07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

41. mál, fjárlög 1922

Karl Einarsson:

Jeg vil ekki þreyta menn á því að tala langt, aðeins vil jeg fara nokkrum orðum um styrkinn til Þórs, eða rjettara sagt til bæjarsjóðs Vestmannaeyja, til þess að gera út skipið Þór. Mætti tala margt um það mál, og bæta mörgu við það, sem jeg sagði hjer, þegar fjáraukalögin voru til umræðu.

Fyrst vil jeg þá upplýsa það, að kostnaðurinn við útgerð bátsins verður meiri en búist var við, því að á bæjarstjórnarfundi 30. apríl var samþykt að hætta ekki að gera hann út 1. maí, heldur halda áfram til 11. maí, eða til vertíðarloka. Til þessarar ákvörðunar dró hin brýnasta nauðsyn, því að við sjálft lá, að það sem eftir var vertíðarinnar færi út um þúfur, ef það yrði ekki gert, en annars varð útlitið dágott. Allur aflinn var út á hinum svonefnda „banka“, og hver nauðsyn var á eftirliti Þórs upplýsist best með skeyti, sem jeg fekk frá Eyjunum nú fyrir nokkrum dögum. Vil jeg lesa upp skeytið, með leyfi forseta:

„Síðan 29. apríl hafa um 60 mótorbátar mokaflað á bankanum, langt utan landhelgi. Þar er fjöldi útlendra fiskiskipa. Þór er þar stöðugt og heldur opnu svæði fyrir netabátana. Þessi afli stórbætir hag útvegsins, sem leit illa út. Þegar tími vinst til, verður hægt að sanna, með vitnisburði sjómanna, að gæsla Þórs ræður mestu um aflabrögð á þessu svæði“.

Þetta er mjög skiljanlegt, því að þetta er á opnu hafi, og væri Þór ekki til að hafa eftirlit, færu togararnir í netin og skemdu bæði fyrir sjer og öðrum.

Hin háttv. deild ætti að athuga það vel, að það, sem þingið styrkir okkur til útgerðar Þórs, gerir hún ekki að eins fyrir okkur, heldur fyrir alt landið, því að svo best vegnar landinu vel, að hver geti stundað sína atvinnu í friði.

Jeg tók það fram, þegar rætt var um fjáraukalögin, að skipið hefði bjargað 6 mönnum. Eftir því sem mannlegt vit nær til, mundu þeir áreiðanlega hafa druknað, ef Þór hefði ekki komið þeim til hjálpar. Jeg vil minna háttv. þm. á það, að sje þetta rjett, þá eru nú, fyrir aðgerðir Þórs, 6 duglegir Íslendingar lifandi, sem annars mundu dauðir. Þótt þessir 6 menn sjeu sjómenn, en ekki embættismenn, þá er þó líf þeirra mikilsvert. Jeg met líf þeirra hvers um sig ekki minna en mitt eigið. Yfir höfuð met jeg líf allra Íslendinga jafnt.

Jeg mintist á það við 2. umr. fjáraukalaganna, að Vestmannaeyingar borguðu síðastliðið ár 400 þús. kr. í ríkissjóð. Nú vil jeg benda mönnum á, hversu mikið Vestmannaeyingar borga í tekjuskatt. Þeir borguðu árið 1918 ca. 5 þús. kr., 1919 15 þús. kr. og 1920 13 þús. kr. Munurinn fyrsta og síðasta árið er mikill, þótt hann kunni að stafa að nokkru leyti af því, að þeir, sem sömdu skrána fyrst, höfðu hana fulllága, eins og víða vildi brenna við. En 1921 er þó skatturinn miklu mestur. Ekki veit jeg upphæðina samanlagða, en einn maður borgar um 15 þús. kr. í tekjuskatt, einn er með tæp 6 þús. kr., annar með rúm 2 þúsund krónur, og nokkrir með í kringum 1000 kr. Samtals eru gjaldendurnir á þriðja hundrað, svo að skatturinn þetta ár mun margfaldur á við það, sem hann var fyrri árin. Þetta sýnir ljóslega, að framfarir eru í atvinnuvegunum, og ekki ætti það að styggja menn frá að veita styrk til þess að vernda þá.

Viðvíkjandi styrkupphæðinni má geta þess, að Vestmannaeyingar hafa lagt út 385 þús. kr. til þess að kaupa skipið og gera það út. Upp í rekstrarkostnaðinn, sem var 225 þús. kr. árin 1920 og 1921, vill þingið veita alls 40 þús. kr. Það er að vísu góðra gjalda vert, að þingið vill virða það við okkur, að við höfum ráðist í þetta — því að svo skil jeg það, að það vill þó styrkja okkur eitthvað —, en jeg lít svo á, að ekki hefði veitt af þeim styrk, sem háttv. Nd. vildi veita. Því að þótt gera megi ráð fyrir, að útgerðarkostnaðurinn minki, þá mun hann þó altaf verða svo mikill, að upphæð sú, sem Nd. vildi veita, mun aldrei nema meiru en 1/3 kostnaðar, því að kostnaðurinn verður altaf talsvert meiri fyrir það, að yfirmönnunum verður að halda einnig þann tíma árs, sem skipinu er ekki haldið úti. Við höfum nú náð í mjög duglega og ágæta yfirmenn, og þá megum við ekki missa. Jeg vona, að nefndin taki það ekki illa upp, þótt jeg verði að greiða atkvæði á móti brtt. hennar, og vildi jeg mælast til þess, að háttv. deildarmenn gerðu hið sama. Jeg er ekki vanur að fara með spádóma, en þó veit jeg með vissu, að nafn þeirra manna mun geymast, sem vilja styrkja þá menn, sem hafa stigið fyrsta sporið til að verja líf sjómannanna og gæta rjettmætra eigna landsmanna.