sennilega, að predikanir sínar hafi aukið hann nægilega, og það sje óþarfa eyðsla að vera að auka við hann.

Jeg vil geta þess, út af ræðu háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), að það var fjarri mjer að bera honum neitt síldarbrask á brýn, nje taka undir það þvarg, sem stóð í blöðunum um það. Hefði jeg munað það, þá hefði jeg eins getað nefnt fisk. Í stað síldar. En jeg mundi alls ekki eftir, að þessi, skolli hefði komið fyrir, og varð því mjög hissa, er jeg heyrði svar háttv. þm. (Þór. J.), því að mjer hefði aldrei dottið í hug að minnast á þetta, ef það hefði ekki verið fallið mjer úr minni. (Þór. J.: Það þarf ekki að afsaka þetta). Jeg er ekki að afsaka það, því að jeg hefði aldrei getað notað slíkt vopn, þó að jeg væri reiður, og þá því síður þegar jeg er óreiður.

Jeg vildi svo svara nokkrum mótbárum, sem komið hafa fram, en jeg vil halda því fast fram, að nefndin hefir verið mjög varkár og sparsöm og hvergi farið fram úr því, er nauðsynlegt var.

Það er ókunnugt og ósannað, hvort útgjöldin mundu ekki hafa orðið jafnhá í frv. frá stjórnarinnar hendi, ef hún hefði fengið öll þau erindi til meðferðar, er fjvn. hefir haft með höndum.

Stjórn og þing verður því að viðurkenna sparnaðarviðleitni nefndarinnar, er athugað er, hve mýmörg erindi hafa borist fjvn., sem heyra undir 14. gr.

Ef þau hefðu komið til stjórnarinnar, mundi hún vafalaust hafa sint mörgum þeirra. Og munurinn á frv. stjórnarinnar og tillögum nefndarinnar er heldur ekki mikill.

Mjer hefir komið það undarlega fyrir, að hæstv. ráðherrar hafa talað eins og jeg ætti þessar tillögur einn. (Atvrh.: Þegar maður er að svara háttv. frsm.) Framsögumaður talar fyrir nefndarinnar hönd, og það er engin till. í þessu, sem jeg á einn.

En við 3. umr. skal jeg gefa hæstv. atvrh. (P. J.) tækifæri til að ræða brtt., sem jeg á einu.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta, en það, sem jeg sagði í gær, sagði jeg með þeim hætti, að enginn gat stygst af því. heldur tók jeg aðeins hlutlaust fram ástæðu til hverrar tillögu um sig, eins og þeir vita, er á það hlýddu.

Vel getur verið, að fram hafi komið í ræðum þeirra hv. deildarmanna, er hafa tekið til máls, ýmislegt, sem jeg hefði átt að svara. En jeg bið þá velvirðingar á því, að jeg geri það ekki, og er það ekki af því, að jeg virði þá ekki svars, heldur sumpart af því, að jeg hefi gleymt því, eða þá að jeg hefi ekki heyrt það.

Jeg vænti þess svo, að háttv. deildarmenn sýni við atkvgr. viðurkenningu á sparsemi nefndarinnar og samþykki þessar tillögur hennar, sem hún hefir teflt fram.

Ef háttv. deildarmenn hefðu fengið allar málaleitanir, sem nefndinni hafa borist, þá mundi þeim betur skiljast, hvað nefndin hefir verið sparsöm í tillögum sínum.