28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg ætla að byrja á því að svara þeim spurningum, er síðast komu fram. Jeg tel enga nauðsyn á að setja ákvæði um það í lögin, að senda megi sendiherrann til annara ríkja, þegar þurfa þykir. Mjer finst það liggja í augum uppi, að til manns þessa megi grípa, hvenær sem nauðsyn þykir krefja. Sömuleiðis sje jeg enga nauðsyn til þess að setja ákvæði í lögin um það, að sendiherrann sje ræðismaður. því jeg geri ráð fyrir að sendiherraskrifstofan hafi einmitt þau störf með höndum, svo ekkert sjerstakt lagaákvæði þurfi þar um.

Að öðru leyti þykir mjer ekki nauðsyn til að fara langt út í ástæður fyrir þessu frv. Jeg gerði það áður, er jeg lagði frv. fram, og hefi engu við það að bæta.

En mig furðar á mótstöðu þessa frv. nú. Ef menn vilja hafa sendiherra, hvers vegna þá að vera á móti því að heimila það með lögum. Og óneitanlega er það viðkunnanlegra fyrir þjóðina, ef hún telur þörf á að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, að skipa fyrir um það með lögum, eins og það er ólíkt rjettara gagnvart sendiherranum sjálfum heldur en að láta heimildina að eins standa í fjárlögunum. Hver maður vill að sjálfsögðu hafa þetta ákveðið fyrir lengri tíma en eitt ár í senn.

Það er sjálfsagt, að ákvæði um laun sendiherra sjeu tekin upp í launalög, þegar þeim verður breytt.

Hvað viðvíkur því, að heimilt væri að ákveða gjaldskrá, þótt þessi lög væru ekki, þá er því til að svara, að stjórnin hefir að vísu gefið út gjaldskrá, en í þeirri von, að fá heimild til þess hjá hinu háa Alþingi, því að án lagaheimildar er varla hægt að krefja gjalds fyrir alt það, er þar þarf að setja ákvæði um. Annars væri hætt við, að þeir, sem gjaldið ættu að greiða, einkum ef það væri svo hátt að um munaði, færðust undan því, vegna þess að lagaheimild vantaði.

Að svo mæltu vona jeg, að háttv. deild lofi málinu að fara áfram.