30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

41. mál, fjárlög 1922

Hákon Kristófersson:

Það er út af ummælum hæstv. fjrh. (M. G.), að jeg neyðist til þess að standa upp. Hann talaði á móti brtt. minni, og er náttúrlega ekkert um það að segja, en mjer virtist, að hann hefði getað gert það án þess að taka sjer dómsvald í því máli, og það yfir fjarstöddum mönnum. Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að hann teldi víst, að setið hefðu sanngjarnir menn í dóminum. Orð mín gáfu ekkert tilefni til þess, að svo hefði ekki verið, enda þó að jeg gæti þess að þessi merkilegi dómur væri af þeim, sem sjeð hefðu, lögfróðum sem ólögfróðum, álitinn eitt hið merkilegasta skjal í sinni röð. Þá fullyrðing hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að skuldin lægi hjá hreppsnefndinni, tel jeg honum alveg ósæmilega, þar sem hann vitanlega hefir ekki rannsakað málavextina.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að það væri hart að fara fram á lán, og biðja svo strax um eftirgjöf á því. Jeg finn enga ástæðu til að segja, að hjer hafi nein harðleikni átt sjer stað, því að fullkomlega verð jeg að álíta það sæmilegt að fá eftirgjöf á gerðum samningum, ef þess er hóflega leitað og fullkomnasta sanngirniskrafa mælir með því, og því vil jeg leyfa mjer að slá föstu, að þetta eigi sjer hjer stað.

Og hvernig sem annars fer um þessa brtt. mína, leyfi jeg mjer að slá því föstu, að hún eigi mun meiri rjett á sjer heldur en margar aðrar brtt., sem þegar hafa verið samþ., bæði í fjáraukalögum og fjárlögum.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir áður mælt með brtt. um veginn frá Hólum og að Kolkuósi, og lái jeg honum það ekki. Þess vegna finst mjer það óþarfi af honum að leggjast á móti minni brtt., sem er á jafnmiklum og sanngjörnum kröfum bygð.