30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Þorláksson:

Jeg ætla fyrst að minnast örfáum orðum á brtt. samgmn., sem jeg hefi áskilið mjer óbundið atkvæði um. Jeg verð sem sje að líta svo á, að þessi strandferðamál sjeu komin í mestu ógöngur og ekki verði hjá því komist að taka alt skipulag þeirra til rækilegrar íhugunar, áður en langt um líður. Með því skipulagi, sem nú er, munu ferðir Sterlings kosta um 400 þús. kr. árlangt, og aðrar ferðir líklega 150 þús. kr., eða alls um 550 þús. kr. Jeg álít þessa upphæð altof háa, en meðan núverandi skipulagi á strandferðunum er haldið, tjáir ekki annað en taka upp í fjárlögin þá upphæð, sem þær kosta í raun og veru.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta atriði, en vil hins vegar nota mjer heimild þingskapanna til þess að tala alment um fjárlögin í sambandi við fjárhag landsins við þessa umr.

Það er fyrirsjáanlegt, að með þeim. breytingum til hækkunar, sem óhjákvæmilegt mun teljast að samþykkja, verða útgjöldin í fjárlögunum 1922 um 91/2 miljón kr., og með útgjöldum samkv. fjáraukalögum og öðrum lögum má telja efalaust, að tekjurnar þurfi að vera 10 miljónir kr., til þess að komist verði hjá tekjuhalla. Tekjurnar samkv. 3.–5. gr. fjárlaganna nema nálega 1 milj. kr., og þurfa þá þær tekjur, sem venja er að telja undir 2. gr., að nema 9 milj. kr., ef nokkur von á að verða um það að komast hjá tekjuhalla.

Þótt gjaldaupphæðin sje svona há, verður ekki með sanni sagt, að mjög mikið sje í frv. af nýjum gjaldaupphæðin, eða af gjaldaupphæðum, sem unt væri að komast hjá eða fresta. Fjárveitingar til verklegra framkvæmda eru svo spart skamtaðar, að alveg verður nauðsynlegt að rífka þau á næstu árum, ef framfarir landsins eiga að verða aftur ámóta hraðfara og þær voru fyrir stríðið.

Það er óhjákvæmilegt, að sú spurning vakni, hvort þjóðin muni vera fær um að bera slík útgjöld. Þess verður vel að gæta, að hjer er ekki um það að ræða, að útgjöldin sjeu óvanalega há þetta eina ár, heldur verður að búast við því, að þetta verði árleg útgjaldabyrði fyrst um sinn, ef ekki eru gerðar alveg sjerstakar og óvenjulegar ráðstafanir til lækkunar. Að vísu má búast við því, að dýrtíðaruppbót embættismanna lækki eitthvað, ef dýrtíðinni linnir, en eftir undanfarinni reynslu má búast við því, að árleg aukning útgjalda, m. a. til nýrra embætta, muni fullkomlega jafnast við þá útgjaldalækkun.

Það er erfitt að finna ábyggilegan mælikvarða fyrir gjaldþoli þjóðarinnar. Eins og hjer stendur á, held jeg, að verðmæti útfluttrar vöru sje einna besti mælikvarðinn. Jeg hefi því tekið mjer fyrir hendur að rannsaka hlutfallið milli skattabyrðanna og verðs afurðanna frá aldamótum. Er fyrst að athuga skattabyrði þá, sem þjóðin hefir borið, en þar undir tel jeg öll útgjöld samkv. 2. gr. fjárlaganna, af því að þau eru öll þess eðlis, að þau hvíla beint á framleiðslu landsmanna, eins þau — svo sem tekjur af bönkum, símum, póstferðum — þar sem ríkið beinlínis lætur eitthvað í tje fyrir gjöldin, eins og hin, skattar og tollar, sem ganga til almennra þarfa ríkisins, án þess að gjaldandinn fái neitt sjerstakt í aðra hönd. Um þetta hefi jeg gert eftirfarandi yfirlit:

