30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

41. mál, fjárlög 1922

Eiríkur Einarsson:

Jeg á hjer tvær brtt. á umræddu þingskjali, aðra, sem fer í þá átt að fella niður 5000 kr., en hina, sem fer í þá átt að taka upp 5000 kr. fjárveitingu. Jeg get því ekki einu sinni látið líta svo út sem jeg ætli að fara að spara með þessu. Til þess þyrfti annað og meira en fella niður einn 5000 kr. lið, ef um hefði átt að muna. Ef slíkar tilraunir ættu að sjá staði, þyrfti meira en svo og atfylgi margra manna, og skyldi jeg ekki láta á mjer standa, ef einhverjir, t. d. fjvn., beittist fyrir.

Það, sem kom mjer til að leggja til, að þessi fjárveiting til bæjargerðar í Reykholti væri feld niður, er fyrst og fremst það, að þetta er aðeins til undirbúnings, og þar sem nú er gert ráð fyrir, að þessi bæjargerð verði mjög dýr, tel jeg alls ekki rjett að skuldbinda sig með þessari undirbúningsfjárveitingu til þeirra aðgerða, sem ef til vill þykja óframkvæmanlegar, eða að minsta kosti svo, að landið hiki við að leggja í þann kostnað.

Það er nú líka svo, að ef á að ganga út á þá braut að dubba upp á fræga staði, sem minning merkra manna er tengd við, þá er óvíst hvar byrja ætti. Jeg ætla ekki að fara út í samanburð, en þó má nefna skólasetrið gamla, Haukadal, sem nú er í hinni mestu niðurníðslu. En staðurinn er í þjóðbraut, því að hann liggur nálægt Geysi, svo sem kunnugt er. Og ef þjóðin væri spurð, þá er óvíst, hver staður fyrst yrði nefndur. Ef til vill yrði það Hraun í Öxnadal, þar sem Jónas Hallgrímsson er fæddur, eða Saurbær á Hvalfjarðarströnd, þar sem Hallgrímur Pjetursson bjó.

Jeg held nú líka, að minningu andlegra mikilmenna sje ekki betur borgið með því að hýsa þá staði, sem við þá eru kendir, heldur en með því að gera eitthvað til að gera mönnum ógleymnara, hver var hin andlega starfsemi þeirra. Jeg hygg, að minningu Snorra væri t. d. betur borgið með því að gefa út ódýra og handhæga alþýðuútgáfu af Heimskringlu eða Eddu heldur en með því að dubba upp á hús í Reykholti. En nú vill reyndar svo vel til, að þær bækur eru báðar til í sæmilega handhægum útgáfum. Þetta hygg jeg, að fleirum sje ljóst, og vil jeg geta þess, að jeg átti nú fyrir nokkru tal við prófessor Hannaas, sem er formaður í minnisvarðanefnd þeirri, sem á að sjá um, að komið verði upp minnismerki Snorra hjer á landi, og spurði hann mig, hvort Heimskringla væri í margra höndum á Íslandi, en ekki hvernig hýst væri í Reykholti.

Hin brtt., sem jeg á hjer, hnígur að því, að sömu upphæð og jeg legg til að falli burt sje varið til þess að styrkja ódýra útgáfu af þjóðsögum Jóns Árnasonar. Jeg hefði ekki komið fram með hana, ef athugun á því, er jeg gat um, hefði ekki leitt mig til þess. Mjer duttu þjóðsögurnar fyrst í hug, því að þær eru löngu uppseldar og mikil spurn eftir þeim, og þá sjaldan þær eru seldar, t. d. á uppboðum, fara þær við afarverði, sem almenningi er ókleift að greiða. Og jeg er viss um, að það er mikill skaði, að fróðleiksfús ungmenni skuli ekki geta átt aðgang að þeim. Jeg átti tal um þetta við formann Sögufjelagsins og Bókmentafjelagsins, sem er sami maðurinn, eins og kunnugt er. Hann kvað Sögufjelagið hafa ætlað að ráðast í útgáfu þessarar bókar fyrir nokkrum árum, en þá kom stríðið og hindraði framkvæmdir. Hann sagðist mundu gera alt, sem í sínu valdi stæði, til að hraða útgáfunni, ef þessi eða líkur styrkur fengist til. Ef enginn styrkur væri veittur, mætti gera ráð fyrir, með núverandi verðlagi, að bókin kostaði alt að 80 kr., en ef styrkur fengist, mætti búast við þeim ívilnunum í verði, að almenningi yrði ekki ókleift að eignast hana, enda mun hún verða gefin út í heftum á nokkrum árum.

Jeg verð nú að segja það, að ekki væri annað gleggra merki um ytri og innri örbyrgð þjóðarinnar en það, ef vjer teljum oss ekki hafa ráð á að gefa út bestu rit vor, og með þeim má hiklaust telja þjóðsögurnar. Jeg held, að útgáfa og útbreiðsla slíkra rita væri einmitt einhver besta undirstaða alþýðumentunarinnar. Og nú er svo að fara, að þjóðsögurnar fást ekki til lestrar, og eins eru þeir að deyja út, sem slíkar sögur kunna að segja. En ef þjóðsögur verða aldauða, þá er um leið margt dýrmætt glatað úr íslensku þjóðlífi.

Jeg ætla ekki að minnast á fleiri liði, þótt mjer, ef til vill, þætti ástæða til, til þess að valda ekki lengri umræðum.