23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

41. mál, fjárlög 1922

Björn Hallsson:

Jeg á hjer að vísu enga brtt. við fjárlögin. En þó vil jeg minnast ofurlítið á 2 brtt. fjvn. á þskj. 338, og þá einkum vegna þess, að jeg er persónulega kunnugur því, sem önnur brtt. lýtur að.

Þáverandi landsverkfræðingur, en núverandi 3. þm. Reykv. (J. Þ.), gerði áætlun að þessari bryggjugerð fyrir stríðið, og gerði sú áætlun ráð fyrir, að bryggjan mundi kosta 11 þús. kr. Síðan veitti þingið styrk 1915 til bryggjugerðarinnar, miðaðan við 1/3 kostnaðar. En í þeim svifum skall ófriðurinn á. Alt efni hækkaði í verði, og var ófáanlegt, og verkið hefir þar af leiðandi dregist fram til þessa. Í fyrra var svo loks pantað efni, og er bryggjan nú reist að mestu leyti, nema bryggjuhausinn. Mjer er nú um það kunnugt, að bryggja þessi varð margfalt dýrari en ráð var fyrir gert, og var það að vonum, þar sem alt efni hafði stórum hækkað í verði. Kaupfjelagsstjórnin sótti nú til þingsins um hækkaðan styrk, eftir verðshlutfalli nú og fyrir stríðið. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga hjá verkfræðingum hjer, og töldu þeir sanngjarnt, að styrkurinn yrði hækkaður 31/2–4 sinnum, og mundi það þá svara til þess, að bryggjan kostaði nú ea. 40 þús. kr.

En nú hefi jeg fengið símskeyti frá kaupfjelaginu um, að hún muni kosta 40 til 45 þús. kr. Í umsókninni frá mjer, sem lá fyrir fjvn., var farið fram á 13 þús. kr. styrk, miðað við 1/3 af áætlunarverði nú. En síðan er upplýst, að þessi upphæð verður ekki 1/3 hins raunverulega kostnaðar.

Jeg get þakkað hæstv. atvrh. (P. J.) og háttv. frsm. (B. J.) fyrir það, hvað vel þeir hafa tekið í styrkveitingu til bryggjunnar. Það var auðheyrt á háttv. frsm. (B. J.), að hann hafði komið þarna og skyldi nauðsyn og þýðingu bryggjunnar fyrir hjeraðið og aðra notendur.

Jeg get samt ekki verið ánægður með þessar 10 þús. kr., sem háttv. fjvn. hefir tekið upp. Auðvitað hefir þar ráðið sparnaður, eins og sjálfsagt er, og kann jeg auðvitað vel að meta þá ástæðu. En það má benda á ýmislegt, sem gengið hefir gegnum 1. og 2. umr., sem ekki verður talið jafnnauðsynlegt og þetta. Jeg hefi þó hikað við að fara fram á meira en 13 þús. kr., enda þótt 1/3, eins og lofað var í upphafi, sje 14–15 þús.

Jeg get nefnt það, að bryggjan verður ekki prívatmanna eign, því að landssjóður á landið. Jeg hefi ekki enn komið með neina brtt., og ekki víst hvort jeg geri það til 3. umr., en jeg efast ekki um, að styrkurinn verði veittur að 1/3 hluta að afloknu bryggjusmíði, eftir þeim meðmælum, sem hann hefir frá háttv. frsm. fjvn. (B. J.). Jeg tel það fyrirheit um það, að kaupfjel. eigi von á 1/3 kostnaðar bryggjusmíðisins, og því skifti ekki miklu máli, hvort nú fæst sett inn í fjárlög einu þúsundi meira eða minna. Enda er venjan sú, að veita kostnaðar til svona fyrirtækja.

Annar liður, sem jeg vildi minnast á, er Búnaðarfjelagsstyrkurinn, en háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir að mestu tekið af mjer ómakið. Jeg álít, að þessi styrkur geti komið að miklu liði, ef honum er rjett varið. En jeg tek undir það með hæstv. atvrh. (P. J.), að honum hefir ekki altaf verið rjett varið. Sum búnaðarfjelög hafa úthlutað honum eftir dagsverkatölu til fjelagsmanna, en þannig munar engan um hann. Aftur hafa önnur fjelög, og meðal þeirra það fjelag, sem jeg heyri til, varið honum til verkfærakaupa og annara fjelagsþarfa, og það tel jeg rjetta stefnu. Þannig hefir styrkurinn komið að góðum notum. Jeg vil eindregið leggja með því, að sett sje skilyrði fyrir veitingu hans, að honum sje varið á rjettan og hagkvæman hátt. Með því einu móti heldur hann fjelögunum saman og styrkir þau.