30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

41. mál, fjárlög 1922

Jakob Möller:

Jeg á hjer ofurlitla brtt. Jeg hygg, að flestir háttv. þdm. kannist við skólann, sem þar um ræðir. Hann hefir notið ofurlítils styrks að undanförnu, en þar sem styrkur til annara skóla er nú hækkaður, þá virðist mjer sanngjarnt, að þessi fái líka litla hækkun. Skólinn hefir á sjer besta orð, og þótt hann hafi svo lítils styrks notið, er hann samt svo ódýr, að kenslugjald mun ekki nema meiru en 18–20 au. á hverja kenslustund, enda er hann afarmikið notaður. Skólinn er bæði dagskóli og kvöldskóli, og kvöldskólinn einn ætti meir en skilið þennan litla styrk, því að kvöldskóli gerir mörgum fært að njóta tilsagnar, sem stunda vinnu og geta ekki sótt aðra skóla. Þá má og geta þess, að skólinn er mikið notaður til undirbúnings undir aðra skóla.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vona, að háttv. þdm. nenni ekki að greiða atkvæði gegn þessari brtt.