30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. frsm. (M. P.) gat þess víst við 2. umr., að ef til vill væri von einhverra nýrra brtt. við þessa umr., enda kom ekki við 2. umr. frá nefndinni svo miklar brtt., að ástæða væri til þess að vera sjerstaklega óánægður. Og jeg, og víst margir fleiri, höfðu vonað, að áframhald gæti orðið á þessari hófsemi nefndarinnar. En þar hafa vonirnar brugðist hrapallega, þar sem hækkunartill. nefndarinnar nema miklu meiru nú en við 2. umr., og mun það einsdæmi og veit jeg ekki hverju sætir. Nefndin virðist nú alveg hafa lagt sparsemina á hilluna og hegðar sjer eins og við hefðum fullar hendur fjár.

Skal jeg svo leyfa mjer að víkja nokkuð að einstökum brtt., og þá fyrst að launabótum sendiherrans í Kaupmannahöfn, og vildi jeg þar mæla með varatillögunni. Að vísu ber engin skylda til þess að samþ. neitt í þessa átt, og það var meira að segja tekið fram við sendiherrann, að hann gæti ekki átt von á launahækkun strax, jafnvel þótt launin væru í sjálfu sjer of lág. Hins vegar var búist við því, að hann hefði sjálfur ýmsar tekjur af fyrirtækjum hjer heima, en mjer er kunnugt um, að það flest hefir brugðist, og er sanngjarnt að taka tillit til þess. Jeg vildi því mæla með þessu í þetta skifti.

Um 2. brtt. þarf ekki margt að segja. En það má búast við því, að nýr skriður komist á alla slíka styrki, ef byrjað er á annað borð að hækka einn þeirra. Jeg hefi þó fengið úr mínu kjördæmi eina slíka beiðni, en ekki viljað halda henni fram, svo að hún yrði ekki til að hleypa fleirum af stað.

Um 3. brtt., um starfrækslu Finsensljósanna, hjelt jeg að áður hefði verið ákveðið, undir öðrum lið (41. lið í 12. gr.). 4. brtt. virðist mjer eiga að bíða betri tíða. 5. liðurinn, um endurveiting til Öxnadalsvegar, mun ekki vera nema lítið brot af því, sem þarf til að fullgera veginn. Um Hólaveginn er svipað að segja, að ekki mun unt að gera hann akfæran fyrir þessa upphæð. Þeirri till. er jeg meðmæltur, því að hún mun spara ríkissjóði fje, vegna flutninga til Hólaskóla.

Um 9. brtt. þarf jeg aðeins að segja það, að jeg sje engar líkur til, að fje verði fyrir hendi til að leggja í þessa síma árið 1922, og er því tilgangslaust að samþykkja slíkt.