30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

41. mál, fjárlög 1922

Hákon Kristófersson:

Jeg á eina brtt. við fjárlögin að þessu sinni, og þótt hún sje raunar þess eðlis, að mjer sje ógeðfelt að flytja hana, af því að hún fer í útgjaldaáttina, enda þótt hún að öðru leyti eigi, eins og á stendur, mikinn rjett á sjer, þá verð jeg þó að fara um hana nokkrum orðum.

Þessi tillaga hefir legið fyrir háttv. fjvn., en hún sá sjer ekki fært að fylgja henni, og býst jeg við, að það hafi verið vegna hins afarerfiða fjárhags landsins, en ekki af því, að henni hafi ekki verið fullkomlega ljóst, hve sanngjöm tillaga þessi er. Eins og háttv. fjvn. er kunnugt, þá var upphæðin, sem farið var fram á af hálfu hreppsnefndarinnar, mun hærri en sú upphæð, sem jeg fer fram á í minni till. En jeg lækkaði upphæðina, í þeirri von, að hin háttv. deild sæi sjer þá fremur fært að fylgja tillögunni.

Fjárveiting þessi hlýtur að verða einskonar styrkveiting, því að það eru engar tíkur til, að þetta fyrirtæki geti borið sig eins og ástatt er, nema að ríkissjóður hlaupi undir baggann, eins og jeg tel sjálfsagt að hann geri, eftir því, sem fyrir liggur. En ef maður nú lítur til þess, hvað háar fjárveitingar hafa nú verið samþyktar hjer í háttv. deild, þá sýnist mjer þó, að hjer sje ekki úr hófi farið. Sem besta sönnunargagn í máli þessu vil jeg leyfa mjer að lesa hjer upp brjef viðvíkjandi þessu máli, sem hreppsnefnd Suðurfjarðarhrepps sendi Alþingi. Mun það best skýra málið fyrir háttv. þm.

„Eins og hinu háa Alþingi er kunnugt af brjefi hreppsnefndar Suðurfjarðarhrepps, dags 21. mars 1918, hafði hreppsnefndin með höndum byggingu raforkustöðvar fyrir Bíldudalskauptún, er byrjað var á vorið 1916. Í tjeðu brjefi er lýst gangi málsins til vors 1918.

Það ár var strax og frost leysti úr jörðu, farið að setja niður steinsteypupípur þær, sem hreppsnefndin hafði fengið frá pípuverksmiðju Rvíkur, í staðinn fyrir járnpípur þær, sem sökt hafði verið, og var fenginn maður frá pípuverksmiðjunni til að sjá um verkið. Þegar vatni var hleypt í pípurnar kom þá þegar í ljós leki á nokkrum þeirra, svo sjáanlegt var, að ekki var hægt að nota þær í því ástandi, og var því í samráði við seljanda fenginn Ólafur verkfræðingur Þorsteinsson til að skoða pípurnar. Meðan hann var hjer, var leki á nokkrum pípum, sem gert var við, með því að steypa utan um þær, og eftir að hann fór komu enn í ljós gallar á pípunum, og það að mun meiri en áður; tókst þó loks að gera svo við þá galla, að stöðin gat starfað yfir veturinn.

Vorið eftir, þá er frost fór úr jörðu, komu enn á ný í ljós stórvægilegir gallar á pípunum, þannig, að á þær duttu stór göt, sem alt vatnið kom út um og gerði skemdir á löngu svæði meðfram pípunum. Í byrjun var reynt að gera við þessar skemdir, en jafnfljótt og vatni var hleypt í pípurnar, komu nýjar skemdir í ljós. Var því fyrirsjáanlegt, að pípur þessar mundu aldrei verða til frambúðar, þrátt fyrir það, þótt verkfræðingur hefði verið fenginn til ráða við tilbúning þeirra. Var því ei annað fyrir hendi en að taka pípur þessar upp, og kom þá bersýnilega í ljós, að pípur þessar voru algerlega óhæfar til notkunar, því að margar af þeim voru svo gljúpar, að hægt var að mylja þær upp með höndunum, og varð því að fá trjepípur í þeirra stað, þar sem járnpípur voru svo dýrar, að mátti heita ókaupandi. Trjepípur þessar voru fengnar frá Ameríku og settar niður um haustið, og hefir alt síðan verið í góðu lagi.

Fyrir þessi vansmíði á steinsteypupípunum fór hreppsnefndin í mál við pípuverksmiðjuna, er samkvæmt samningi átti að dæmast af gerðardómi verkfræðingafjelagsins, og krafðist þess, að fá pípurnar endurborgaðar, og allan kostnað við þær, alls að upphæð 16,892 kr. + krónum 888, sem var ógreitt af andvirði pípanna.

