30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

41. mál, fjárlög 1922

Þorsteinn Jónsson:

Það er aðeins út af brtt. samgmn. við 13. gr. e., að jeg verð að segja nokkur orð. Eins og háttv. deild veit, þá varð hallinn af ferðum Sterlings 300 þús. kr. síðastliðið ár. Eftir útlitinu að dæma, sem nú er, þá þori jeg að fullyrða, að hann verður ekki minni þetta ár.

Háttv. þm. Str. (M. P.) spurði, hvort nefndin hefði athugað, hvort betra væri að leggja Sterling upp eða láta hann halda áfram á þennan hátt. Jeg hygg, að flest um muni þykja ómögulegt að hugsa sjer að leggja honum upp. (M. P.: Jeg meinti aðeins að fella niður einstakar ferðir). Það gæti fremur orðið álitamál, og jeg býst við, að nefndin muni taka það til athugunar áður en þingi slítur, hvort ekki sje hægt að fækka ferðunum, þótt strandferðirnar sjeu í raun og veru of strjálar vegna fólksflutniuga. Það er ekki annað sjáanlegt en að hallinn á þessu og næsta ári verði gríðarlega mikill. Í fjárlagafrv. sínu hefir hæstv. stjórn áætlað 175 þús. kr. til Sterling. En það er víst, að hallinn verður miklu meiri, ef Sterling verður notaður í strandferðir. Nefndin hefir því hækkað áætlunarupphæðina upp í 400 þús. kr. Þótt alt benti til, að hallinn verði svona mikill, þá ber að geta þess, að Sterling verður eina skipið, sem haft verður á næsta ári í strandferðum. Suðurland verður ekki styrkt til strandferða á næsta ári, ef samgmn. má ráða.

Það skiftir í sjálfu sjer litlu máli, hvort deildin samþ. þennan lið eða ekki. Hvort sem í fjárlögunum standa 175 þús. eða 400 þús., þá verður hallinn jafnmikill fyrir það, og ríkissjóður verður alt að einu að greiða þann halla. Nefndin hefir hækkað liðinn aðeins vegna þess, að henni finst engin ástæða til að vera að slá ryki í augu manna, með því að áætla gjöldin minni heldur en þau fyrirsjáanlega hljóta að verða.

Sterling er að vísu ekki hentugur til strandferða. Hann er afar kolafrekur og of stór til strandferða. Nefndin tók því til íhugunar, hvort ekki mundi rjett að selja Borg eða Villemoes og kaupa hentugt strandferðaskip fyrir andvirði annars hvors þeirra. Fór hún þess á leit við Nielsen framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands, að hann græfist fyrir um það, hvað mikið mundi fáanlegt fyrir Borg og Villemoes, og jafnframt hvað nýtt, hentugt strandferðaskip mundi kosta. Hann varð við þessari beiðni okkar og gaf þær upplýsingar, að nýtt farþegaskip, hæfilega stórt til strandferða, kostaði 1 milj. og 200 þús. kr. Skip, bygt 1887, kostar 600 þús. og skip, bygt 1916, sem eyðir 840 tonnum kola, kostar 950 þús. Enn fremur gat hann þess, að flest skip, sem ætluð eru til farþegaflutnings, væru annaðhvort óhæfilega stór eða óhæfilega smá til strandferða hjer.

Um Borg og Villemoes segir hann, að ekki muni fást meira en milj. króna fyrir þau bæði til samans — eftir því ekki nema helmingur þess, sem eitt strandferðaskip mundi kosta. Ástæður þess sagði hann liggja í því, að mestur hluti heimsflotans lægi nú uppi, og því væri eftirspurn eftir flutningaskipum mjög lítil. Samkvæmt þessu getur nefndin ekki lagt til, að nýtt skip sje keypt, eins og nú standa sakir, nje heldur Borg eða Villemoes seld.

Þá er ekki um annað að gera en að láta Sterling halda áfram strandferðum. Jeg veit, að menn munu ekki verða ánægðir með ferðir hans, en vegna þess, hvað dýrar þær eru nú, þá verða menn að láta sjer þær nægja, meðan þessi fjárkreppa varir. Samgmn. hefir skipað undirnefnd, sem á að semja áætlun fyrir skipið, í samráði við Nielsen framkvæmdarstjóra, en hún hefir ekki enn lokið störfum sínum.

Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að koma með brtt. um að hækka styrkinn til bátaferða á flóum, fjörðum og vötnum. Styrkbeiðnir hafa komið miklu fleiri en hægt var að sinna, en það er heldur ekki svo mikil hætta, þó að áætlunarupphæðin hrökkvi ekki, því að þing kemur saman svo snemma á næsta ári, að því er í lófa lagið að bæta upp það, sem því finst þörf á vera.

Þeir bátar, sem sjálfsagt er að veita styrk, eru fyrst og fremst póstflutningsbátarnir á Faxaflóa og Ísafjarðardjúpi. Svo má ganga að því vísu, að það verði að styrkja Breiðafjarðarbátinn og Skaftfelling, og Rangárvalla- og Árnessýslubátana. Einnig Austfjarðabát og Norðurlandsbát,-

Til bátaferða á vötnum hefir nefndin ætlast til, að veittar yrðu 1500 kr. til bátsins á Lagarfljóti. Stjórn bátsins hefir sótt um þá styrkhæð. Nefndin telur það mjög hóflega beiðni og leggur til, að veitt verði. Þessi bátur kemur 4 hreppum að notum.