30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

41. mál, fjárlög 1922

Jón Þorláksson:

Jeg á tvær brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Fyrri tillagan er við 14. gr. B, og fer í þá átt að veita í einu lagi styrk til verslunarskólans og Samvinnuskólans, þannig, að skólar þessir verði sameinaðir í einn skóla. Þessi till. þarfnast engra meðmæla nje skýringa, því að háttv. frsm. (B. J.) hefir fært fyrir henni öll þau rök, sem þarf, þótt till. hafi eigi fengið náð fyrir augum fjárveitinganefndar, vegna þess, að hann segir, að þeir aðiljar, er hjer eiga hlut að máli, muni aldrei geta komið sjer saman um að skipa einn skóla. En hann hefir engin rök fært að því, hvers vegna þessir aðiljar eigi geti komið sjer saman. Jeg tel það fjarstæðu, að stjórnin geti ekki látið þessa fjárveitingu koma að notum á þann hátt, sem jeg legg til, því að það er vitanlegt öllum þeim, sem til þekkja, að auðveldlega mætti komast af með einn verslunarskóla í landinu. Það er engin hætta á því, að báðir skólarnir legðust niður, heldur mætti þvert á móti fá einn myndarlegan skóla úr þeim báðum með þessum hætti.

Jeg minnist þess, að tveir þingmenn gátu þess um daginn hjer í deildinni, að verslunarstjettin væri of fjölmenn í þessu landi. Jeg bar brigður á þetta þá, vegna þess, að samanburð vantaði um fjölmenni þessarar stjettar hjá öðrum þjóðum, en hitt getur enginn verið í minsta vafa um, að verslunarstjett vor er orðin svo fjölmenn, að ekkert vit er í því að leggja fje til tveggja verslunarskóla hjer í bænum. Vonast jeg eftir að þeir tveir háttv. þm., — það var 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og 2. þm. Árn. (Þorl. G.) —, sem töluðu um fjölmenni verslunarstjettar okkar, minnist þessa nú og greiði þessari brtt. minni atkv.

Þá var brtt. mín við 16. gr. 5 b., fjárveiting til skógræktar. Till. fer fram á, að liður þessi hækki upp í 21 þús. kr.

Jeg ber þá brtt. fram vegna þess, að jeg get ekki unað því, að skógræktin sje látin sitja algerlega á hakanum, þegar jafnmiklu fje er varið til ýmissa miður nauðsynlegra fyrirtækja eins og gert er í þessu fjárlagafrv.

Eins og háttv. deild mun kunnugt, þá er fjárveitingu þessari þannig varið, að af henni er launaður forstjóri skógræktarinnar og nokkrir skógarverðir. En þegar laun þessara manna eru greidd, þá er svo sem ekkert fje fyrir hendi til framkvæmda skóggræðslunnar. Starfsmenn skóggræðslunnar geta bókstaflega ekki gert neitt, sem beint fje útheimtist til, af þessum sökum.

Málið horfir nú þannig við, að þegar byrjað var á skóggræðslu hjer á landi fyrir tveim tugum ára, þá trúðu menn því alment, að unt væri að stunda skógrækt hjer með nokkrum árangri. Og þessi trú óx heldur fyrstu árin við það, að gerðar voru allmiklar framkvæmdir í þessa átt, meðal annars voru girt allstór svæði í Hallormsstaða- og Vaglaskógum og víðar. Og þótt mistekist hafi um ýmislegar tilraunir í jafnvandasömu máli, þá má eigi setja það fyrir sig, því að það er búið að sýna sig, að það er mögulegt að ná hjer nokkrum árangri.

Á jeg einkum við reynslu þá, sem fengist hefir í Vaglaskógi, því að þar hefi jeg oft komið, og jeg hygg, að sama megi segja um tilraunirnar í Hallormsstaðaskógi og víðar. En svo er farið, vegna ósamkomulags við forstjóra skógræktarinnar, að skera fjárveitingu til hennar svo við neglur sjer, að ekkert er eftir umfram laun starfsmannanna, eins og jeg hefi tekið fram, og verk þeirra bera því sárlítinn ávöxt. Og að sama skapi þverrar áhuginn óðum hjá þeim mönnum, sem upphaflega báru mál þetta fyrir brjósti, vegna þess, að þeir sjá svo sárlítinn árangur af því, sem gert hefir verið í þessu máli undanfarið.

Jeg skal gera stutta grein fyrir því, hvernig jeg ætlast til, að þessari auknu fjárveitingu verði varið. Jeg geri fyrst og fremst ráð fyrir, að tekið verði eitt skógarsvæði til viðbótar, það verði girt og grisjað, eftir því sem þörf krefur. Annars ber jeg till. fram í því skyni að vekja athygli háttv. deildar á skógræktinni. Jeg álít, að það sje óverjandi að láta þetta fyrirtæki deyja út. Ef eitthvað er við forstjóra skógræktarinnar að athuga, þá má ekki láta fyrirtækið gjalda þess. Með öðrum orðum, að ef stjórnin treystir ekki núverandi forstjóra til að rækja starfið, svo að sæmilegu gagni komi, eins og mjer hefir skilist, þá beri henni að gera tillögur um, að skift sje um mann, án þess að beitt sje harðýðgi við þennan mann, en líka án þess, að málefni þetta þurfi að liggja í dái þess vegna.

Þá ætla jeg að minnast stuttlega á viðaukatillögu mína við 23. gr. Jeg get verið háttv. frsm. (B. J.) þakklátur, alveg á sama hátt og háttv. frsm. fyrri hluta (M. P.). Báðum hefir þeim farið svo, að til þess að geta mælt á móti tillögunni hafa þeir þóst þurfa að skýra rangt frá innihaldi hennar. Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að í henni fælist heimild til stjórnarinnar til að setja ný fjárlög. En svo er ekki, heldur einungis heimild til að undanfella greiðslu á fjárveitingum. Og er þetta ekki nýmæli nema að litlu leyti. Háttv. þm. Dala. (B. J.) verður að sætta sig við það, að stjórnin hefir heimild til þess að fresta framkvæmdum, sem í fjárlögum standa, sjeu fjárveitingarnar ekki veittar á nafn. Því hefir verið lýst yfir, að stjórnin hafi frestað framkvæmdum á verkum, sem fjárveiting var til í núgildandi fjárlögum, og veit jeg ekki betur en að það hafi verið óátalið. En mín tillaga gengur það lengra, að eftir henni er stjórninni heimilt að greiða ekki fjárhæðir í fjárlögum, þó að þær sjeu bundnar við nafn, jafnvel fella niður greiðslu á bitlingum, og þá er vitanlega komið við hjartað í háttv. þm. Dala. (B. J.), eins og hann hefir sýnt svo greinilega með ummælum sínum um tiltekna fjárveitingu í núgildandi fjárlögum, sem stjórnin neitaði að greiða og bundin var við nafn.

En eins og jeg tók fram, er mjer ekkert sjerlega mikið áhugamál, að þessi tillaga verði samþykt. Hún er einungis rökrjett afleiðing af þeim forsendum, sem jeg hefi komist að, hvað fjárhagsástandið snertir.