07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

41. mál, fjárlög 1922

Sigurður Jónsson:

Það er ekki margt, sem jeg þarf að athuga. Ef jeg hefi skilið háttv. frsm. (S. H. K.) rjett, þá er það skoðun nefndarinnar, að ekki beri að einskorða styrkinn til búnaðarfjelaganna svo, sem hv. Nd. vildi. Þessu er jeg fullkomlega sammála. Það kann að vera tímabært í einstaka sveitum, en alment mun það ekki vera, og allra síst í fámennum og strjálbygðum sveitum.

Nokkrar upplýsingar vil jeg gefa viðvíkjandi 43. lið, þar sem jeg er málinu kunnugur, en nægilegar upplýsingar munu ekki hafa legið fyrir nefndinni, eftir því sem mjer skildist á háttv. frsm. (S. H. K.). Þeir Gestur Einarsson á Hæli og Ágúst Helgason í Birtingaholti gerðu tilboð um að grafa skurðinn í Miklavatnsmýri. Var tilboði þeirra tekið. En tilboðið var miðað við, að jarðvegurinn væri þægilegur viðfangs, eins og hann hafði reynst við smærri skurðgrefti þar í nánd. En er til kom, var móhellulag í jarðveginum, sem þurfti að höggva. Tafði þetta verkið. Auk þess töfðu frost mjög. Við alt þetta bættist svo það, að kaup hækkaði stórum, frá því er tilboðið var gert, þar til verkinu var lokið. Bændurnir urðu því að borga mikið meira út en ráð hafði verið fyrir gert. Þeir sendu því stjórnarráðinu reikning, þar sem þeir sýndu, hver kostnaðurinn varð, og fóru fram á uppbót. Vegamálastjóri, sem var máli þessu mjög kunnur og hafði gert samninginn við bændurna, lagði til, að þeim yrði borgað nokkuð af kostnaði þeim, sem hafði orðið fram yfir áætlun. Stjórnarráðið borgaði bændunum þá þegar nokkuð af þeirri upphæð, sem vegamálastjóri lagði til, að þeim yrði greidd. En af henni stóðu þó eftir 1800 kr., sem nú er farið fram á, að greiddar verði.

Á síðasta liðinn vil jeg líka minnast. Efasamt er, hvort rjett er að veitá ábyrgð á svo miklu fje, að minsta kosti í bráðina. Á næsta þingi er hægt að bæta við, ef rannsókn er þá um garð gengin og ýmsar upplýsingar fengnar, sem nú eru ekki fyrir hendi.