30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson*):

Það eru aðeins nokkrar stuttar athugasemdir, sem jeg ætla að gera.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um það í ræðu sinni áðan, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum**) ....................

Hinu ber nefndin auðvitað enga ábyrgð á, hvað kemur frá háttv. deildarmönnum, en það hefir sýnt sig, að þeirra till. hafa jafnan gengið talsvert lengra en tillögur nefndarinnar. Þykist nefndin hafa verið mjög sanngjörn gagnvart hæstv. stjórn, enda sýnir það sig, þar sem hún hefir engar lækkunartillögur gert við frv. hennar, en því er yfirleitt mjög sjaldan að fagna.

Hæstv. fjrh. (M. G.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gerðu báðir aths. við brtt. nefndarinnar, um að hækka læknisstyrkinn í einu umdæmi um 300 kr., og bar hæstv. fjrh. (M. G.) kvíðboga fyrir því, að þá myndi hver taka við af öðrum, og af verða mikil blóðtaka fyrir landssjóð. Jeg hygg, að ekki þurfi að óttast þetta, því að ef þeir hefðu það í hyggju, þá væru þeir búnir að því fyrir löngu. Ef þessi styrkur ætti að vera jafn alstaðar, þá væri það sama sem að slíta sum hjeruð alveg út úr og svifta þau öllu sambandi við lækna.

Um upphæðina gildir annars ekki svo föst regla, þar sem ákveðið er, að lægst skuli hún vera frá 600–300 kr. Verður vitanlega í þessum sökum að fara eftir staðháttum og aðstöðu hreppsbúa. Svo vil jeg benda hæstv. fjrh. (M. G.) á það, að auk þess sem jeg hefi þegar tekið fram, þá er því svo varið, að ríkissjóður græðir beint á þessum hreppum. Því að hjer er um læknishjerað að ræða, sem í raun rjettri á heimting á að hafa sjerstakan lækni, sem þá þyrfti að borga full laun. Þar sem nú bæði er viðurkent, að þarna þyrfti að vera læknir, og svo víst hitt, að fáir hreppar ættu betur skilið þennan styrk, þá vona jeg, að háttv. þdm. láti sjer þessa smáupphæð ekki í augum vaxa.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kvaðst vera hálfsmeykur um, að þessar 300 kr. — sú eina fjárveiting, sem jeg hefi farið fram á á þessu þingi — væru kosningabeita fyrir kjósendur mína. Jeg þori að fullvissa háttv. þm. (Sv. Ó.) um það, að jeg á óskift fylgi í þeirri sveit, hvort sem þessar 300 kr. verða veittar eða ekki.

Það var að heyra á háttv. sama þm. (Sv. Ó.), að jeg gerði helst til mikið úr örðugleikum þeim, sem á væru að ná í lækni fyrir hreppsbúa. Jeg vil fullvissa háttv. þm. (Sv. Ó.) um það, að ef hann hefði búið í þeirri sveit, þá hefði kveðið við annan tón hjá honum. Þeir vita það best, sem þar hafa verið, að það er með köflum algerlega ókleift að ná í lækni þangað, bæði sjóleiðina og á landi.

Um efnahag þessa hjeraðs mun hæstv. fjrh. (M. G.) best kuimugt, því að það er eitt af þeim hjeruðum, sem varð að taka sjer hallærislán nú fyrir skömmu.

Hæstv. fjrh. (M. G.) var að tala um það, viðvíkjandi styrknum til berklaveikisútrýmingar, að veita þyrfti styrk til ljóslækningastofnana. Jeg skal játa það, að gott væri það, ef þetta væri kleift, en hins vegar þarf þar miklu til að kosta, þar sem um það er að ræða að skifta um ljós, taka upp ný áhöld og aðra aðferð en höfð hefir verið. Að því er snertir styrkinn, sem læknafjelag Reykjavíkur hefir farið fram á, þá sagði hæstv. fjrh. (M. G.) að ekki myndi saka mikið, þótt það drægist nokkuð. Viðvíkjandi því skal jeg geta þess, að það stendur þannig á, að engin hjálp verður að þessu fje, ef það er ekki veitt nú þegar, því seinna er ekki hægt að gera það, sem nú á að verja því til. — Þá mintist hæstv. fjrh. (M. G.) á Öxnadalsveginn, og óx mjög í augum upphæð sú, er þyrfti til að fullgera hann. Það er nú aðeins eftir stuttur kafli, um 5 kílóm. að lengd. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að það þyrfti tífalda upphæð til að ljúka vegagerðinni við það, sem áætlað er.

