03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þegar jeg lagði þetta frv. fyrir háttv. Nd., þá sýndi jeg fram á það, að ef tekjufrv. stjórnarinnar yrðu samþ. óbreytt og þetta frv. sömuleiðis, mundi verða um 100 þúsund kr. tekjuafgangur, eftir því, sem næst yrði komist. Nú hefir farið þannig með þetta frv. í háttv. Nd., að gjöldin hafa hækkað þar um hjer um bil hálfa miljón kr., svo að nú er tekjuhallinn um 400 þús. kr., ef gengið er út frá tekjufrv. stjórnarinnar samþ. óbreyttum. En nú er það vitanlegt, að þessi frv. verða ekki samþ. óbreytt, og áætla jeg mjög lauslega, að úr þeim verði dregið þannig, að þau gefi um 700 þús. kr. minni tekjur en áætlað er. En aftur er komið fram nýtt frv., er ætla má að gefi 300 þúsund kr. á ári. Eins og útlitið er nú, virðist því svo sem tekjuhallinn muni verða um 1/2 milj. kr., svo framarlega sem fjárlagafrv. tekur ekki breytingum í þessari hv. deild.

Jeg hefi viljað skýra frá þessu, til þess að sýna háttv. deild, að brýn nauðsyn er á að spara og draga úr gjöldunum eins og verða má, en það vil jeg taka skýrt fram, að þetta er aðeins áætlun, sem jeg set hjer fram, eins og ráða má af líkum, þar sem enn er óvíst um ýms af stjórnarfrv., sem tekjuauki er að.

Að öðru leyti vísa jeg til þess, er jeg sagði um fjárhag vorn við 1. umr. þessa máls í háttv. Nd.

Að lokinni þessari umræðu óska jeg, að frv. þessu verði vísað til háttv. fjárveitinganefndar.