07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

41. mál, fjárlög 1922

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætla einungis að bæta örlitlu við ræðu hæstv. forsrh. (J. M.). Jeg vildi benda á, að á þessu þingi liggur fyrir heimild í þál.till. til stjórnarinnar, um að láta rannsaka Sogsfossana. Og mjer þætti undarlegt, að úr því þingið vill láta rannsaka Sogsfossana og heimilar stjórninni fje til þess, ef það vildi eigi trúa stjórninni fyrir fjárhæð þeirri, er hjer ræðir um, til rannsókna smærri vatnsfalla. (S. E.: Jeg tek till. aftur). Jæja.

Annað vildi jeg og benda á í þessu sambandi. Guðm. Hlíðdal verkfræðingur, sem hefir undanfarið verið til leiðbeiningar um smærri raforkustöðvar, hefir ávalt á ferðum sínum, þegar hann hefir komið því við. athugað læki og fallvötn, sem hugsanlegt væri, að nota mætti til smærri raforku. Þetta er nú komið nokkuð á veg, en alls eigi svo, að sjeð verði, hvað af lækjum og fallvötnum er hentugt í þessu skyni, og ef fjárveiting þessi yrði algerlega feld niður, yrði eigi unt að halda þessum rannsóknum áfram.