07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

41. mál, fjárlög 1922

Forsætisráðherra (J. M.):

Fjármálaráðherra getur því miður ekki verið við þessa umræðu hjer, því að hann er bundinn í háttv. Nd.

Jeg hefi ekki mikið út á brtt. háttv. nefndar að setja fyrir mitt leyti, og skal því fara fljótt yfir sögu.

Vil jeg þá fyrst nefna 12. brtt., sem er um að lækka fjárveitingu til bæjargerðar í Reykholti. Jeg get eigi sjeð, að það hafi mjög mikla þýðingu í sjálfu sjer, hvort fjárveitingin er lækkuð eða eigi. Það hefði verið rjettast máske að orða fjárveitinguna „alt að“ einhverri ákveðinni fjárhæð. Það þarf að byrja á bæjarbyggingu þar, því að bærinn er orðinn svo hrörlegur, að varla hefir mátt búa í honum síðustu árin.

Presturinn í Reykholti hefir nú farið fram á, að reistur yrði þar bær, sem sæmdi þessu höfuðbóli, og fjárveitinganefnd Nd. hefir fallist á, að nauðsynlegt sje að reisa þar sæmilega góðan bæ, að mestu leyti á ríkisins kostnað. Jeg vona, að hann þurfi ekki að kosta eins mikið og húsagerðarmeistari gerir ráð fyrir, um 100 þús. kr. Jeg held annars, að rjett hefði verið að láta þessa fjárveitingu standa eins og hún kom frá háttv. Nd. Það er eigi mikið unnið fyrir 2500 kr.

Hitt er þó aðalatriðið, að eitthvað sje veitt, því að þá er það viðurkent, að ríkið eigi að styðja byggingu í Reykholti fram yfir á öðrum prestssetrum.

Við brtt. um styrk handa stúdentum við erlenda háskóla hefi jeg ekkert verulegt að athuga. Það er eflaust rjett að binda hann við ákveðið árabil, en hvort það á að vera endilega fyrstu 4 árin, það tel jeg efasamara. Það lítur helst út fyrir, að þingið vilji, að þetta komi alveg í stað rjettinda íslenskra stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla til Garðstyrks, eins og þau voru fyrir 1. desember 1918, og að stúdentar þessir ættu þá heimting á þessum styrk, að því leyti, sem þeir gætu ekki numið hjer þá námsgrein, sem þeir vilja stunda. Mjer þykir hjer helst til langt farið, en það verður að vera á þingsins valdi. Á hinn bóginn verður þá ekki farið um styrkveitingu eftir efnahag stúdenta. Þetta er og vandaminst fyrir ráðuneytið, svo að frá því sjónarmiði hefi jeg ekkert út á það að setja. En frá byrjun hefir verið nokkur vafi á, hvernig eigi að skilja þessa fjárveitingu, hvort veita eigi öllum stúdentum jafnan styrk eða helst þeim, er efnaminni eru.

Þá kem jeg að athugasemdinni um skólagjald Mentaskólans. Jeg skal þegar taka það fram, að jeg tel rjett að taka skólagjald við þennan skóla, en vel má vera, að ekki sje ástæða til að ráðstafa því eins og gert er ráð fyrir í frv. um lærða skólann. Getur vel verið, að rjettara sje að láta gjaldið renna beint í ríkissjóð, en veita svo aftur í fjárlögunum einhvern styrk, sem gengi til fátækra, efnilegra námsmanna. Reyndar er jeg nú ekki svo hræddur um, að það veki óánægju milli námssveina, eða sje á neinu hátt óþægilegt fyrir styrkþega, þótt skólagjaldinu væri skift beint milli þeirra.

Hins vegar hefir það verið oft talsvert umræðuefni á þingi, hvort þörf sje að veita námsstyrk við skóla þennan, ef kenslan er ókeypis. Það eru allmikil hlunnindi að fá þar ókeypis kenslu, sjerstaklega fyrir námsmenn, sem hjer eiga heima.

Aftur er jeg nefndinni samdóma um, að tæplega sje ástæða til, að svo stöddu að minsta kosti, að taka skólagjald við Akureyrarskólann. En sjerstaklega er jeg henni þó þakklátur fyrir það, að hún vill ekki taka skólagjald við Kennaraskólann, því að í slíkum skólum má ekki heimta skólagjald.