Þetta er ekki rjett hjá hæstv. ráðh. (M. G.), því að samkvæmt útreikningi vegamálastjóra, verður kostnaðurinn 30–35 þús. kr. mest, miðað við 7 kr. kaup á dag.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði um *.... að það hefði staðið alveg sjerstaklega á, þegar það var sett inn í fjárlögin. En jeg man ekki til þess, að hann hafi nokkurn tíma verið andvígur þessu. Hann var hjer á þingi þá, og kom þó ekki fram með neina brtt. um það.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hjelt mjög fróðlegan fyrirlestur og mælti fram með till. sinni. Þótti mjer vænt um, er hann gat þess, að hann legði ekki neitt sjerstakt kapp á hana. Jeg skil hann svo, að ætlunin sje að útvega stjórninni lagalega afsökun, er um það er að ræða, að hún verður að víkja frá fjárlögunum í einhverju. En jeg tel þetta að öllu leyti óþarft og óviðeigandi, þareð jeg hygg það ekki næga afsökun, er tekjur hrökkva ekki. Jeg veit ekki betur en að yfirleitt hvaða bú sem er komist trauðla undan því að gjalda starfslaun og annað slíkt, þótt fjefátt sje, en verði þá heldur að taka lán, til að klára með gjöldin. Það eina, sem í því efni er gild afsökun, er að ómögulegt sje að fá fje.

Hæstv. atvrh. (P. J.) þakkaði háttv. 3. þm. Reykv.( J. Þ.) fyrir þessa till. sína. En jeg verð að segja það, að jeg er mjög hissa á því, að hæstv. stjórn skuli ekki hafa andmælt þeirri till. Jeg skil ekki í því, að nokkur stjórn skuli vilja hafa , vald á hendi, sem er svo vandfarið með og líklegt til óvinsælda. Ef annars stjórninni fyndist eitthvað það í fjárlögunum, sem ekki sje hægt að greiða eða vel mætti bíða, þá býst jeg við, að hún myndi á næsta þingi reyna að fá því breytt.

Þetta ætti að vera nægileg bending til fjvn. Hún er þess ekki dulin, að óvíst er, hvort hægt verði að greiða alla fjárhæðina í fjárlögunum.

Jeg vil annars leyfa mjer, fyrir hönd fjvn., að mótmæla þeim orðum hæstv. atvrh. ( P. J.), að fjárveitingar þær í fjárlögunum, sem svo standi á um, væru aðeins heimild fyrir stjórnina, en engin skylda til að veita þær. Jeg vil aðeins í nafni nefndarinnar mótmæla þessu, og fer svo ekki frekar út í það.

Hæstv. atvrh. (P. J.) gat þess áðan, að Alþingi hefði siglt nokkuð djarft í peninga, sökunum á meðan á stríðinu stóð. Jeg hygg, að það fari fjarri því, að svo hafi verið. Árið 1915 kom talsverður afturkippur í alt, því að þá hugðu menn, að ófriðnum mundi linna innan skamms, og töldu það búhnykk að tefla þá sem varlegast, en sú hefir raunin á orðið, að þetta hefir verið til stórskaða.

