07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Það eru aðallega tvær breytingartillögur, sem jeg vil minnast á. Fyrst er 24. brtt. Þar stendur: „Til aðstoðarmanns við safnið, er sje fastur ársmaður“. Þetta ákvæði finst mjer hlutaðeigandi manni ekki vera í hag. Því að sje það meiningin, að starf þetta verði hans aðalstarf, þá sjá allir, að hann getur ómögulega tekið það að sjer fyrir þessa borgun. Því að enginn getur nú lifað af 4400 kr. á ári. Sjerstaklega ekki þessi maður, sem er nýkominn frá Kaupmannahöfn, og þaðan koma námsmenn, eins og flestir vita, ekki með gull, heldur með skuldir. Afleiðingin af því að ákveða, að þetta starf skuli vera mannsins aðalstarf, yrði því sú, að hann yrði útilokaður frá því að taka starfið að sjer, og að því væri safninu skaði, þar sem viðurkent er, að þessi maður er nýtur maður og þarfur safninu. Því vildi jeg láta þennan lið standa óbreyttan eins og hann kom frá hv. Nd.

31. liðurinn við 15. gr. er lækkun á styrk dr. Helga Jónssonar. Nefndin vill færa styrk hans úr 3000 kr. niður í 2000 kr. Helgi Jónsson er natinn vísindamaður og hefir unnið mikið í þarfir vísindanna, þótt hann hafi haft mjög lítil laun og átt við marga erfiðleika að stríða. Vildi jeg mælast til, að þessar 3 þús. kr. fengju að standa. Hefir Helgi sýnt svo mikinn áhuga í sínu starfi, að hann á þær vel skilið.

Þá er 40. brtt., um að fella niður styrk til leiðbeiningar um raforkunotkun. (S. H. K.: Hún er tekin aftur). Já, jeg hefi einmitt heyrt það. En jeg var svo óheppinn að vera ekki við, er háttv. frsm. (S. H. K.) gerði grein fyrir því, hvers vegna hún væri tekin aftur. Og af því að jeg er fullkomlega samþykkur þessari brtt. nefndarinnar, þá tek jeg hana upp aftur. Vil jeg alls ekki láta hana falla niður, nema jeg heyri rækilegar ástæður fyrir nauðsyn þess.

Á móti 42. brtt. verð jeg að mæla. Jeg er, og hefi altaf verið, mjög velviljaður fyrirtæki Vestmannaeyinga, og get því ekki fallist á, að rjett sje að lækka styrk þann, sem hv. Nd. hefir viljað veita þeim. Annars vil jeg ekki fjölyrða um þennan lið; jeg veit, að þingmaður kjördæmisins mun tala um hann, og er hann öllum málavöxtum kunnugri en jeg.

Með 50. till. við 18. gr. mæli jeg. Nefndin fer þar fram á, að styrkurinn til ekkju Jóhanns Sigurjónssonar verði hækkaður úr 1000 kr. upp í 1800 kr. Hún er kona þess skálds, sem hefir borið nafn þessarar þjóðar einna lengst. Ekkja hans lifir nú við fátækt, og getum við ekki sýnt betur ræktarsemi okkar við hið dána skáld en með því að hlaupa undir bagga með henni í vandræðum hennar.

Nefndin hefir bætt við nýjum lið, 52. liðnum í brtt. Jeg efast ekki um þörfina á þessu fje. En fjárhagurinn er erfiður, svo ekki getur komið til mála, að ríkissjóður geti lánað fjeð. Ábyrgð getur aftur komið til greina, og vildi jeg helst, að liðurinn væri svo orðaður, að um það eitt væri að gera.