Útfl. vörur Skattar og

Ár í þús. kr. tollar. Kr. %

1901 9136 732768 8.0

1902 10147 909087 8.9

1903 10207 867046 8.5

1904 9877 882234 8.9

1905 12752 1056670 8.3

1906 13499 1171821 8.7

1907 15426 1460603 9.5

1908 12075 1417164 11.7

1909 13129 1334510 10.1

1910 14406 1484084 10.3

1911 15691 1646406 10.5

1912 16558 1956603 11.8

1913 19128 2036570 10.6

1914 20830 2086173 10.0

1915 39633 2553413 6.4

1916 40107 2993722 7.4

1917 29715 2751033 9.2

1918 36920 2901490 7.9

1919 ca. 68000 7970818 11.7

1920 ca. 9390000

yfirlit þetta sýnir fyrst, að skattabyrði landsmanna fer hægt og hægt hækkandi úr hjer um bil 3/4 milj. kr ,um aldamótin, upp í tæpar 3 milj. kr. þrjú síðustu stríðsárin. En árið 1919 hækkar gjaldabyrðin snögglega upp í tæpar 8 milj. kr., hún hækkar um 5 milj. kr. á því eina ári. — Sjálfsagt er þetta ein af orsökunum til fjárkreppu þeirrar, sem skall yfir snemma á árinu 1920. Sje nú gjaldabyrðin borin saman við gjaldþolið, verð útfluttu vörunnar, þá kemur í ljós, að sjö fyrstu ár aldarinnar nema skattarnir frá 8% til 9.5%, eða að meðaltali 8.7% af verði útfluttu vörunnar. Næstu sjö árin, 1908 til 1914, er skattabyrðin dálítið þyngri, 10% til 11.8%, eða að meðaltali 10.7% af verði útfluttrar vöru. Þessi hækkun er eðlileg, af því að á þessu tímabili er síminn kominn, og tekjur af honum taldar með í gjaldabyrðinni. Svo koma stríðsárin 4. Á þeim nemur skattabyrðin ekki nema 7.7% af verði útfluttrar vöru að meðaltali, þ. e. gjaldþol landsmanna er ekki notað til fulls þessi árin. Loks sýnir yfirlitið, hvernig á því stendur, að landsmenn gátu borgað 5 milj. kr. meira í ríkissjóð árið 1919 en nokkru sinni áður; það var mögulegt vegna þess, að verð útfluttrar vöru fóru þá upp í 68 milj. kr., en hafði verið hæst um 40 milj. kr. á stríðsárunum. Skattabyrðin nemur þetta ár 11.7% af verði útfluttrar vöru, en það er hámark gjaldþolsins eftir undanfarandi reynslu.

Það er erfitt að segja nú, hve miklu muni nema verð útfluttra afurða 1922. Þó má varla, ef dæmt er eftir líkunum í ár, búast við að það nemi mun meiru en helming þeirrar upphæðar, er útflutningur afurða okkar nam árið 1919, miðað við, að framleiðslumagnið haldist óbreytt, því útlit er fyrir, að verðið muni upp og ofan verða helmingi lægra en 1919. Það yrðu þá 34 milj., og geri menn sjer von um einhverja lítilsh. framleiðsluaukning, gæti sú upphæð hækkað dálítið. Þó finst mjer, að jeg geti ekki verið bjartsýnni en svo að gera ráð fyrir, að þetta geti hækkað í mesta lagi upp undir 40 miljónir króna.

En þá horfir málið svo við, að skattaálagningin þarf að vera helmingi hærri en áður, svo að jöfnuður náist á tekjum og gjöldum fjárlaganna, eða með öðrum orðum, það þarf að taka 23% af andvirðinu fyrir útfluttar vörur landsmanna, til þess að borga í ríkissjóð. Jeg býst ekki við, að atvinnuvegir landsins þoli slíkar álögur, að minsta kosti ekki nema 1–2 ár — og jeg býst heldur ekki við, að með þeim skattalögum, sem nú eru, eða samþykt verða, muni þetta fást í ríkissjóð, svo í mínum augum er þá ekki annað framundan 1922 en fjármálaöngþveiti og stórkostlegur tekjuhalli. Og yrði gripið til þess að jafna halla þennan með nýjum sköttum, hlýtur að reka að því, að atvinnuvegunum verður um megn að rísa undir þeim.

Það er að vísu tilgangslítið að rekja orsakir þær, sem valda því, að svo er komið. Aðalundirrótin mun vera sú breyting á hugsunarhætti manna, sem komið hefir af truflun viðskiftalífsins. Almenn fjármálaljettúð vegna velmegunar þeirrar, sannrar eða ímyndaðras, sem leiddi af verðhækkun landsafurðanna á stríðsárunum og af aukningu seðlamergðarinnar í landinu.

En það má líka benda á breytingar á stjórnarfari landsins, sem eiga sinn þátt í því, að svo er komið, og fyrsta og stærsta breytingin var sú, er ráðherrunum var fjölgað upp í þrjá og landritaraembættið lagt niður.

