23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg hefi ekki ástæðu til annars en vera háttv. fjvn. þakklátur fyrir brtt. hennar við 16. gr., því að sú grein á aðallega við þá grein stjórnarstarfseminnar, sem jeg er við riðinn. Jeg verð þó að gera grein fyrir þeim fjárveitingum, sem nefndin hefir tekið upp, en jeg treystist ekki til að taka til greina þegar fjárlagafrv. var samið. Kem jeg þá fyrst að sandgræðslunni. Vitanlega mun það ekki spilla fyrir, þótt fjárveitingin til sandgræðslu sje aukin um þriðjung. En jeg hjelt að það varðaði ekki miklu fyrir sandgræðsluna, hvort veittar eru 10 eða 15 þús. kr. Ef gera á eitthvað verulegt í því skyni, þarf vafalaust að breyta tilhöguninni og margfalda fjárveitinguna. En jeg geri nú ráð fyrir, að það sie sjerstakt augnamið með þessa 5 þús. kr. viðbót.

Annað atriði, sem jeg vildi minnast á, er fjárveiting til Búnaðarfjelags Íslands. Þegar fjárlagafrv. var samið, var það haft í huga að draga úr fjárveitingunni til búnaðarins, eins og annars, en þó svo, að Búnaðarfjelag Íslands hefði styrk, sem nægilegur mætti teljast til þess að halda starfsemi þess nokkurn veginn gangandi. Búnaðarfjelagið hefir nú í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár um 205 þús. kr., og mátti ekki teljandi af því draga, til þess að trufla eigi framkvæmdir þess frá nokkuð fastri áætlun. Sýndist mjer þá að sparnaðurinn yrði að koma niður á styrknum til búnaðarfjelaganna, fremur en á Búnaðarfjelagi Íslands.

Þessi styrkur kemur nú orðið að litlum notum og er búinn að vinna sitt fyrra ætlunarverk að mestu leyti. Hann hefir nú staðið í fjárlögunum í marga áratugi, og hafði fyrst lengi vel mikla þýðingu, í því skyni að örfa menn til fjelagsskapar um búnaðarumbætur víðsvegar í landinu. Þessi styrkur hefir víða mjög verið notaður þannig, að úthluta honum eftir dagsverkatölu á bændur innan búnaðarfjelaganna. Óhætt er að fullyrða, að styrkur þessi er ekki til neinnar uppörfunar lengur, síst þegar svo er með farið, því að þegar aðstöður manna eru batnaðar til þess að sinna jarðabótum og ýms kunnátta fengin, sem ekki var til áður, þá þarf enga slíka hvöt, því að öllum er það ljóst, að þetta er í flestum tilfellum mjög arðvænlegt. Þar að auki er fjárhæð sú, sem úthlutað er, milli 10 og 20 aura á dagsverk, svo smá, að hún er sama sem einskis virði. Það má geta nærri, hvort slík upphæð á dagsverk vegur nokkuð upp í tilkostnað við jarðabætur nú á tímum. Framan af árunum, þegar á færri dagsverk var að skifta, var upphæðin hærri, auk þess sem peningagildið, alt fram að styrjöldinni, gaf henni margfalt nota gildi, gat þetta orðið uppörfunarstyrkur efnalitlum bændum. Jeg get talað um þetta af eigin reynslu, því að jeg hefi verið við búskap undir 40 ár, og alt til síðustu ára, og hefi verið með viðleitni til jarðabóta, líkt og aðrir með litlum efnum, en mjer hefir aldrei fundist þessi styrkur vera nein uppörfun fyrir mig í þessu efni, og allra fráleitast nú orðið.

Nú hefir nefndin tekið fram, að ekki sje ætlast til, að þessum styrk verði skift niður milli búenda innan búnaðarfjelaganna, eins og víða áður, heldur eigi hvert búnaðarfjelag að nota hann til eigin fjelagsþarfa. Ef trygging væri fyrir því, að hvert fjelag notaði hann til fjelagslegra búnaðarframkvæmda, þá væri þetta breyting til batnaðar. En jeg get ekki sjeð annað en stjórninni sje nær ómögulegt að útbýta styrknum og ábyrgjast, að eftir þessu sje farið. Og nú vil jeg spyrja háttv. fjvn., hvort eigi því aðeins að greiða þennan styrk, að stjórnin hafi tryggingu fyrir því, að styrkurinn verði notaður til fjelagslegra þarfa? (B. J.: Já.). Jeg óska að háttv. þm. (B. J.) taki þetta fram síðar í ræðu, svo það sjáist í Alþt., hver sje skilningur nefndarinnar á þessu atriði. (B. J.: Jeg skal gera það).

Þá kem jeg að till. um styrk til kjötrannsókna. Jeg er hlyntur því, að bætt sje við fjárveitingu til Gísla gerlafræðings. Mjer er sem sje líka kunnugt um kjötrannsóknartilraunir hans, og það var með tilliti til þeirra að nokkru leyti, að þessi liður er látinn standa. Jeg hefði því lagt til, að bætt hefði verið við styrkveitingu til gerlarannsóknanna, því að þessar kjötrannsóknir eru í sjálfu sje ekkert annað en gerlarannsóknir. Hjer er á leiðinni talsvert mikilsverð athugun eða uppgötvun, er getur haft praktiska þýðingu fyrir landið, og líklega vísindalega yfirleitt, og er vert að hlúa að því, en mjer sýndist nóg, að styrkurinn til gerlarannsóknanna væri hækkaður nokkuð, með tilliti til þessa.

Þá er fjárveitingin til húsagerðarmeistara, eða aðstoðarmanns hans, og hefi jeg ekkert við hana að athuga.