Eins og sjest af hjálögðu eftirriti af gerðardóminum, hefir hreppsnefndin fengið í skaðabætur kr. 1456,50; þar af mun hafa gengið til verkfræðings Ólafs Þorsteinssonar og í málskostnað á 9. hundrað krónur, og hefir því hreppurinn fengið um 500 kr. í bætur fyrir steinsteypupípurnar og allan kostnað þeim viðvíkjandi.

Af framangreindu sjest, að beint tap, sem rafveitan hefir orðið fyrir, af því að steinsteypupípurnar reyndust óhæfar, verður á 18. þúsund krónur, þess utan óbeint tap við það, að rafstöðin gat eigi starfað í nærri heilt ár, og við það mist tekjur, sem ekki mun of hátt reiknað 8 þús. kr.

Af þessu leiddi, að rafstöðin varð miklu dýrari en hreppsnefndin gat búist við, og lenti hún því í peningavandræðum, og varð því að taka nýtt lán að upphæð kr. 15000, sem endurborgist á 10 árum, til að greiða þennan kostnað. Þar af verður hún árlega að greiða háa vexti.

Þegar hreppsnefndin tók lán þetta, gerði hún sjer von um að geta endurgreitt það með væntanlegum skaðabótum frá pípuverksmiðjunni, en sú von má segja að hafi algerlega brugðist, eins og að framan segir.

Á þessu ári kemur til að borga afborgun af nefndum 15000 kr. og viðlagasjóðsláni því, er vjer fengum árið 1918, kr. 25000, þá sjer nefndin eigi að stöðin geti risið undir því, þar sem fyrirsjáanlegur er mikill tekjuhalli á stöðinni síðastliðið ár (ársreikningur er óuppgerður), enda þótt gjöld til hennar væru hækkuð það fylsta sem gjaldskráin leyfði. Er því óhjákvæmilegt að hækka gjaldskrá stöðvarinnar að miklum mun, en hreppsnefndin sjer enga leið til að hækka hana svo, að hún geti staðið straum af öllum þeim lánum, er á henni hvíla, vegna þess, að raforkan yrði þá alt of dýr, samanborið við annað eldsneyti og ljósmeti, sem búast má við að lækki að mun í verði á næstunni.

Hreppsnefndin sjer sjer heldur ekki fært að taka á hreppssjóðinn gjöld vegna rafveitunnar, þar sem útgjöld hreppsins hafa margfaldast á síðustu árum, en gjaldþol manna rýmaði stórkostlega síðastliðið ár.

Af framangreindum ástæðum leyfir hreppsnefndin sjer að fara þess á leit við hið háa Alþingi, að það veiti eftirgjöf á viðlagasjóðsláni því, er það veitti Suðurfjarðarhreppi til byggingar raforkustöðvarinnar árið 1918, að upphæð kr. 25000.

Til frekari útskýringar á máli þessu lætur hreppsnefndin fylgja staðfest eftirrit af gerðardómi verkfræðingafjelagsins.

Treystum vjer hinu háa Alþingi, að það sjái sjer fært að taka til greina þessar málaleitanir vorar.“

Nú hafa menn heyrt þær skýringar, sem felast í þessu brjefi, og ætti það að nægja háttv. þm. til þess, að geta tekið ákveðna afstöðu til málsins. Að vísu liggur hjer einnig fyrir gerðardómurinn. En af því að hann kemur ekki beint við tillögu minni, þá sleppi jeg að lesa hann hjer, enda þótt það sje álit margra manna, að hann sje einstakur í sinni röð, og sje þess verður að komast fyrir augu sem allra flestra, því að af honum má ráða rjettdæmi þeirra, er kváðu hann upp.

Jeg legg svo þessa tillögu fyrir háttv. deild, og vona, að hæstvirtur forseti leyfi, að nafnakall fari fram um hana, til þess að greinilega sjáist, hverjir eru með og hverjir móti.

Það hefir ekki komið fram hjá háttv. fjvn., hvernig hún mundi líta á þetta mál á næstunni, ef till. yrði feld nú. Og jeg gæti gengið svo langt nú að taka þessa tillögu mína aftur, ef jeg mætti eiga von á vissu fylgi fjvn. á næsta þingi. Jeg viðurkenni fyllilega fjárkröggur landsins nú. Og þó að jeg sjái, að 15 þús. kr. eru í sjálfu sjer ekki stór upphæð fyrir ríkissjóð, þá munar þó allmikið um hana. En jeg veit þó hinsvegar, að hjer er úr vöndu að ráða, því að útgjöld Suðurfjarðarhreppsins eru afarmikil. T. d. var þar á síðasta ári jafnað niður um 19 þús. kr.

Jeg ætla þá að láta þessi ummæli duga og bíða úrslita. Vil þó að lokum geta þess, að vel mætti vera, að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vildi gefa einhverjar þær upplýsingar, er mættu verða til stuðnings þessari tillögu minni.