Þá mintist háttv. þm. Ak. (M. K.) á brtt. um styrkinn til Finsensljósanna. — Það er alveg rjett hjá honum, að mjer hefir ekki dottið í hug að kippa burt þeim styrk, sem þau hafa haft, en jeg vil í nafni fjvn. skjóta því til hæstv. stjórnar, að hún afli skýrslna um það, hve mikil not eru af þessari stofnun og hve margir fá þar lækning meina sinna. Sumir þykjast hafa pata af því, að það hafi aðeins dregið úr lækningunum, er styrkur hefir verið veittur til þeirrar stofnunar.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er sá eini, sem nú hefir vítt fjvn. fyrir starfsemi sína. Hann kvað nefndina hafa vanrækt mjög starf sitt, enda kæmi það best í ljós á till. hennar. Jeg verð að segja það, að mjer þykja þetta hörð orð, og væri ilt við að búa, ef sönn væru. En það er hjer til bótar, að þau voru með öllu órökstudd, og verða því vart tekin alvarlega. Háttv. þm. (Sv. Ó.) hefði haft rjett til að tala svona, ef hann hefði um leið nefnt eitthvað í fjv.till. nefndarinnar og stjórnarinnar, sem fella þyrfti niður eða breyta. En nú hefir hann ekki komið fram með nema eina einustu brtt., þar sem munaði á upphæð einum 1200 kr. Hann virðist því hafa verið, þrátt fyrir alt, sammála nefndinni og stjórninni, um hvað veita ætti og hvað ekki, og eru því aðfinningar hans mjög furðulegar, og verða vart skildar nema á einn veg.

Það hefir annars varla komið fyrir, að gerðum fjvn. hafi verið svo lítið hreyft sem nú. Finst mjer það, að svo fáar brtt. hafa verið gerðar við till. nefndarinnar, bera vitni um, að skoðanir háttv. þdm. sjeu í samræmi við skoðanir nefndarinnar, — nema þá ef vera skyldi þessi eini háttv. þm. (Sv. Ó.).

Háttv. sami þm. (Sv. Ó.) kom með þá snjöllu uppástungu, að þegar sjeð væri, að gjaldþol ríkissjóðs væri að þrotum komið, þá yrði að fella niður þær till. til fjárveitinga, sem síðast hefðu komið. Jeg skal játa það, að þetta væri mjög þægilegt, að fella bara þær till., sem síðast kæmu til umræðu, en hitt læt jeg eftir háttv. þingdm. að dæma um, hve holt þetta væri og viturlegt.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að tekjuhalli væri nú tvöfaldur. Jeg þykist vita, að háttv. þingmaður muni telja endurveitingarnar með. En jafnvel þótt þær væru taldar, þá er þó útgjaldaaukningin af tillögum nefndarinnar ekki svo mikil sem hann sagði. En ekki hefir það verið siður að telja endurveitingu sem beinan gjaldaauka, því að það hefir talist sparað á hinu árinu.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.)endaði ræðu sína með því, að svo ógætilega hefði verið farið með fjárhag landsins, að hann væri nú mjög illa kominn, og taldi hann þetta mikið stafa af því, að fjárveitinganefnd hefði ekki unnið sem skyldi. Jeg vil leyfa mjer að segja, að þingmaðurinn fari hjer með staðlausu stafi. Ef það er ógætilegt, að hafa hækkað útgjöldin um 3–4%, þá hefði mátt liggja flestum fjárveitinganefndum á hálsi fyrir þeirra aðgerðir. — Það er undarlegt, að þessi þingmaður, er hefir talað við hverja umræðu og altaf hnjóðað í nefndina, skuli ekki koma með brtt. (Sv. Ó.: Það er ekki til neins að koma með brtt., þær hafast ekki fram). Háttv. þm. (Sv. Ó.) gat þó gert það til þess að friða samviskuna, því að áður, þegar hann hefir borið fram brtt., hefir háttv. þingmaður sagt, að hann bæri þær fram til þess, og gott ef hann sagði það ekki þegar hann mælti fram með þeirri einu till. í lækkunarátt, sem hann bar fram við þessi fjárlög. (Sv. Ó.: Nei).

Þá mun jeg ekki segja fleira; jeg veit, að háttv. deild er á sama máli og fjárveitinganefnd og mun ekki vilja taka undir orð háttv. þm. (Sv. Ó.) í hennar garð. Það hefir hún sýnt með því að samþykkja flest það, sem fjvn. hefir borið fram.

*) Ræðan óleiðrjett af þm., og prentuð eftir handriti innanþingsskrifarans (P. M.).

**) Hjer er slept úr handritinu nokkrum línum, óskiljanlegri lokleysu.

*) Eyða í handritinu.