Mjer var kunnugt um, að á meðan jeg var starfsmaður landsins, var það landritari, sem tekið hafði við því verki af landshöfðingja að sjá um fjárhag landsins og halda honum í horfinu. Tel jeg breytingu þessa ótvírætt til hins verra, því að jeg geri mjer ekki von um, að þetta geti farið eins vel hjá fjármálaráðherrum þeim, sem ríkja skamt og taka við hver af öðrum, auk þess sem ábyrgðin hlýtur að dreifast á þá alla þrjá, ráðherrana. Þess vegna tel jeg enga von um, að þeir sjái eins vel um fjárhag landsins eins og gert var á meðan landshöfðingi bar einn ábyrgðina, eða einn ráðherra með landritara sjer við hlið.

Annað atriði hefi jeg rekið mig á í þinginu sjálfu, en það er ákvæði þingskapanna, sem háttv. frsm. fjvn. (M. P.) mintist á hjér fyrir skömmu, að meðferð fjárlaganna er skift á milli tveggja nefnda í þinginu. Þetta er svo mikil afturför, að mjer er óskiljanlegt, hvernig það skyldi komast inn í þingsköpin.

Jeg hefi verið sjónarvottur að því á þessu þingi, og sannfærst um þann mikla mun, sem nú er á starfi fjvn. og á starfi fjárlaganefndar, sem áður var. Jeg hefi sjeð fjvn. bera fram sínar till. um fjárveitingar og berjast fyrir þeim, án þess að líta á það, hvort fjárhagur ríkisins þolir það eða ekki, enda ber henni engin skylda til þess. En fjhn., sem um tekjuhlið fjárlaganna á að fjalla, hefir ekkert látið uppi um fjárhag ríkisins, enda munu ekki, enn sem komið er, þau skilyrði fyrir hendi, að hún geti komið með ábyggilega áætlun um tekjurnar. Þetta verð jeg að skoða afaróheppilegt fyrirkomulag, þótt jeg hins vegar viðurkenni, að háttv. fjvn. hafi ekki komið með miklar útgjaldaaukningar, en hún hefir heldur ekki sýnt neina viðleitni í því að draga úr útgjöldunum.

Þetta, sem nú er sagt, er eins konar inngangur eða forsendur fyrir brtt. minni aftan við fjárlagafrv., sem háttv. frsm. (M. P.) gerði að umtalsefni. Hún er framborin frekar af því, að jeg álít hana rökrjetta ályktun af því, er jeg nú hefi sagt, en af því, áð jeg ætli að fylgja henni fast fram eða búist við að hún verði samþykt.

Það var siður hjá Rómverjum, að þegar eitthvað það kom fyrir, sem þing þeirra treystist ekki að ráða fram úr, sögðu þeir við ráðherra sína: „Videant consules ne quid detrimenti capiat respublica“, það er: sjái ráðherrarnir um, að ríkið bíði ekki tjón. Mjer lýst fjárhagsástandið þann veg nú, að full ástæða sje að grípa til ítrustu úrræða, ef vera mætti, að hægt væri að afstýra þeim voða, sem fram undan er. Þess vegna ber jeg fram þessa till. Og jeg geri það til þess að sýna mitt álit á málinu, enda þótt jeg geri ráð fyrir því, að hún muni lítinn byr hafa hjer í hv. deild. En mjer þótti rjettara, að þessi skoðun mín kæmi fram í till. formi, svo háttv. þm. gætu með atkv. sínu sýnt afstöðu sína til hennar.

Af mótbárum hv. frsm. (M. P.) gegn þessari till. minni ætla jeg að minnast á tvær.

Hann sagði, að með till. fengi fjármálaráðherra alræðisvald, eða að hjer skapaðist einveldi í fjármálum; en þetta er ekki rjett. Fjármálaráðherranum er ekki fengið neitt fjáreyðsluvald með tillögunni, heldur fengin heimild til þess að spara fje ríkissjóðs: honum er fengin lagaleg afsökun fyrir því að greiða ekki fje úr ríkissjóði, þegar það er ekki til.

Hvað ummæli landshöfðingja um fjárlögin snertir, þá eiga þau við það, að þingið sjái um, að stjórnin eyði ekki fje um fram heimildir, nje gangi lengra en nauðsyn krefur í því efni.

Hin ástæða hans var á meiri rökum bygð, að mjer virtist. Jeg viðurkenni, að mögulegt er að koma þessu ákvæði fram í tíma, þó að það verði ekki á þessu þingi. Það er mögulegt að gera þetta á næsta þingi, og láta það þó gilda fyrir 1922. Jeg viðurkenni fúslega, að þetta hefir mikið til síns máls, og geri það þess vegna að engu kappsmáli að halda till. minni fram, en hins vegar vildi jeg láta hana sjást, sem alvarlegustu áminningu um það, hve djarft mjer þykir vera teflt fjárhag landsins og langt gengið í álögum á landsmenn nú á þessum örðugu tímum.