07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það er aðeins einn liður í brtt. nefndarinnar, sem jeg vildi minnast lítið eitt á, og það er sá liðurinn, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) talaði um.

Jeg ætla að segja frá, hvernig þessum lið er varið. Þegar stjórnin bjó til frv. þetta, þá áleit hún það skyldu sína að reyna að spara, og kom það auðvitað harðast niður á þeim greinum, sem snerta samgöngur og atvinnuvegi, því að þar er helst einhverju til að miðla. Hinsvegar er mikið í fjárlögunum lögmælt, föst gjöld, sem ekki var hægt að draga af. Það eru tveir liðir í 16. gr., sem jeg vildi minnast á. Annar er styrkur til Búnaðarfjelags Íslands og hinn er styrkur til búnaðarfjelaga. Mjer var töluvert ant um Búnaðarfjelag Íslands, og vildi að það fengi svo fullkominn styrk, að ekki truflaðist sú starfsemi, sem ákveðin var á búnaðarþinginu 1919 og nokkuð er á rekspöl komin, og að það fengi sem næst sama styrk og er í fjárlögunum, að viðlagðri dýrtíðaruppbót, sem ákveðin var á aukaþingi 1920.

Til þess að þetta gæti gengið, ætlaðist jeg til, að styrkurinn til búnaðarfjelaga fjelli niður. Á honum var ekki eins mikil þörf og áður, fyrir svona 20 árum. Þá gat hann haft sína þýðingu, sem örfandi styrkur til stofnunar búnaðarfjelaga og til jarðabóta í sveitum. Styrkurinm var upphaflega 20 þús. kr., og hjelst það lengst af, en hækkaður 1917 upp í 30 þús. kr. Fjelögum fjölgaði auðvitað mikið og sífelt frá því upphaflega, og fjelagsmönnum að sama skapi, en styrknum var skift milli þeirra eftir dagsverkatölu fjelaganna, og varð því minni á hvert dagsverk, því fleiri, sem þau urðu. Að lokum varð hann hlægilega lítill, ef honum var skift upp eftir dagsverkatölu, en svo mun vera farið að enn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hefir fært rök að þessu og getið þess, sem jeg þekti áður, að styrknum væri skift upp milli fjelagsmanna eftir dagsverkatölu, og er þá lítil uppörfun að honum, með því að brytja hann niður í smá hrognamæla og dreifa þeim út um alt land. Jeg talaði um það 1915, að þessi styrkur væri feldur niður, og var það gert annað árið, en ekki hitt; en svo var komið með þá tillögu, að búnaðarsamböndunum í hjeruðunum væri falið að hafa áhrif á hvernig styrknum skyldi varið, en það kom víst ekki að neinum notum, því að þau höfðu ekki styrkinn til meðferðar.

Fjvn. Nd. tók styrkinn upp aftur, en frsm. lýsti því yfir, að það væri ekki meiningin að skifta styrknum upp á milli einstakra fjelagsmanna eftir dagsverkatölu, heldur ætti að hafa hann til fjelagslegra nota í hverju fjelagi. Hins vegar yrði að úthluta honum milli fjelaganna, með tölu dagsverkanna sem mælikvarða, þar eð ekki væri hægt að fara eftir öðru við útbýtinguna. Þetta fjekk góðan byr í Nd., og þar kom fram brtt., er gekk út á, að þetta væri lögfest. Jeg lýsti því þá yfir, að best væri að setja skilyrði í þessa átt, og að stjórninni væri gefin heimild til að heimta skýrslur, svo sönnun væri fengin fyrir því, að styrkurinn væri ekki brytjaður niður til ónýtis. Legg jeg því til, að athugasemdin standi óbreytt. Að öðrum kosti má líta svo á, að full heimild sje til að brytja styrkinn niður og skifta honum á milli einstakra fjelagsmanna, og verður þá, eins og tekið hefir verið fram, lítil uppörfun í honum; en jeg álít, að það, sem er kjarni málsins, sje að styrkja fjelögin svo, að þau geti starfað sem fjelög. Annars ætla jeg ekki að taka neinn þátt í neinum stælum um þetta, en get aðeins getið þess, að þetta hafði yfirgnæfandi meiri hl. í Nd., og jeg efast ekki um, að ef svo færi, að það væri felt hjer, þá yrði það sett inn aftur.