23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

41. mál, fjárlög 1922

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla aðeins að minnast lítillega á eina brtt. á þskj. 359, frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Mjer þótti leitt að heyra undirtektir nefndarinnar, vegna þess, að mjer er kunnugt um málavexti og veit, að vel hefði mátt taka öðruvísi í þetta, og þó fremur af því, að jeg hefði viljað láta bæta við þriðja hreppstjóranum, eftir tilmælum sýslumannsins í Vestur-Skaftafellssýslu. Þessi maður heitir Eyjólfur Runólfsson frá Reynivöllum. Hann hefir þjónað hreppstjórastarfi í 50 ár, en lagðist í rúmið í fyrra og er nú orðinn blindur og örvasa. Hafi hann nokkuð átt til, þá munu nú öll efni af honum gengin. Þessi maður á skilið að fá einhverja viðurkenningu.

Jeg ætla annars ekki að lengja umræðurnar mikið, því að þessir kaflar snerta mig lítið.