Viðvíkjandi Jóh. Fr. Kristjánssyni vil jeg taka það fram, að þegar stjórnin ekki tók styrk til hans í þessi fjárlög, var það ekki af því, að hún vantreysti honum að gera gagn með leiðbeiningum við húsagerð á sveitabæjum, heldur af því, að undanfarin ár hefir hann haft svo lítið að gera við slíkar leiðbeiningar, og þær þess vegna orðið að altof litlum notum. Og mjer virðist eftir horfum, að líkt mundi fara næstu árin, af því svo fáir myndu leggja í steinsteypubyggingar í þessu árferði. Sjálfur hafði hann ekki þau launakjör, að hann eigi gæti unnið þau upp með því að leita sjer annarar smíðaatvinnu. Breytist horfurnar, gæti stjórnin tekið hann upp í fjáraukalög fyrir 1922. Er nú að koma í ljós, að hann hefir eitthvað að gera í sumar, og er þá síst á móti mínu skapi, að starf þetta geti haldið áfram, ef líf kemst í það aftur.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að gera frekari grein fyrir máli þessu að sinni.

Þá vil jeg minnast á nokkra nýja liði, sem nefndin hefir tekið upp, og kem þá fyrst að bryggjugerðinni á Blönduósi. Mjer þykir ólíklegt, að sýslan geti lagt út í að byggja tvær bryggjur á fjárhagstímabilinu, en það er þegar búið að heimila fje til gömlu bryggjunnar, sem sjálfsagt er að gera við. Ef sýslufjelagið ætlar að leggja fram að minsta kosti 2/3 kostnaðar til beggja, þá ætti að vísu ekki að standa á ríkissjóði að leggja fram þriðja hlutann, en mjer virðist ósennilegt, að sýslan geti látið byggja þessar bryggjur báðar nú í sumar og næsta sumar.

Um hafskipabryggjuna á Búðareyri er ekkert annað að segja en sjálfsagt er að halda byggingu hennar áfram.

Mjer er ókunnugt um fyrirhugaðar lendingarbætur í Rifsósi, og get því ekkert um þær sagt.

Viðvíkjandi styrkveiting til að bæta innsiglinguna á Stokkseyri, vil jeg geta þess, að jeg skil ekki, að 24 þús. kr. bæti mikið úr skák eða dragi langt upp í kostnað við þá aðgerð, sem um munar. Jeg gæti trúað því, eftir þeirri reynslu, sem fengin er um kostnað við hafnarbætur eða tilraunir á þessum stað undanfarið, þá yrði þessu, svona litlu fje, sama sem fleygt í sjóinn. Jeg hefi kynt mjer nokkuð þær hafnarbætur, sem fyrirhugaðar eru, búið að mæla fyrir og gera jafnvel uppdrætti af, og allar þurfa að komast til framkvæmda. Er það mikið fje, sem til þeirra þarf að leggja, ef nokkuð á að vinnast, margar miljónir, og langan tíma til framkvæmda. Þá er einmitt hætta á því, að smáar fjárveitingar, sem að engu gagni koma, valdi afturkipp og seinki fyrir framgangi þessara mála, þegar hafist verður handa fyrir alvöru í þeim.

Viðvíkjandi uppbótinni á skurðgreftrinum í Miklavatnsmýri, vil jeg geta þess, að þing er búið að veita þar uppbót, sem jeg hygg, að hafi átt að vera til fullnaðar af þess hálfu. Jeg vildi minna á þetta, án þess að spilla fyrir fjárveitingu þeirri, sem hjer er borin fram. Jeg hefi ekki við hendina gögn þessu viðvíkjandi, en það var að tillögu vegamálastjóra, að uppbót var veitt.

Jeg er nefndinni þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið til greina beiðni mína um eftirlaun til frú Önnu Stephensen, þó að upphæð sú, sem henni er ætluð, sje tæplega eins mikil og verðleikar standa til og jeg vildi.

Það er ekki eingöngu af því, að hún er ekkja eftir Stefán Stephensen, sem var lengi m. a. starfsmaður Landsbankaútibúsins á Akureyri, heldur og annað, sem jeg álít að hún eigi sjerstaka opinbera viðurkenningu fyrir. Það er kunnugt, að hún er ein meðal þeirra kvenna, er fyrst börðust fyrir aukinni mentun kvenna hjer á landi, og varð kennari við annan fyrsta kvennaskóla hjer á landi, Þar að auki hefir hún og maður hennar ráðstafað fje sínu á þann hátt, að það á alt að koma almenningi til nota eftir hennar dag.

Jeg get ekki verið með byggingarstyrknum til spítalans á Ísafirði, þótt jeg geti fallist á það, að rjettara væri að veita fje til spítalabyggingar þar en á Eyrarbakka. Og þá get jeg heldur ekki verið með lánsheimildinni, af því jeg tel ríkissjóð ekki færan um að skuldbinda sig til að lána jafnmikla upphæð og farið er fram á.

Mig hefði langað til að vera með till. háttv. þm. Borgf. (P. O.) um lánsheimild til kjötniðursuðuverksmiðju, því að þar er um tilraun að ræða, sem þyrfti að komast til framkvæmda sem allra fyrst, ekki einungis vegna þess, að kjötinu okkar, með núverandi verslunaraðferð, virðist mikil hætta búin á markaðinum, heldur vegna þess, að við flytjum þegar inn mikið af niðursoðnum matvælum, sem við eigum að geta framleitt í landinu sjálfu. Hjer vilja áhugasamir, efnilegir menn leggja út í áhættusamt og kostnaðarmikið fyrirtæki, til þess að gera tilraunir í þessa átt.