07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

41. mál, fjárlög 1922

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er þakklátur nefndinni fyrir það, að hún hefir haft mikinn vilja á að spara, því að á því var full þörf. Þó er það, sem jeg vil taka upp og styðja, til ósparnaðar. Það eru nefnil. símalínurnar milli Hólmavíkur og Reykjarfjarðar og Búðardals og Króksfjarðarness. Jeg vildi eindregið óska þess, að þessar fjárveitingar yrðu ekki feldar niður. Fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem háttv. þm. Vestmannaeyinga (K. E.) tók fram, að þær eru endurveiting og þingið er margbúið að lofa að styðja þessar símalínur.

Að eigi er búið að leggja þessar línur, stafar fyrst og fremst af fjárhagserfiðleikum. og í öðru lagi af því, að glundroði kom á málið, því að nokkrir menn fóru að hugsa um að hafa heldur loftskeytastöð, sem þegar varð augljóst, að var miklu óheppilegra. Því var fyrst haldið fram, að nauðsynlegt væri að leggja símann til Reykjarfjarðar, þegar læknirinn sat á Hólmavík. En þegar Reykjarfjörður var gerður að sjerstöku læknishjeraði, fanst þessi nauðsyn hverfa. og er það eitt, sem hefir átt þátt í því, að lagning þessarar símalínu hefir dregist. En nú er þessi nauðsyn orðin brýn aftur, því að enginn læknir fæst í þetta Reykjarfjarðarhjerað — og jeg gæti best trúað að þangað fengist aldrei búsettur læknir. — Þannig stendur ekki á um símalínuna milli Búðardals og Króksfjarðarness. heldur hefir lengi verið kvartað yfir því, að enginn sími lagi um Barðastrandarsýslu og Dalasýslu, nema syðst í henni. Þennan síma væri auðvelt að leggja, og hann lægi um miðja Dalasýslu, og hann yrði að miklum notum fyrir Barðastrandarsýslu, þó að hann kæmi aðeins austast í hana.

Það yrði því mikil bót fyrir næstu hreppana, og þá sjerstaklega Reykhólahrepp, enda væri hægra að framlengja línuna síðar.

Jeg vil því leyfa mjer að leggja til, að þessar fjárveitingar verði báðar látnar standa í fjárlögunum, fyrst og fremst af því, að þær eru endurveitingar, og jeg tel ekki tilhlýðilegt af þinginu að halda ekki þessi loforð sín. Það yrði þá ekki hægt að kenna því um, þótt ekkert yrði úr lagningu þessara lína af einhverjum öðrum ástæðum.

Það gæti líka vel komið fyrir, að efni fjelli í verði, t. d. staurar, og þeir yrðu pantaðir seinni part næsta sumars, og þá hægt að flytja þá út að vetrinum, enda eigi hægt að flytja þá út nema að vetrarlagi. Gæti þá komið sjer vel að hafa þetta fje til að grípa til.

Annars er jeg þakklátur nefndinni fyrir það, að hún hefir reynt að spara. — Og viðurkenni jeg það, að henni sje vorkunn, þótt hún hafi viljað fella þessar fjárhæðir niður, því að hjer er um stórfje að ræða.